14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Eins og getið hefir verið, hefir nefndin eigi borið sig saman um brtt. þessar, en hinsvegar get jeg þegar lýst yfir því, að jeg get mjög vel fallist á till., vegna þess, sem þegar hefir verið tekið fram, að með þeim er ákveðið, að Alþingi skuli hafa úrskurðalvaldið í máli þessu, og jafnframt sleginn varnagli, ef ríkisstjórnin skyldi vera of fús á að selja þessa eign landsins undir verði.

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að frammistöðu hæstv. atvrh. (MG) í máli þessu. Það hefir nefnilega komið fram, að hann hefir tjáð sig fúsan til að selja allar Vestmannaeyjar fyrir 250 þús. kr. Að vísu hefir hann eigi viljað standa við þessi orð sín síðar, en segist aðeins hafa sagt, að renna myndu á sig „tvær grímur“, ef ríkissjóður ætti kost á slíkri fjefúlgu fyrir Eyjarnar. Þetta orðalag hans er eigi hægt að skilja öðruvísi en sem persónulega játningu hæstv. atvrh. (MG) um það, að honum finnist þetta næsta viðunanlegt.

Hjer er því aðeins um tvent að gera. Annaðhvort er hjer um frámunalega ljelega rannsókn og þekkingarleysi að ræða, eða þá hitt — sem jeg vil þó síður trúa — að þetta sje ekki annað en dálaglegur bitlingur, sem stinga eigi að hv. þm. Vestm. (JJós). Önnurhvor þessara ástæðna hlýtur að liggja til grundvallar fyrir slíkri framkomu. Hæstv. atvrh. (MG) hefir engu svarað fyrri ummælum mínum um þetta efni, enda hefir hann eigi getað það.

Annars finst mjer, að hann mætti vel við una, ef árangurinn af þessum umræðum yrði sá, að ríkissjóður græddi meira á sölu þessarar ríkiseignar en hann ætlaði að gera sig ánægðan með. Ef svo færi, að Vestmanneyingum fyndist verðið sett svo hátt, að þeir myndu tapa á kaupum, býst jeg við, að þeir ímyndi eigi leggja út í þau. Hinsvegar þurfa þeir alls eigi að búast við, að fá þessa ríkiseign að gjöf.

Jeg vil að endingu lýsa yfir því, að jeg mun fylgja brtt. þessum, en tel mig hinsvegar eigi bundinn við væntanlegt mat, nema jeg telji hag ríkissjóðs fullkomlega borgið.