14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekkert sjerstakt athuga við brtt. á þskj. 324, nema að jeg vildi spyrja, hvernig háttv. flutnm. hafi hugsað sjer að leggja þetta mál fyrir Alþingi. Annaðhvort verður að leggja það fyrir þingið sem frv. eða þáltill. Ef það verður borið fram í lagaformi, kemur það alleinkennilega fyrir sjónir, þar sem svo er ákveðið í 1. gr. þessa frv., að stjórninni veitist heimild til að selja eign þessa. En auðvitað má fara hina leiðina, að bera málið fram sem þáltill.

Hv. 2. landsk. (SJ) er hreinskilinn og sjálfum sjer samkvæmur. Hann er andstæður frv. vegna þess, að hann vill ekki selja neinar þjóðeignir. Er það sú sama skoðun, sem hann hefir haldið fram áður um sölu þjóðjarða. Aftur verð jeg að skilja svo aðstöðu þeirra, sem fylgja brtt., að þeir vilji í raun og veru selja, ef þeir geti gert sig ánægða með verðið. Annars myndu þeir ekki vilja leggja í neinn kostnað út af þessu máli.

Hv. 5. landsk. (JJ) hjelt enn áfram vitnaleiðslu sinni frá því við 2. umr. Hefir hann auðheyrilega þóst fara halloka í viðskiftum sínum, og lái jeg honum það ekki. Honum hefir ekki tekist ennþá að fá samhljóða vitnisburð frá neinum sinna manna, enda er alt rangt, sem hann sagði um miljónarfjórðunginn, sem hann gerir raunar að 200 þús. í Tímanum síðast, líklega til að gera málið eitthvað sögulegra í frásögninni. Jeg neita því enn, að jeg hafi komið með nokkur tilboð viðvíkjandi sölunni, enda veit jeg ekki, hvaðan mjer hefði átt að koma heimild til slíks. Hins gat jeg, að renna myndu á mig tvær grímur, ef boðnar væru 250 þús. kr. fyrir þessa eign. En nú heldur hv. þm. (JJ), að upphæðin sje aðalatriðið í þessu, en ekki ummælin, sem fylgdu.

Hvað annars snertir leiguna á þessum lóðum, þá get jeg gefið upplýsingar um það, að 600 ferálna lóðir eru leigðar til 80 ára á 6 kr. á ári. Ef gengið er út frá 5% rentu, þá samsvarar þetta 125 kr. verði á lóðinni eða 150 kr., ef reiknað er með 4% rentum. Í fasteignamatinu er slík lóð virt á 400 kr., eða þrisvar til fjórum sinnum meira en hún rentar sig fyrir ríkissjóðinn 80 árin næstu. En er þá ekki eins gott að fá peningana fyrir lóðina útborgaða strax og leggja þá á vöxtu? Mismunurinn á söluverðinu, 250 þús. kr., og því, sem lóðirnar nú gefa af sjer, mundi með vöxtum eftir 80 ár nema 800.000–1000.000 kr. í þessu efni hefir það ekkert að segja, þó lóðirnar hækki í verði, ef þær eru leigðar til svo langs tíma með umsaminni leigu. Jörð, sem er leigð til lífstíðar, selst ekki meira verði en hún rentar sig fyrir. Þetta hefir hv. meirihl. nefndarinnar ekki athugað nægilega, þó það raunar kæmi fram hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP), að matið í Vestmannaeyjum sje ekki eins ábyggilegt og annarsstaðar. Það liggur í hlutarins eðli, að lóðirnar hafa verið metnar eftir því, sem þær ganga manna á milli, en það er annað en það, sem ríkissjóður fær af þeim, þar sem hann er bundinn óriftanlegum leigusamningum til langs tíma. En það segir sig sjálft, að þegar lóðir eru leigðar út til 80 ára, þá er þar með veitt heimild til þess fyrir leigutaka að mega selja og veðsetja leigurjettindin. — Þessi fáviska, sem hv. þm. (JJ) er að tala um, er því öll hans megin. Hann hefir ekkert athugað málið, brestur þar af leiðandi skilyrði til að geta sagt nokkuð skynsamlegt um það, og meðan svo er, ætti hann líka að láta hina „mórölsku“ hlið málsins liggja milli hluta.