14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Eggerz:

Út af orðum hæstvirts atvrh. (MG) um þessa till., get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður tekið fram. Eins og hv. þm. er kunnugt, leggur meirihl. það til, að málinu sje vísað til hæstv. stjórnar, til rannsóknar, og verði svo þingið seinna látið ákveða um söluna. Þar sem nefnil. bæði fasteignamat er fyrir hendi, og þar sem hæstv. stjórn myndi auk þess geta gefið nokkrar upplýsingar, þá ætti þinginu ekki að verða skotaskuld úr því, að mynda sjer skoðun á málinu. En þegar nefndin leggur þetta til, þá er auðvitað, að hún gengur út frá því, að sala geti komið til mála. Að kasta málinu úr höndum þingsins er auðvitað óhugsandi. Hinsvegar sje jeg ekki, að annað mat á verðmæti Eyjanna reynist ábyggilegri grundvöllur undir söluverðið en fasteignamatið er, nema hvað það er af flestum viðurkent að vera helst til lágt. En jeg er svo mikill sparnaðarmaður, að jeg vil ekki leggja, allsendis að óþörfu, stór útgjöld á ríkissjóðinn, sem nýtt mat og rannsókn hlyti óumflýjanlega að hafa í för með sjer.

Jeg myndi gjarnan vilja fara nokkuð út í útreikning hæstv. atvrh. (MG), þó jeg sleppi því að mestu nú. Hann var að tala um, hvað 250 þús. kr. yrðu eftir 60 ár. Jafnt það fje, sem ríkið fær, sem hvað annað fje, kemst auðvitað undir hið almenna lögmál vaxtanna.