14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Forsætisráðherra (JM):

Út af því, sem sagt hefir verið um útnefningu matsmanna, vil jeg láta þess getið, að þar sem matsmenn eiga að vera búsettir utan Vestmannaeyja, þá er þar með sagt, að bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum á ekki að nefna þá. Hann hefir ekki heimild til að kveðja menn, nema í sínu eigin lögsagnarumdæmi. Þegar Hafnarfjörður keypti nokkurt land af ríkinu, er metið var, voru matsmenn teknir úr Reykjavík og nefndir til af bæjarfógetanum hjer. Jeg vil þó ekki beinlínis segja, að þetta sje ómögulegt fyrir bæjarfógetann í Vestmannaeyjum, ef mennirnir samþykkja það fyrirfram. Það er tæplega gert, að minsta kosti ekki, er ríkið á í hlut.

Ekki get jeg sagt, að jeg sje beint á móti því, að ákveða, að hæstirjettur kveðji matsmenn; en jeg verð að segja, að dálítið þykir mjer það óviðkunnanlegt, nema hæstirjettur hafi sjálfur samþykt það.