14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú skýrt frá því, að það sje munurinn á 200 þús. og 250 þús., eða 50 þús. krónur, sem hann vill ávaxta í 60 ár. Telur hann, að sá munur græðist á sölunni, en það er nú allathugaverð staðhæfing. Því þó leigurnar sjeu nú aðeins 10 þúsund, hvað verða þær eftir 10 ár, ef þær verða smátt og smátt fimmfaldaðar eða tífaldaðar. Og svo ennfremur, hvers virði eru Vestmannaeyjar orðnar eftir 60 ár?

Annars þykir mjer framkoma hv. þm. Vestm. (JJós) harla einkennileg. Hann ræðst á mig með stóryrðum fyrir stefnubreytingu í málum þessum. Hvar er sú stefnubreyting? (JJós: Hvar eru stóryrðin?) Það þýðir ekkert að vitna í Hvanneyrarsöluna í þessu sambandi, því þar er aðstaðan alt önnur. En hvað hefi jeg annars lagt til nú? Það eitt, að ekki verði hrapað að sölu Eyjanna undirbúningslaust, heldur verði málið rannsakað gaumgæfilega og síðan lagt fyrir þingið aftur. Alt hjal um stefnubreytingu hjá mjer er því ekkert annað en bull. (Forseti, HSteins: Þetta er ekki þinglegt orð.) Þá verð jeg að reyna að finna eitthvert annað orð. (JJ: T. d. „bjánaskapur“.) Hv. þm. skilja annars vel, hvað jeg meina.

Jeg hefi sýnt fram á, að framkoma mín er enganvegin í ósamræmi við framkomu mína áður í svipuðum málum, og þarf ekki að fjölyrða frekar um það atriði.

En jeg er ekki viss um, að þessi nýi „mórall“, sem hv. þm. Vestm. (JJós) vill innleiða um sölu á fasteignum ríkisins, þyki til fyrirmyndar. Það er alviðurkent, að fasteignamatið er yfirleitt svo lágt, að ef „prívat“-maður er spurður að því, hvort hann vilji selja fasteign sína fyrir fasteignamatsverð, þá hlær hann að slíkri firru. En hjer á að gera menn tortryggilega, ef þeir vilja ekki gleypa við því, að selja Vestmannaeyjar langt undir fasteignamatsverði.

Jeg verð að segja, að í þessu máli er rekin ósæmileg hreppapólitík, og það er enganvegin heppilegt að koma því inn hjá fulltrúum þjóðarinnar, að þeir eigi að vera ólmir með sölu fasteigna ríkisins fyrir svo sem 1/2–2/3 fasteignamatsverðs, aðeins ef háttv. kjósendur æskja kaupanna. Og ekki mun jeg blikna nje blána, þó að mjer sjeu sendar hnútur fyrir að vilja ekki kasta einum auðsælasta bletti landsins fyrir verð, sem er langt fyrir neðan fasteignamat.

Og það mun sannast, þegar til þjóðarinnar kasta kemur, þá verður ekki talinn neinn fyrirmyndarbúskapur að vilja selja Eyjarnar svo vægu verði. Ef mönnum, sem hafa til að bera agnarögn fjármálavits, verður tíðrætt um þetta frv. hv. þm. Vestm. (JJós), þá verður þeim það eitt á að brosa, brosa að fífldirfsku hv.þm. (JJós), þegar hann hjelt, að hann fengi meirihl. þingmanna til fylgis við þau firn, að selja Eyjarnar fyrir svo hlægilega lágt verð.

Af því hæstv. atvrh. (MG) vildi slá því föstu, að við í meirihl. fjhn. hefðum bundið atkv. okkar með endanlegri sölu Eyjanna, þá skal jeg fyrir mitt leyti lýsa yfir því, að mitt atkvæði mun fara eftir því, hvort jeg verð ánægður með matsverðið, hvort jeg tel það, eftir atvikum, hæfilegt söluverð.

Ef matsverðið verður þannig, að um tjón sje að ræða fyrir ríkissjóðinn, þá get jeg ekki með atkvæði mínu heimilað söluna. Ef verðið yrði annars svo hátt, að jeg teldi athugavert fyrir Vestmannaeyjar að hleypa sjer í kaupin, þá gæti jeg heldur ekki heimilað söluna. Margs er að gæta.

Jeg skal enda mál mitt með því að undirstrika, að þá er hreppapólitíkin farin að færast í aukana hjer á þingi, ef að það þykir rjett, að ráðist sje á menn með gífuryrðum, þó að þeir segi nei við annari eins óhæfu og þeirri, að selja Vestmannaeyjar meira en helmingi lægra verði en fasteignamat þeirra segir til.