13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

7. mál, sjúkratryggingar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta mál hefir áreiðanlega mikla þýðingu fyrir alla landsmenn, og það er vafasamt, að önnur mál liggi fyrir þessu þingi, sem hafi meiri áhrif á liðun hvers einstaklings meðal þjóðarinnar. Þetta var allshn., sem hafði þetta mál til meðferðar, ljóst, og þessvegna taldi hún skyldu sína að athuga þetta mál sem allra best og afla sjer upplýsinga og fræðslu um það, svo sem kostur var á.

Nefndin snjeri sjer til landlæknis og beiddist umsagnar hans um málið. Landlæknir varð fúslega við tilmælum hennar og kom á fund með henni, þar sem hann ljet álit sitt í ljós. Hann hafði snúið sjer til stjórnar Berklavarnafjelags Íslands, beðið um álit hennar, og á þessum fundi, þar sem landlæknir mætti, ásamt nefndinni, lagði hann fram álitsskjal frá stjórn Berklavarnafjelags Íslands. Þetta skjal er prentað sem fylgiskjal á þskj. 153; vona jeg; að allir hv. þdm. hafi lesið það, svo að jeg þurfi ekki að fara langt út í það, sem þar stendur.

Jeg skal geta þess, að landlæknir tjáði sig í flestum atriðum sammála því, sem greinir á álitsskjali Berklavarnafjelagsins, og jeg skal strax geta þess, að nefndin er í mörgum atriðum sammála því, sem kemur fram í þessu álitsskjali og sem kom fram hjá landlækni. Í þessu álitsskjali er því haldið fram, að þótt þetta frv. heiti frv. til 1. um sjúkratryggingar, þá sje það í raun og veru ekki trygging, sem frv. fari fram á, heldur fari það fram á það, að stofnaðir sjeu styrktarsjóðir, og að þessir sjóðir sjeu stofnaðir með almennum nefskatti.

Stjórn Berklavarnafjelagsins heldur því fram, að frv. sje því í eðli sínu hreint og beint skattafrv. Trygging sje það, þegar ákveðin gjöld eru greidd gegn ákveðnum bótum, þegar óhöpp ber að höndum, í þessu tilfelli sjúkdómar. Þetta þekkjum við í öllum tryggingafjelögum, sem kunn eru hjer á landi, en nú er það engin bein trygging, sem felst í þessu frv. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að sjúklingar sjeu styrktir með fjárframlögum úr þessum sjóðum, en kröfu til styrks hafa sjúklingar ekki eftir frv., heldur er það undir atvikum komið og undir úrskurði þar til kvaddra manna, hvort þeir skuli styrktir eða ekki, og styrkurinn er í eðli sínu ekki trygging.

Þá er ennfremur bent á það, að frv. hafi ekki neinn beinan sparnað í för með sjer fyrir þjóðarheildina, heldur flytji það gjöldin aðeins til. Þessum atriðum, sem jeg nú hefi talið, var nefndin yfirleitt samþykk.

Samkv. frv. á að nema 14. gr. berklavarnalaganna úr gildi, og samkv. því eiga líka berklaveikir sjúklingar að ganga fyrir öðrum um styrk úr þessum sjóðum, með öðrum orðum, að berklavarnakostnaðurinn, sem nú hvílir á ríkissjóði og sýslusjóðum, myndi, ef þetta frv. verður að lögum, koma á þessa sjóði. Má því telja alveg víst, að það mundi verða mjög lítill afgangur til annars; berklaveikiskostnaðurinn myndi sennilega taka mestallar tekjumar. Aðaltilgangurinn með þessu frv., eða aðalbreytingin, sem þetta frv. mundi gera, er því óneitanlega sú, að ljetta kostnaði af ríkissjóði og færa hann yfir á þessa sjúkrasjóði, eða með öðrum orðum, að færa hann yfir á einstaklinga þjóðarinnar með nefskatti, nefskatti, sem ekki á, samkv. frv., að veita tilsvarandi tryggingu eða tilsvarandi rjettindi aftur í staðinn. Og nefndin fær ekki sjeð, að berklavarnakostnaðinum út af fyrir sig mundi vera komið rjettlátlegar fyrir eða betur á nokkurn hátt með þessu fyrirkomulagi, sem frv. fer fram á, heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þetta myndi að vísu verða til sparnaðar fyrir ríkissjóð, en sá sparnaður fengist aðeins með því að auka á gjaldabyrði þjóðarinnar nýjum skatti, sem þar að auki mun koma ranglátlega niður, og er því ekki hægt að sjá, að málum þessum verði betur skipað en nú er, þó að frv. verði samþ. Skatta til ríkissjóðs mætti ef til vill auka, til þess að hann fengi betur staðist berklavarnakostnaðinn, en þar með er ekki sagt, að þeir eigi nje megi koma niður á landsmönnum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, af því að hlunnindin, sem það veitir mönnum í stað gjaldsins, eru svo þröngt afmörkuð. Slíkur nefskattur má ekki hvíla á almenningi, nema því aðeins, að í gegn komi ákveðinn og almennur rjettur til bóta.

Í álitsskjali Berklavarnafjelagsins er því haldið fram, að þær breytingar, sem frv. gerir á núgildandi skipulagi, sjeu ranglátar, vegna þess, að berklavarnir sjeu fyrst og fremst sóttvarnir. M. ö. o. að kostnaður, sem greiddur er til berklavarna af opinberu fje, sje ekki lagður fram sjúklinganna sjálfra vegna, heldur miklu fremur til þess að verja þjóðarheildina gegn hættulegum sjúkdómi, og þar af leiðandi sjálfsagt, að hann sje greiddur af almannafje, en ekki með slíkum nefskatti sem í frv. felst. Ennfremur er því haldið fram, að þessar breytingar sjeu hættulegar vegna þess, að eftir að almenningur hefir verið skattlagður þannig, aðallega vegna berklavarnanna, þá myndi hann eftir það verða ófúsari til að styðja frjálsa berklavarnastarfsemi. Bendir fjelagið t. d. á, að því sjálfu muni ganga erfiðar starfsemi sín eftir en áður. Og eins og hv. þdm. e. t. v. er kunnugt, hefir á Norðurlandi safnast stórfje til heilsuhælisbyggingar. Menn geta búist við því, að þegar almenningur hefir verið skattlagður sjerstaklega vegna berklavarna, eins og frv. fer fram á, þá muni draga úr framlögum til slíkrar frjálsrar starfsemi.

Í þessu sambandi skal jeg einnig geta þess, að Alþingi hefir borist brjef um þessi efni frá sjúkrasamlagi Reykjavíkur, og liggur það frammi á lestrarsalnum, hv. þm. til athugunar. Jeg hefi lesið þetta brjef, og þó að jeg ætli ekki að rekja efni þess hjer, þá skal jeg skýra frá því, að þar koma einnig fram eindregin mótmæli gegn því, að frv. þetta verði að lögum. Er þar sjerstök áhersla lögð á það, að slík lög myndu yfirleitt hindra starfsemi sjúkrasamlaga.

Þó að meirihl. nefndarinnar a. m. k., og að mestu leyti nefndin öll, geti þannig fallist á flest rök, sem færð hafa verið gegn frv., eins og það liggur hjer fyrir, lítur hún svo á, að almennar sjúkratryggingar sjeu hið mesta nauðsynjamál, sem hlutverk framtíðarinnar sje að hrinda í framkvæmd. En þar á nefndin ekki við, að einn ákveðinn sjúkdómur verði tekinn sjer, eins og gert er í frv. að miklu leyti, heldur að almennar og reglulegar sjúkratryggingar komist á, þar sem ákveðinn rjettur fylgir ákveðnum iðgjöldum, eins og yfirleitt tíðkast, þar sem um tryggingar er að ræða. Þessu marki álítur nefndin, að frv. nái ekki.

Þar að auki er það nú svo, að öll tryggingamálefni eru hjer á byrjunarstigi, sjerstaklega að því er viðkemur sjúkratryggingum. Þau mál eru næsta ókunn þjóðinni.

Þetta frv. var að vísu borið fram á síðasta þingi, en þó að undarlegt megi virðast, þá held jeg, að efni þess sje harla ókunnugt öllum þorra landsmanna, þrátt fyrir það. Málið vakti fremur litla athygli, sem mun stafa af því, hversu frv. kom seint fram og að þar af leiðandi urðu litlar sem engar umr. um það.

Enda þótt nefndin hefði ekki fundið eins margt við frv. þetta að athuga sem raun ber vitni um, þá hefði hún samt varla getað lagt til, að almennar tryggingar yrðu lögboðnar í einum svip. Hún er þeirrar skoðunar, að þekkingu á þessum málum og áhuga fyrir þeim þurfi að útbreiða meðal þjóðarinnar, áður en fært sje að setja almenn lög um þessi efni, sem bjóði, að slík skyldutrygging skuli ná til allra borgara þjóðfjelagsins.

Þó að nefndin geti þessvegna ekki ráðið hv. deild til að samþ. frv., síst eins og það nú liggur fyrir, þá vill hún heldur ekki ráða hv. deild til þess að kasta málinu alveg frá sjer, með því að fella frv. Nefndin telur þess fulla þörf, að tryggingarmálin sjeu gerð þjóðinni sem best kunn og að umr. hefjist um þau, svo og, að rökstuddar till. fáist um þau, hvaðanæfa af landinu o. s. frv. Nefndin æskir þess m. ö. o., að þjóðin taki sjúkratryggingamálin til athugunar og umræðu og geri um þau till., áður en frekar er aðhafst. þessvegna leggur hún til, að máli þessu verði vísað til sýslunefnda og bæjarstjórna landsins til umsagnar, og ræður því hv. deild til að afgreiða frv. með rökstuddri dagskrá þess efnis.

Jeg veit vel, enda hefir reynslan sýnt það oft áður, að till., sem þannig koma frá sýslunefndum og bæjarstjórnum, verða sjálfsagt nokkuð sundurleitar og að ekki verður því gott fyrir hæstv. landsstjórn að byggja nýtt frv. um sjúkratryggingar þannig, að teknar verði allar hugsanlegar till. til greina. En fyrir mjer vakir einkum, að með því að vísa málinu þannig til umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna úti um land, sem eru fulltrúar þjóðarinnar hver í sínu sýslu- og bæjarfjelagi, þá muni óhjákvæmilega vaxa áhugi almennings fyrir tryggingamálunum og þekking á þeim útbreiðast. A. m. k. verða þeir, sem eiga sæti í nefndum þessum, að reyna að afla sjer sem bestrar þekkingar á málinu, og þykir mjer ekki ólíklegt, að margir þeirra vilji bera það undir kjósendur sína og leita álits þeirra, áður en þeir gera ákveðnar till. þannig verður málið rætt og skýrt um land alt. það er því von mín, ef málið fær nú þá afgreiðslu, sem nefndin leggur til, og ef þjóðinni gefst tími til að átta sig á tryggingamálum sínum, þá fari svo með tímanum, þó að ekki verði það kanske á næsta þingi, að sett verði lög um virkilega almennar sjúkratryggingar, sem allir megi vel við una.

Jeg ætla ekki, að svo stöddu máli, að ræða frekar efni frv. eða einstakar greinar þess, enda sje jeg ekki ástæðu til þess, þar sem nefndin leggur til, að það verði afgreitt svo sem jeg hefi tekið fram. Það þýðir ekki að ræða um, hvort orða skuli greinar á þennan eða hinn hátt, fyr en sjeð verður, hvort hv. deild felst á till. nefndarinnar eða ekki.

Jeg skal ljúka máli mínu með þeirri ósk, að hv. deild samþ. dagskrártill. allshn. á þskj. 153. Nefndin hyggur það bestu lausn málsins á þessu stigi.