13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

7. mál, sjúkratryggingar

Jón Sigurðsson:

Það er nú orðið alllangt síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, og ýmislegt er búið að taka fram síðan, sem þá var ekki fram komið. Það hafa orðið töluvert langar umr um þetta mál, og þótt jeg þykist ýmsum fremur hafa ástæðu til að tala um þetta mál, skal jeg reyna að vera stuttorður.

Nefndin hefir ekki treyst sjer til að laga galla þá, sem hún telur vera á frv., og í stað þess að benda á eitthvað, er til bóta mætti verða, hefir hún lagt fram brjef frá stjórn Berklavarnafjelagsins, sem ræðst mjög ósanngjarnlega á frv. Öll fyrri ræða hv. frsm. bygðist á þessu áliti, og þræddi hann það lið fyrir lið, en í seinni ræðunni dró hann nokkuð úr, og er það síst að lasta. Eftir því, sem þar kemur fram, er höfuðmótbáran gegn frv. sú, að það sje skattafrv. í eðli sínu er hvert það frv., sem fer fram á gjald af almenningi, skattafrv. Í því tilliti er ekkert sjerstakt við þetta frv. En það er fyrst og fremst trygging fyrir fátæklinga, þeim er trygt að fá fjárhagslegan stuðning, þegar þeim ríður mest á.

Annað atriði er það, sem sætt hefir miklum andmælum, sem sje, að ákvæðin í 14. gr. berklavarnalaganna, um greiðsluskyldu ríkissjóðs og sýslusjóðanna, sjeu úr lögum numin. Telur nefndin þetta muni skaða berklavarnir landsins, en það er hreinasta fjarstæða. Berklavarnirnar skiftir þetta engu. Peningarnir eru jafngóðir, hvaðan sem þeir koma; það skiftir engu máli, hvort peningarnir falli fyrst í tryggingarsjóðinn, áður en þeir eru útborgaðir, eða borgaðir beint úr ríkissjóði og sýslusjóði. Í raun og veru er það ekki þetta, sem stjórn Berklavarnafjelagsins setur fyrir sig, þótt það komi ekki beinlínis fram í álitsskjali hennar, heldur grunur um, að greiðslur vegna berklavarnalaganna mundu ekki verða jafntakmarkalausar og verið hefir. En síst verður það talið til ókosta þessa frv., að það kæmi í veg fyrir, að efnaðir menn gætu farið með fje úr ríkissjóði og sýslusjóðum eins og nú á sjer stað. Það er ekkert launungarmál, að nú kosta ríkis- og sýslusjóðir fólk, sem á jarðeignir og innstæður í sparisjóðum. Ef þetta er ekki misbrúkun, þá veit jeg ekki hvað misbrúkun er. En þetta er alt ágætt í augum nefndarinnar.

Í fyrra voru, segi og skrifa, 8 menn berklaveikir á öllu landinu, sem kostuðu sig að öllu leyti sjálfir, 3 voru kostaðir af líknarfjelögum. Þessu og öðru slíku tel jeg alveg skaðlaust, þótt kipt væri í lag.

Þá er 4. atriðið í brjefi Berklavarnafjelagsins, að það sje ranglátt og hættulegt, að ætla sjer að færa berklakostnaðinn yfir á einstaklinga. Þar til er því að svara, að það var algerlega á valdi nefndarinnar að breyta þessu. Það var ekki annað en að hækka tillag ríkissjóðs upp í 3 kr. Þá hefði berklakostnaðurinn hvílt aðallega á ríkissjóði og sýslusjóðum, og við það hefði jeg ekkert haft að athuga. — Því miður er ekki hægt að skilja framkomu nefndarinnar á annan hátt en þann, að hún vilji lítið eða ekkert fyrir þetta mál gera, og er það illa farið.

Jeg ætla ekki að minnast á ýms smávægilegri atriði, heldur snúa mjer að aðalmerg málsins.

Því hefir verið haldið fram, að skipulag frv. geri ráð fyrir, að aðeins fátækasti hluti manna fengi sjúkrakostnað greiddan. Það er alveg rjett, að meðan sjóðurinn er smávaxinn, getur það ekki orðið nema sá hluti manna. Og enda þótt tillag ríkissjóðs hefði verið hækkað, mundi ekki nema nokkur hluti manna geta notið þess styrks í byrjun. En spurningin er, hvert tillagið yrði, með þeirri breytingu, sem nefndin hefir hugsað sjer, sem sje, að allir væru trygðir og hver fengi sinn tiltölulega skerf. Er litlu á að byggja í því efni, og þá helst reynsla, sem fengin er með sjúkrasamlögunum. Það jeg þekki til, er reynslan sú, að tillagið, sem meðlimir sjúkrasamlaganna verða að greiða, er miklu hærra en hjer er gert ráð fyrir. Jeg er sannfærður um, að ef sú leið yrði farin, verður ekki hjá því komist að tvöfalda til þrefalda gjaldið, eða setja það 10–15 kr. á mann. En sje það tilfinnanlegt, eins og stungið er upp á í frv., og það getur það verið fyrir allra fátækasta fólkið, hvað mun þá verða, ef upphæðin er tvöfölduð eða meir? Og í mínum augum er þessi tillaga nefndarinnar, um að ekki megi fara af stað, fyr en almennri greiðslu til allra, sem greiða tryggingargjald, verði komið á, ekkert annað en tilraun til að slá ryki í augu almennings og slá málinu á frest um óákveðinn tíma. Jeg býst við, að 3 flokka megi telja í þessu máli: 1) Þeir, sem í eðli sínu eru á móti málinu í hverri mynd sem væri, 2) þeir, sem ekkert vilja gera fyrir málið, fyr en þeir geta náð markinu í einu stökki, þ. e. fullkomnustu sjúkratryggingum, og 3) þeir, sem vilja byrja strax og smáfeta sig að markinu. Til þess flokks teljast stuðningsmenn þessa frv. Við teljum þetta mál svo mikilsvert fyrir okkar þjóðfjelag, að það sje rangt að bíða með hendur í vösum um ófyrirsjáanlega framtíð, þegar hægt er að koma því smámsaman í fulla framkvæmd á ekki löngum tíma, og hvernig sem fer um þetta frv. nú, þá mun reynslan sýna það, að þetta er einasta færa leiðin til að málinu verði komið í viðunanlegt horf. Það er fjarri mjer, að vilja halda því fram, að hvert atriði í frv. sje tvímælalaust hið eina rjetta, heldur, að þar sje í stórum dráttum bent á heppilegustu leiðina að rjettu marki.

Eitt af því sem slegið hefir verið fram, er, að þetta muni verða til þess að draga úr framlögum einstaklinga til berklavarna, og í því sambandi hefir verið bent á, að safnað sje talsvert fje á Norðurlandi til heilsuhælis. En það er hreinn og beinn misskilningur, að ekki sje jafnmikil þörf á heilsuhæli og áður, hvort sem sjúkratrygging kemst á eða ekki. Þá er ennfremur í sama sambandi minst á Berklavarnafjelagið, og að þetta muni draga úr framkvæmdum þess. Hingað til hefir það ekki sýnt neinar framkvæmdir á því sviði. Það byrjaði á að sækja um 20 þúsund krónur úr ríkissjóði, og það eru líklegast og verða aðalframkvæmdirnar.

Hv. frsm. gat þess, og tók dæmi upp á það, að mönnum mundi reynast örðugt að borga, og tilnefndi fátækan mann, sem ætti 10 börn. Jeg þekki og dæmi þess, en þess ber vel að gæta, að einmitt þessir mennirnir verða styrksins aðnjótandi úr sjúkratryggingarsjóðunum. Hvernig færi fyrir þessum mönnum, ef veruleg veikindi bæri að höndum? Þeir yrðu að leita á náðir sveitarinnar. (BSt: Ekki, ef um berklaveiki er að ræða.) En það eru mörg önnur veikindi alt eins kostnaðarsöm — eða þá að góðir menn hlypu undir bagga.

Að endingu hlýt jeg að mótmæla ummælum hv. þm. Dala. (BJ). Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða, að slík meðferð á þurfamönnum hreppanna eigi sjer engan stað hjer. Önnur eins lýsing og hann gaf, ef hún hefir átt að vera spegill af nútímaástandinu, er hin ósvífnislegasta árás á allar sveitarstjórnir þessa lands.