19.02.1925
Neðri deild: 11. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

47. mál, laxa og silungaklak

Flm. (Pjetur Ottesen):

Með frv. þessu er sýslunefndum heimilað að gera samþyktir um laxa- og silungaklak í ám og vötnum og um ádráttarveiði, og gert ráð fyrir, að um samþyktir þessar fari eins og venja er til um aðrar hliðstæðar samþyktir, en það verður þá í því tilfelli, er hjer um ræðir, á þessa leið:

Veiðieigendur á því svæði, sem samþyktin á að ná yfir, gera uppkast til samþyktar og gera það hlutaðeigendum kunnugt. Síðan senda þeir sýslunefnd uppkast þetta, og semur hún eftir því frv. til samþyktar. Skal síðan kvatt til fundar á svæði því, sem samþyktinni er ætlað að ná yfir, og hafa atkvæðisrjett á fundi þeim allir, sem veiði hafa til eignar eða afnota í þeirri á eða vatni, sem takmörkunin á ádráttarveiðinni á að gilda um og klakhúsið, eða húsin eru bygð sjerstaklega fyrir.

Sýslunefnd tiltekur fundarstað og útnefnir mann til þess að boða fundinn og stýra honum.

Verði frumvarpið samþykt með 2/3 atkvæða, sendir sýslumaður það stjórnarráðinu til staðfestingar. En geri fundurinn aftur á móti breytingar á frv. sýslunefndar, fer um það eftir því sem nánar er ákveðið í frv. því, er hjer liggur fyrir.

Virðist stjórnarráðinu samþyktin koma í bág við grundvallarreglu laga og rjett manna, endursendir það samþyktina með synjunarástæðum, og verður þá að taka málið upp að nýju, en staðfestir ella, og gildir samþyktin upp frá því fyrir þá, er hlut eiga að máli.

Við flm. höfum valið þessa samþyktarleið, til þess að tryggja það svo vel sem kostur er, að í fyrsta lagi sje eigi gengið á rjett einstaklingsins framar því, sem almenningsheill krefst, og í öðru lagi að girða fyrir, að einstakir veiðieigendur geti skorist úr leik og neitað að styrkja fyrirtæki, sem þeir njóta þó engu síður en aðrir arðs af — þ. e. þess arðs, sem klakið veitir.

Eins og kunnugt er, hefir á síðustu tímum vaknað mikill áhugi fyrir því að koma á fót laxa- og silungaklaki, og hafa þegar orðið tiltölulega miklar framkvæmdir á því sviði. Þær framkvæmdir hafa bygst á framtakssemi og dugnaði einstakra manna, og það er þegar fengin nóg reynsla fyrir því, að hjer er um að ræða mikið þjóðnytjamál.

Það leiðir því af sjálfu sjer, að það verður að koma skipulagi á þetta mál, og það skipulag hlýtur að færast í það horf, að klakhúsin verði fjelagseign og starfrækt af fjelagi veiðieigenda. Slík klakhúsfjelög eru þegar stofnuð og í undirbúningi allvíða, en það, sem stendur þessum fjelagsskap, einkum og sjer í lagi fyrir þrifum, er það, að ekki er til í lögum nein heimild, er byggja megi á í þessu efni og gera samþyktir, er tryggja það, að enginn geti skorist úr leik, eins og jeg tók áður fram, með það að veita framkvæmdum í þessu efni hlutfallslegan stuðning við þann ávinning, sem klakið veitir.

Í 5. gr. frv., sem hljóðar um það, hvað fram skuli tekið í þessum samþyktum, er meðal annars gert ráð fyrir því, að kostnaði við að byggja klakhúsið skuli jafna niður á jarðareigendur, þannig, að miðað sje að nokkru leyti við landverð samkvæmt fasteignamati og að nokkuru leyti við stöðu jarðanna til veiðinnar, en árlegum rekstrarkostnaði skuli jafnað niður á sama hátt á ábúendurna. En þar sem svo stendur á, að veiðirjettur er seldur undan jörð á samþyktarsvæðinu, að þá skuli eigandi hans bera bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað.

Á þennan hátt virðist okkur kostnaðinum sanngjarnlegast skift á hlutaðeigendur. En vitanlega verður í samþyktunum að kveða á um það, hvert skuli vera hlutfallið milli landverðsins og aðstöðu jarðanna til veiðinnar við kostnaðarniðurjöfnun.

Þá er hitt atriðið, sem heimilað er í þessu frv., að gera samþyktir um takmörkun á ádráttarveiði. Það byggist á því, að í sumum ám — og á þó helst við um tiltölulega vatnslitlar bergvatnsár — hagar svo til, að einstakir veiðieigendur hafa aðstöðu til þess að geta með ádráttarveiði dregið upp mikinn hluta af þeim laxi, sem í ána gengur, en af þessu leiðir, að aðrir veiðieigendur bera mjög skarðan hlut frá borði, og á það þó sjerstaklega við, þegar þannig hagar til, að hægt er að taka laxinn á þann hátt skamt frá árósunum.

Reynslan hefir þótt sýna, að þar sem svona er ástatt, þá veiti sú friðun, sem laxveiðalögin annars ákveða um þessa veiðiaðferð, ádráttarveiðina, enganvegin næga tryggingu fyrir því, að ýmsir veiðieigendur verði ekki, framar því sem góðu hófi gegnir, afskiftir þessum hlunnindum. Hjer er því lagt til í 2. gr. frv., að til þess að veiðin komi jafnar niður, þá sje heimilt að alfriða ána fyrir ádráttarveiði, þó ekki oftar en 2 daga í viku hverri, þann tíma, sem veiðin er stunduð.

Jeg skal játa, að þetta, um takmörkun á ádráttarveiðinni, er viðkvæmt mál, og erfitt að gera, svo að öllum líki. Sumum finst eflaust of skamt gengið í þessu efni, en öðrum of langt. En jeg efast ekki um, að hjer megi þó finna meðalveg, sem allir sanngjarnir málsaðiljar geti sætt sig við, og erum við flm. fúsir til samvinnu við hv. landbn., sem að sjálfsögðu fær mál þetta til meðferðar, um þetta og önnur ákvæði frv.

Jeg skal taka það fram, og getur það þá um leið verið nefndinni til athugunar, að okkur flm. hefir verið bent á, að inn í frv. vanti ákvæði, þegar á skiftir sýslum og veiðrjettur í ánni skiftist milli tveggja sýslna. Það er að vísu rjett, að frv. gerir aðeins ráð fyrir einni sýslu og einni sýslunefnd, er framkvæmdir hafi þessara mála, en þegar svo stendur á, að tvær sýslur eiga veiðirjett í sömu á, verða þær báðar að ræða málið og afgreiða í sameiningu. Þetta eru aðeins smágallar, sem auðvelt er að lagfæra þegar í stað. Í lögin um samþyktir um ófriðun og eyðing sels úr veiðiám, frá 1912, vantar samskonar ákvæði. Þar hefir Alþingi algerlega yfirsjest að setja nokkur ákvæði, þegar svona stendur á, að veiðiá skiftir sýslum. Í 2. gr. þeirra laga er aðeins talað um samþyktir innan hverrar sýslu, og er því auðsætt, að þar er átt við eina og sömu sýslunefnd, en ekki tvær. En í 5. gr. þessa frv. er það þó skýrt tekið fram, að samþyktin nái til allra þeirra manna, er veiðirjett hafa í ánni, og hlýtur því samþyktarsvæðið að miðast við það. — Jeg vænti þess, að háttv. landbn. bæti úr þessum ágalla, og enda þá mál mitt með því, að gera að till. minni, að frv. verði vísað til þeirrar nefndar.