04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

47. mál, laxa og silungaklak

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Það er nú svo langt síðan, að mál þetta var til athugunar í landbn., að jeg hefi sjálfsagt gleymt ýmsu, sem jeg ætlaði að segja í sambandi við það. Jeg verð að biðja hæstv. forseta að virða á betra veg, þótt jeg ræði nokkuð alment um málið, þó 2. umr. sje, og veldur þar um, hversu efni þess er samtvinnað í hinum einstöku gr. frv.

Eins og frv. ber með sjer, er efni þess tvennskonar. Það er drepið á það í nál., að þegar slík lagaheimild, sem er annar aðalþáttur frv., er fengin, þá geti kostnaður við laxa- og silungaklak komið hlutfallslega jafnt niður á öllum þeim, er hagsmuna eiga að njóta af því. Nefndin álítur, að þetta sje rjettmætt og lögin geti komið að liði að því leyti. Og vegna þess, að stofnkostnaður og rekstrarkostnaður er ekki mikill, þá virðist ekki varhugavert að lögleiða heimild til þess, að þröngva mönnum til að taka þátt í kostnaðinum. Annars er nefndin ekki alveg eins sannfærð um nytsemi þessa eins og hv. flm. Jeg skal taka eitt dæmi: Það er hreppur, þar sem eru rúmlega 40 búendur og rúmlega 90 gjaldendur. Þar eru veiðiár tveim megin; rennur önnur á sýslumótum en hin á hreppamótum. Átta menn í hreppnum eiga veiðirjett í þessum ám. Síðastliðið vor var samþykt á fjölmennum fundi að koma upp klakhúsi í sveitinni. Var það gert, og varð stofnkostnaður um 400 kr. Þetta er í mínum hrepp. Mjer dettur ekki í hug að ætla, að við eigum meiri framtaksmenn en sagt er frá í greinargerð frv., en ef til vill erum við fjelagslyndari heldur en sumir aðrir, t. d. Skagfirðingar. Við skulum nú gera ráð fyrir, að slík heimildarlög sem þessi hefðu verið komin í fyrra, þá hefði legið næst að fá samþykt. En það hefði kostað miklu meiri fyrirhöfn og fje heldur en þetta. Þó viðurkennir nefndin, að slíkt skipulag sem frv. gerir ráð fyrir gæti sumstaðar komið að notum, þar sem fjelagslíf er ekki mikið, eða menn horfa í litlar upphæðir, sem koma öðrum að notum án endurgjalds. Þessvegna vill nefndin, að málið fái betri undirbúning og verði síðan gert að lögum.

Við 1. umr. ljet hv. þm. Borgf. (PO) þess getið, að flm. hefði verið bent á, að í frv. vantaði ákvæði um, hvernig skipulaginu skyldi koma fyrir, þar sem veiðivatn er á sýslumörkum. Í nál. er vikið að þessu og að það mundi þurfa margbrotin ákvæði til þess að koma þessu við. Nefndin gat ekki fengið nein hliðstæð dæmi til þess að miða við. Leit hún því svo á, að best mundi, að stjórnin undirbyggi það. Skal jeg t. d. taka fram, að þar þarf ákvæði um það, hvort tvær sýslunefndir kæmu saman á fund til þess að ná samkomulagi, eða hjeldu sinn fundinn hvor, þegar um eina samþykt er að ræða fyrir tvær sýslur. Og það getur verið, að fleira þurfi að athuga, áður en frv. er gert að lögum.

Hinn þáttur frv., er jeg mintist á, er um ádráttarveiði. Í nál. er þess getið, að nefndin lítur svo á, að takmörkun á ádráttarveiði í ám og vötnum sje nægilega víðtæk í lögum nr. 5, 19. febr. 1886.

Þar sem segir í greinargerð fyrir frv., að ádráttarveiði geti gert mikið til að spilla veiði, þá á það ekki við nema sumstaðar, en vitanlega hefir altaf verið ágreiningur um, hve miklar eða víðtækar ættu að vera takmarkanir á veiðiaðferðum yfir höfuð í ám. Virðist þar vel stilt í hóf með laxafriðunarlögunum 1886, og það hefir sýnt sig, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að fá þeim breytt og fram hafa komið hjer á þingi á ýmsum tímum, hafa ekki náð samþykki. Og þótt á þinginu 1923 væri ákveðið að breyta um veiðiaðferð í Ölfusá, þá var það numið úr gildi árið eftir. Mótbárurnar hafa sjaldan náð lengra en það, að vera kvartanir frá þeim, sem ofar búa við árnar, og hræðsla um það, að hinir, sem neðar búa, muni ná of mikilli veiði. Jeg get trúað því, að á þessu geti borið í smáám í þurkatíð, að þá geti laxinn stöðvast neðar í ánum en vant er, vegna vatnsleysis, og þá geti þeir, sem þar búa, veitt meira.

Nefndin gat ekki fallist á, að nægar ástæður væru til þess að breyta í þessu efni og gera samþyktarákvæði um að takmarka veiði hjá einstökum mönnum, nema þá, að komið væri á samveiði allra veiðieigenda. (PO: Það er til þess ætlast í frv.) Jú, um ádrátt, en hann er ekki alstaðar í sömu ánni; algengust er ádráttarveiði næst ósum, en ekki efst.

Það mun vera sönnu næst, að óttinn við það, að einn veiði meira en annar, leiði oft til þess, að menn vilji fá lagabreytingu. En eins og gefur að skilja, er ekki hægt að bæta úr þessu með lagaákvæðum einum, heldur og með öruggu eftirliti.

Í sambandi við ástæðu nefndarinnar fyrir því, að afgreiða málið með dagskrá, tel jeg sjálfsagt, að heimildarlögin frá 30. júlí 1909 verði sameinuð slíku frv. sem þessu. Nefndin hefir einnig bent á, að það gæti komið til mála að taka ákvæði 6. gr. í lögunum frá 1886 upp í þetta frv., að heimila megi meiri friðun í einhverri á en yfirleitt er gert. Nær þetta þá til allra þeirra, sem land eiga að þeirri á.

Þá hefir og nefndin bent á, að komið gæti til mála að heimila hömlur á veiði til klaks. Í laxafriðunarlögunum frá 1886 eru engar hömlur lagðar á þá veiði.

Eins og jeg gat um áðan, þá er ekki ólíklegt, að margt komi til greina í sambandi við þetta mál. Þessvegna hefir nefndin borið fram rökstudda dagskrá á þskj. 251, að vísa málinu til hæstv. stjórnar til athugunar.