04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

47. mál, laxa og silungaklak

Pjetur Ottesen:

Hv. þm. Mýra. (PÞ) var óvenjulega skeleggur, er hann var að lýsa frágangi okkar flm. á þessu frv. og svo frv. um kynbætur hesta, sem við erum einnig flutningsmenn að. Frv. um kynbætur hesta er nú reyndar ekki verk okkar flm., heldur er það samið af hrossaræktarráðunaut Búnaðarfjelags Íslands, Theódór Arnbjarnarsyni, og um breytingar þær, sem komnar eru framvið þetta frv. frá landbúnaðarnefnd, sem hv. þm. Mýra. (PÞ) var ekki litið hreykinn af, er það að segja, að þar rekur sig eitt á annars horn, og það svo, að ekki getur komið til mála að samþ. þær tillögur, nema með verulegum breytingum, og er hjer þó varla um að ræða flaustursverk, því háttv. þm. Mýra. hefir nú setið yfir þessum tillögum í 7 vikur. En þó tókst ekki betur til en þetta. Annars eignaði hv. frsm., þm. Mýra., mjer einum heiðurinn af þessum málum og fleirum, sem til landbn. hefir verið vísað, og sem öll fjalla um mikilsverð búnaðarmálefni, en sem nefndin hefir ekki haft manndáð í sjer til að afgreiða frá sjer fyr en komið er að þinglokum. En afgreiðsla þessara mála er góð lýsing á starfsháttum hv. þm. Mýra. (PÞ) og vandvirkni, sem er í því einu fólgin, að koma engu í framkvæmd.

Hv. þm. Mýra. (PÞ) kvað það ekki í fyrsta sinni nú, sem jeg hefði flutt mál, sem eigi hefði verið sem bestur frágangur á, og hefði sjer orðið hált á því að flytja slík mál með mjer. — Jæja, við höfum flutt eitt mál saman; Það var breytingin á samvinnulögunum. Við komum ekki málinu fram á því þingi, og fengum því áskoranir um að flytja það á ný. En þá sá hv. þm. (PÞ) að sjer og skarst úr leik um að flytja málið með mjer. En jeg ætla, að þar liggi alt aðrar ástæður til en þær, sem hann var áðan að brigsla mjer um, en jeg býst varla við, að hann kæri sig um, að jeg fari að rekja þær hjer.

Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta. Hv. þm. Mýra. fyrirverður sig auðvitað fyrir dráttinn á þessum málum, sem vitanlegt er um, að er hans sök eins, og því hefir hann gripið til þess ráðs, að skella skuldinni á illan undirbúning frumvarpanna, sem ekki hefir við neitt að styðjast, enda var þess ekki að vænta, þó þeim hefði verið í einhverju ábótavant, að hann væri maður til að bæta þar neitt úr.

Um efni frv. þarf jeg ekki að ræða frekar, enda er það tilgangslaust, eins og því máli er komið.