04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

47. mál, laxa og silungaklak

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg mintist ekki á, að jeg hefði verið meðflm. hv. þm. Borgf. (PO) að málum, svo að mjer þætti það nú betur ógert. Jeg hefi aðeins gefið í skyn, að jeg hefði áður hjer á þingi ljeð fylgi mitt till. hv. þm. (PO), sem svo er ástatt um, og átti jeg þar við breytingu á sveitarstjórnarlögunum. Annars kemur þetta málinu lítið við. Það er tekið fram í nál., að því er snertir efni frv., að lög um þetta geti vafalaust komið að liði, en að margra breytinga þurfi við. Það er t. d. sjálfsagt, þegar farið er að setja lög um takmörkun ádráttarveiði, að leita upplýsinga um það hjá veiðieigendum. Jeg held því fram, að þetta um ádráttarveiðina sje álitið hættulegra en það í reyndinni er. En hins verður einnig vel að gæta, að aðferðir þær, sem notaðar eru, sjeu ekki öðruvísi í framkvæmd en lög heimila.