13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

33. mál, lærði skólinn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Sennilega hefi jeg átt minn hlut í ákúrum háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), er hann var að gefa þeim mönnum, sem hann taldi, að vildu drepa niður alla alþýðumentun í landinu. Jeg vil nú með frv. þessu sýna, að ekkert slíkt vaki fyrir mjer, þó að jeg vilji hafa tilhögun kenslunnar á annan veg en verið hefir hingað til.

Jeg hefi haldið því fram, ásamt mörgum fleirum, og trúi, að rjett muni vera, að hin lærða mentun eigi þegar að ganga á annan veg en hin almenna mentun. Jeg tel, að hjer sje um tvær greinar að ræða. Fyrst hina almennu mentun, sem byrjar á gagnfræðamentuninni, og fer svo eftir því, hvert hugur manna stefnir. Hvort menn fara þá í vjelstjóraskóla, stýrimannaskóla, búnaðarskóla eða annað, fer eftir því, hvað menn ætla að gera að lífsstarfi sínu. Þegar slík skólaganga er úti, er lokið hinni hagnýtu mentun. Slík braut verður því aldrei vísindabraut, heldur hagnýt þekking.

Hin greinin er hin lærða grein, sú grein, sem á að búa menn undir háskóla og vísindanám. Nú er svo háttað kenslunni, að þessum tveimur flokkum er blandað saman, þar til kemur upp úr 3. bekk gagnfræðaskólanna. Í þessi 3 ár, sem flokkar þessir eru látnir eiga samleið, er kenslan skemd fyrir báðum. Þeir, sem ætla að verða vísindamenn, verða þegar í byrjun að fá rökfasta kenslu, svo þeir læri að brjóta alt til mergjar. Hinir mega ekki vera að þessu, þeir þurfa að komast yfir sem mest á sem skemstum tíma. Jeg býst nú við, að allir, sem eitthvað hafa lært, hljóti að sjá, að þetta er rjett, og sömuleiðis, að óhjákvæmileg afleiðing af því að hafa þessa tvo flokka saman í þrjú ár, verður sú, að fleiri verða þeir, sem leggja út á hina lærðu braut en þörf er fyrir, og fleiri en beinlínis er holt fyrir þjóðfjelagið, því að þá kemur fram hinn lærði öreigalýður. Þetta er ofurvel skiljanlegt, því að eins og allir vita, verður skólafólk samrýnt, þó að það sje skemri tíma saman en þrjú ár. Verður því löngunin sterk til að fylgja vini sínum áfram á mentabrautinni. Reyna því margir að klífa þrítugan hamarinn og stofna sjer í skuldavandræði, heldur en að þurfa að sitja eftir. Er það því laukrjett, sem hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) sagði endur fyrir löngu, að þessi tilhögun verkaði eins og „háfur“, veiddi menn til þess að halda áfram námi.

Þetta er því enginn sparnaður fyrir ríkissjóðinn, heldur beinlínis þjóðartjón, því að það er tjón fyrir alla, sem læra, að blanda þessum óskyldu flokkum saman. Það er lífsnauðsyn að greina þá í sundur.

Jeg legg því mikla áherslu á, að skólarnir verði tveir, og lærði skólinn verði gerður að samfeldum sex ára skóla, þar sem nemendur geti fengið góðan undirbúning undir vísindanám í háskóla, og er 6 ára tími síst of langur til þess, því að fæstir munu koma of vel undirbúnir til háskólanna. Gæti því verið fult eins hentugt að hafa undirbúninginn jafnvel ári lengri, og háskólanámið þeim mun styttra, eins og t. d. í Þýskalandi. Þar er undirbúningsnámið undir háskólana 8 ár. Til háskólanámsins gengur því styttri tími en víða annarsstaðar. Annars skal jeg ekki fara lengra út í þetta hjer; það yrði til þess að tefja málið of mikið. En þess vil jeg geta, viðvíkjandi gagnfræðaskólunum, sem hnýtt er aftan í lærða skólann hjer. Að það er síst sparnaður fyrir ríkissjóðinn, heldur beinlínis aukaeyðsla. Því að svo margir sækja til, að hverjum bekk verður að skifta í tvent og þrent, og þarf því fleiri kennara. Þessi fjöldi stafar að mestu frá gagnfræðadeildinni. Hana sækja að vísu menn af landinu öllu, en þó langflestir úr Reykjavík. Með þessu er skapað fullkomið misrjetti, því að á þennan hátt verða Reykvíkingar aðnjótandi ríkissjóðsstyrks til mentunar sjer, sem aðrir landsmenn fara á mis við. Auðvitað væri ekkert við þessu að segja, ef ríkissjóður treystist til að kosta alla fræðslu í landinu, jafnt barnafræðslu og háskólafræðslu og alt, sem þar er á milli. En þetta er ranglátt, á meðan slíku er ekki að heilsa og ástandið er eins og það nú er, að ríkissjóður lætur drjúpa úr náðarskálum sínum um 30 þús. kr. á ári til sex alþýðuskóla út um land, sem auðvitað hvergi nærri hrökkva til, en heldur uppi ókeypis fræðslu fyrir Reykjavík. Reykjavík á að fá sinn eigin skóla, eins og Strandasýsla sinn eiginn skóla, svo sem Núpsskólinn er fyrir sitt hjerað. Þvílíkir skólar út um land hafa ekki farið fram á annað meira en styrk úr ríkissjóði, og skóli Reykvíkinga á líka að fá hann, en ekki meira.

Ef sú breyting nær fram að ganga, að lærði skólinn verði framvegis samfeldur sex þekkja skóli, mundi það meðal annars hafa þann sparnað í för með sjer, að öll stundakensla dytti úr sögunni. Skólinn yrði góður, eins og hann var fyrir breytinguna, undirbyggi stúdenta til háskólanáms, án þess að tefja fyrir mentun annara landsmanna, eins og hann gerir í þeirri mynd, sem hann nú er. Að öðru leyti mun jeg ekki fjölyrða um fyrirkomulag skólans að sinni, því ef það, sem er aðalatriðið fyrir mjer, fullkomin greining gagnfræðaskóla og lærðs skóla, nær fram að ganga, mun jeg geta teygt mig langt til samkomulags að öðru leyti.

Jeg vildi biðja hv. deild að lofa frv. þessu að fara sína leið, til mentmn., sem án efa ber gott skyn á mál þetta og leggur hið viturlegasta til. Jeg vildi aðeins geta þess, áður en jeg lýk máli mínu, að jeg hefi ekki sjeð mjer fært að fara fram á, að grískukensla yrði tekin upp aftur í skólanum, enda þótt mjer kunni að standa það nærri. Jeg er þess að vísu fullviss, að skólinn hefir sett ofan við missi grískunámsins, og nauðsyn á slíkri kenslu hefir leitt til þess, að skipaður hefir verið maður til kenslu í grísku við háskólann, enda þótt hann sje að vísu enginn háskólakennari. Hans hefir nú verið svo oft minst hjer í deildinni, að jeg ætla ekki að bæta við það, en benda mætti á það, að embætti hans yrði óþarft, ef slíkri kenslu væri haldið uppi í lærða skólanum. Um þetta atriði skal jeg þó ekki fara fleiri orðum, því jeg hefi, sem sagt, neitað mjer um að gera þetta að tillögu minni.

Jeg skilst svo við þetta mál, með ósk og von um, að það nái fram að ganga. Hún er ekki íslensk, sú stefna, er hjer hefir ríkt í skólamálum á síðustu árum. Það hefir verið alheimsstefna, sem er í því fólgin, að herma alt eftir öðrum, stefna, sem er einkenni apakattanna, enda þótt frændur þeirra, mennirnir, hafi eigi farið varhluta af henni. Hún hefir verið sótt til frænda vorra austan hafs, sem aldrei hafa verið leiðtogar Íslendinga í mentamálum. Þeir hafa glatað tungu sinni og bókmentum, en vjer höfum enn haldið hvorutveggju.