17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

* Jeg get verið þakklátur tveim síðustu ræðumönnum, bæði hæstv. forsrh. (JM) og hv. 2. þm. Rang. (KIJ), sem hefir að miklu leyti tekið af mjer ómakið að svara hv. mentmn.

Jeg skal geta þess, sem jeg skaut fram í umr. áðan, að landafræðin hefir fallið úr frv. eingöngu sökum ógætni, annaðhvort sjálfs mín eða prófarkalesarans. Jeg hefi altaf hugsað mjer, að landafræði yrði kend í skólanum eftir sem áður. En eins og hver maður skilur, þá er það aðeins málhreinsunartilraun að nota orðið eðlisvísindi yfir það, sem alment er kallað náttúruvísindi, en telja síðan upp það, sem í orðinu felst. Natura er latína, og þó að jeg vilji láta menn læra latínu, þá kæri jeg mig ekkert um, að latnesk orð sjeu tekin upp í íslensku.

Af ýmsum ástæðum hefi jeg slept dönskunni úr tölu námsgreina skólans. M. a. vegna þess, að þegar svo fámenn þjóð á að meta, hvernig hún skuli verja tíma sona sinna til málalærdóms, þá hygg jeg tímanum betur varið með því, að nema eitthvert stórmál fremur en mál smáþjóðar, sem tiltölulega fáir skilja. Jeg þóttist líka hafa gert dönskunni full skil með því að setja sem inn tökuskilyrði í skólann sæmilega kunnáttu í sænsku, ríkisnorsku eða dönsku, sem eru að miklu leyti eitt og sama málið, eða a. m. k. svo skyld, að sá, sem skilur eitt þeirra sæmilega, skilur hin einnig. Jeg hefi lagt aðaláherslu á, að nemendur skólans fengju þar sæmilega tilsögn í stórmálunum, ensku, þýsku og frakknesku, málum, sem altaf geta komið þeim að miklu haldi síðar í lífinu.

En það, sem einkum vakti fyrir mjer, þegar jeg slepti dönskunni, var, að á þann hátt vildi jeg færa fram mótmæli gegn því höfuðhneyksli, að enn skuli kendar hinar og þessar námsgreinir á dönsku við mentaskólann. Nú eru í gagnfræðadeild skólans nær eingöngu börn hjeðan úr Reykjavík, og má það undarlegt heita, að í stað þess að laga málfæri barnanna, þá skuli skólinn veita þeim fullkomnun í málskemdum, með því að láta þau læra þungar kenslubækur á dönsku. Því að varla er annað hugsanlegt, þegar óþroskaðir unglingar eiga að gera grein fyrir þekkingu, sem þeir hafa aflað sjer í kenslubókum sínum, en að annað eða þriðja hvert orð, sem þeir nota, verði á því máli, sem kenslubókin er skrifuð á.

þetta er því hin allra hagfeldasta aðferð til að skemma íslenska tungu á vörum hinnar upprennandi kynslóðar.

Mjer er kappsmál, að þessi leti og hugsunarleysi þings og þjóðar hverfi, og það verður að hverfa, þegar ekki verður lengur hjá því komist að nota íslenskar kepslubækur í skólanum.

Síðan Jón Ófeigsson, sem er góður og strangur kennari, fór að kenna dönsku við mentaskólann, hefir hann heimtað af nemendum sínum, að þeir lærðu meira í danskri en Íslenskri bókmentasögu. Íslensk bókmentasaga er þar varla nefnd, en aftur á móti er lesin allstór bók í danskri bókmentasögu. Mjer er spum: Hvað varðar okkur sjerstaklega um danska bókmentasögu? Ætli okkur væri ekki nær að líta eitthvað í bókmentasögu stórþjóðanna, ef við þykjumst kunna okkar eigin til fulls.

Jeg vildi líka hefja mótmæli gegn þessari vanvirðu.

Þessi till. mín sýnir engan skort á sanngirni eða hæversku í garð sambandsþjóðar okkar. í frv. er dönskunni þegar sýnd langtum meiri kurteisi en sambandsþjóðin sýnir íslenskri tungu í skólum sínum. Mjer vitanlega er þekking á íslenskri tungu hvergi gerð að inntökuskilyrði í dönskum skólum. En alla þá stund, sem við sýnum dönskunni meiri kurteisi en Danir sýna íslenskri tungu, geta þeir með engum rjetti talið sjer móðgun sýnda.

En þetta ákvæði og ýmislegt fleira, sem í frv. stendur, er ekki þar skráð beinlínis í þeim tilgangi einum, að það verði að lögum, heldur var jeg svo djarfur, að gera mjer vonir um, að hv. mentmn. myndi lesa frv., og að færi gæfist á að kippa því í lag, sem áfátt þætti, Jeg býst t. d. við að geta greitt brtt. hv. 2. þm. Rang. (KIJ) atkv. nú, þegar jeg hefi framfært mótmæli gegn þeim svefni, sem ríkir í skólanum, að því er snertir viðhald íslenskrar tungu.

Hv. þm. (KIJ) talaði um ákvæði 9. gr. frv. um fjölda kenslustunda hvers kennara við skólann. Því er svo varið með þetta ákvæði, eins og flest önnur, sem ekki koma við meginatriði frv., að mjer er út af fyrir sig ekki kappsmál að það nái óbreytt fram að ganga. Einkum mun jeg geta fallist á, að þessu ákvæði verði breytt í samræmi við efni annars frv., sem hjer er á ferðinni, um að auka vinnu annara kennara, ef það frv. verður að lögum. Þó vil jeg minna menn á, að 4 stunda kensla í lærðum skóla er sama sem 8–10 stunda vinna á sólarhring. Það er enganvegin rjett, þegar verið er að ræða um vinnutíma slíkra kennara, að telja þá aðeins fjölda kenslustundanna. Það verður ekki aðeins að ætla þeim tíma til að leiðrjetta stíla og búa sig undir hverja lexíu, heldur líka — og engu síður — til að halda við lærdómi sínum og auka hann, svo að þeir verði ekki aumir steingervingar, hver í sinni grein. Þá fyrst geta kennararnir notið sín, og þá fyrst verður kenslan að verulegu gagni.

Þeir tímar eru ekki til fyrirmyndar, þegar við, sem þá vorum kennarar lærða skólans, urðum að kenna 10–12 tíma á dag, ef við áttum að hafa nokkra von um að geta borgað svo mikið af skuldum, að við fengjum áfram matinn ofan í okkur. Slíkt örvar engan, heldur drepur allan dug.

Annars hefði jeg ekki minst á þetta atriði, ef ræða hv. 2. þm. Rang. (KIJ) hefði ekki gefið tilefni til þess.

Hv. nefnd hefi jeg hugsað mjer að gera sömu skil og hún hefir gert mjer. Við hana ætla jeg ekki að tala, að þessu sinni. Hún virðist halda, að af því gamall lærisveinn minn, sem nú er orðinn ágætur kennari, fer utan til þess að kynna sjer skólamál og lúka við þýska orðabók, sem jeg á sínum tíma útvegaði honum styrk til að semja, þá megi þetta frv. mitt ekki ná fram að ganga.

Jeg ætla að bíða heimkomu hans, en þá skal jeg líka svara hv. nefnd.