19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

33. mál, lærði skólinn

Magnús Jónsson:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg var ekki ánægður með rökstuddu dagskrána, en þó var það sök sjer, meðan hún var tengd við 2. umr., því jeg hafði hugsað mjer að geyma að koma með brtt. fyr en við 3. umr., með það fyrir augum, að þá væri útsjeð um það, hvort dagskráin yrði samþ. eða ekki. Því mjer fanst óþörf sú fyrirhöfn, að fara að tala fyrir þeim brtt., ef málið yrði svo afgreitt með rökstuddri dagskrá. En nú er þessi möguleiki farinn, og tel jeg það slæmt. Skildist mjer svo, að dagskráin væri aðeins tekin aftur við þessa umr. Verður maður að sætta sig við þetta og bera fram sínar brtt. samt sem áður.

En tilefnið, sem dagskráin gæfi til að ræða málið, er þá líka burt numið, og tel jeg það líka ver farið. Því þó það þyki góður siður, að hleypa fram hjá sjer málunum umræðulítið við 1. umr., þá er það engu síður góður siður, að rökræða þau við 2. umr.

Þar sem hv. flm. dagskrárinnar hefir snúist hugur um að láta bera hana undir atkvæði, þá vona jeg, að þeir lái mjer það ekki, þó jeg komi með einhverjar brtt. við 3. umr. En í raun og veru virðist nefndin vera klofin, þó samkomulag hafi fengist um að taka dagskrána aftur við þessa umr.