19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Það er ekki alveg rjett, sem hv. þm. Str. (TrÞ) heldur fram, að þetta sje óaðskiljanlega sameinað. Jeg sagði, að þetta væri byrjunin til að koma rjettu fyrirkomulagi á fræðslumálin, því að það er mín skoðun, að þótt ríkið og hjeruðin í sameiningu kostuðu miklu meira til fræðslumála, væri það ekki nema rjett og holt, ef það kemur að notum, og enda miklu betra en að meira en helmingi af þessum mikla kostnaði sje sama sem kastað í sjóinn, til fræðslu- og kenslustofnana, sem gera ekki hálft gagn, og sumir hlutar landsins hafa ekkert gagn af, og skapa þar á ofan fullkomið misrjetti milli landshlutanna. Þeir fulltrúar, sem hjer sitja fyrir ýms hjeruð landsins, munu ekki óttast, þótt í kjölfar þessa frv. sigli gagnger breyting á fræðslufyrirkomulaginu, með þeim hætti, að öllum hjeruðum yrði gert jafnhátt undir höfði, og ekki skil jeg í því, að þeir sækist eftir því fyrir hönd sinna hjeraða, að þeirra rjettur sje fyrir borð borinn, en ofhlaðið undir sumar sveitir landsins. Hinsvegar veit jeg, að það er ekki hægt að meta til peninga það, sem af því hlýst, að margar mentastöðvar sje til í landinu og víðsvegar, því að sú höfuðskemd, sem orðin er á fræðslumálum landsins, er sú hrörnun, sem þær mentastöðvar hafa liðið, sem til voru í hverju einasta prestakalli fyr á dögum, hrörnun frá þeirri starfsemi heimilanna, að fólkið lærði sjálft, til þess að geta kent börnum sínum. Og því meira sem ríkið kostar af skólum á einstökum stöðum, því meira dregst úr sveitunum sjálfur kjarni mentunarinnar, sem er starfsemi einstakra manna. En þær brtt., sem jeg hefi gert við frv. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), og sem jeg býst við að hann geti fallist á, það er einmitt vegurinn til þess að fjölga þessum menningarstöðvum í landinu og láta sem flest hjeruð landsins njóta þeirra geisla, sem þaðan hríslast út um hjeruðin. En þótt þessi stóra mentunarsól hjer, eins og gagnfræðaskólinn, sem skelt er neðan við lærdómsdeild hins almenna mentaskóla, sje bjartari sól, þá veit jeg, að þeir menn, sem koma frá útkjálkahjeruðum, mundu ekki sjá þá geisla, en mundu hinsvegar sjá þá í sínu eigin hjeraði, og ef jeg þekki hugsunarhátt sveitamanna, þá held jeg, að þær miðstöðvar menningarinnar mundu verða betri og leiða af sjer meira gagn þar en hjer.

En það er ekki alveg rjett, að þetta bindi hvað annað, því að það má svo vel byrja á því, að laga lærða skólann og láta hitt ráðast, hvernig menn greiða fram úr hinu. Annars eru fyrir þessari hv. deild tillögur frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og brtt. frá mjer, sem sýna, hvað á að gera, Hann vill hafa skólana fleiri en jeg, að öðru leyti ber okkur ekkert á milli, því að það er í raun og veru sama úrlausn. Jeg vil hafa strangt aðgreint þessar tvær greinir mentunar, lærða mentun og almenna mentun, það veit jeg ekki, hvort hann vill. Það kemur fram við 3. umr. þessa máls.

Mjer skilst svo, að jafnvel þótt eiga mætti von á meiri fjárframlögum til menta í landinu en nú er, þá væri það ekkert óttaefni fyrir hv. þingmenn eða þjóð, þar sem sýna má með fullum rökum og viti hv. þm. Str. (TrÞ) og mín og fleiri manna, sem fengist hafa við skóla, gengið á skóla, og skynsamra manna, sem lært hafa af sjálfum sjer, að það er að allra dómi langtum meiri nytjar þess kostnaðar heldur en þess, sem nú er borgað til úr ríkissjóði. Það er ekki krónufjöldinn, sem notaður er, hann sker ekki úr um notin, heldur gagnið, sem af því leiðir. það er skaði, að fleygja einni krónu í sjóinn, en það er ekki skaði, að kaupa góðan hlut fyrir tvær krónur. Og nákvæmlega sama kemur út, ef verið er að meta það, hve mikið eigi að leggja til menta í landinu. Annars verð jeg enn að segja það, að hjer í landinu er hlægilega litlu varið til menta og menningar þjóðinni, og því illa fyrir komið, sem varið er.

Jeg sje ekki, að það sje rjett hjá hv. þm. Str. (TrÞ), að þessar hugleiðingar okkar þurfi að tefja þetta mál, heldur ættu þær þvert á móti í hugum hv. þm. og þjóðarinnar að knýja alla menn, sem þetta heyra eða lesa, til að gera þessar breytingar sem allra fyrst. Svo er hægt á eftir að leita úrræða gagnvart hinu, sem þá kallar að.