19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

33. mál, lærði skólinn

Magnús Jónsson:

Jeg sje, að það hefir verið hreinn óþarfi af mjer að vera að hætta við að tala alment um þetta mál, af því að það er auðsjeð, að hv. þm. ætla að ræða það alment, þegar jafnvel dauðir menn risa upp til að ræða það á þann hátt, sem ekki á að vera, við þessa umr.

Jeg vildi þá víkja að því, að mig stórfurðar á þeim grundvelli, sem málið er nú komið út á, þegar menn ímynda sjer, að ef þetta frv. nái fram að ganga, þá leiði stórkostlegar byltingar af því í öllum fræðslumálum landsins. Ef fundið verður upp á því, að gera latínuskólann svipaðan því, sem áður var, þá á að leiða af því stóra byltingu, og mig furðar sannarlega ekki á því, þó að hv. þm. Str. (TrÞ), sem sjer svona stóra útsýn fram undan, þyki viðurhlutamikið að greiða atkv., án þess að fá að vita meira. (TrÞ: Jeg spurði, og fjekk svar.) Já, hv. þm. fjekk það svar, hvernig þetta vakir í framtíðinni fyrir hv. þm. Dala. (BJ), og það vissi jeg og hann og margir fleiri. En að frv. leiði af sjer, að þetta spor verði stigið, þótt það verði samþykt, álít jeg mikla fjarstæðu. Þetta mál er, eins og hv. þm. Dala. (BJ) lýsti yfir, alveg óskilt hinu, og það er svo fjarri því, að þetta vaki fyrir mjer og öðrum, að þessi breyting verði gerð á öðrum skólum. Þegar jeg greiði atkv. með þessu frv., vakir ekkert annað fyrir mjer en að gera latínuskólann heppilegri og hentugri fyrir þá, sem hann nota, en hann er nú, en gagnfræðaskólarnir geta verið eins og þeir eru; það kemur ekki neitt við þessu máli. Ef menn vilja breyta gagnfræðamentun manna, eins og hv. þm. Dala. (BJ) talaði um, sjerstaklega í þá átt að gera öllum hjeruðum jafnhátt undir höfði, þá má alveg eins gera það, þótt ekki sje búið að breyta að neinu mentaskólanum í Reykjavík.

Annars gæti maður farið út í það, hvort þessi skoðun hv. þm. Dala. (BJ) sje mjög heppileg. Jeg fyrir mitt leyti álít margt gott í henni, þótt hún sje ekki að öllu leyti rjett.

En það, sem hefir komið þessum umræðum um gagnfræðamentunina inn í þetta mál, er það, að ef skólinn verður gerður óskiftur, þá halda margir, að koma verði upp nýjum gagnfræðaskóla í Reykjavík. Reykjavík er nú að vísu ekki alveg gagnfræðaskólalaus. Hún hefir verslunarskólann, kvennaskólann og stýrimannaskólann, og svo á næstu grösum Flensborgarskólann, og hann mætti auka. Mjer fyndist ekkert að því, þó að næststærsti kaupstaður landsins hefði verulega stóran og góðan gagnfræðaskóla. En hjer er í raun og veru ekki að tala um að leggja niður neinn skóla, því að, ef rjett er athugað, þá hefir Reykjavík ekki gagnfræðaskóla, eins og nú er; því að enda þótt þrír bekkir hins almenna mentaskóla heiti gagnfræðaskóli, þá fara naumast aðrir í hann en þeir, sem ætla sjer að taka stúdentspróf; jeg hefi ekki fengið mjer töflu yfir það, hve margir hafa gengið í neðri deild skólans sem gagnfræðingar, en þetta var athugað árið 1921, og þá voru þeir ærið fáir. Yfirleitt kemur skólinn fyrir sjónir sem óskiftur lærður skóli, og það eins, þótt gerð hafi verið þessi skifting á honum, til mikils trafala fyrir þá, sem ætla að stunda nám við hann.

Jeg held þessvegna, að ef menn álíta að eigi að breyta mentaskólanum, eigi að gera það án tillits til þess, hvað um gagnfræðamentunina verður. Ef Reykjavík þarf gagnfræðaskóla fyrir 150–200 manns á ári, þá þarf hún alveg eins að koma sjer honum upp eins og nú er, og jeg greiði því atkv. með frv. með þennan eina skóla í huga, en ekki með tilliti til annara breytinga. Og jeg held, að hv. þm. sje alveg óhætt að taka afstöðu til þessa máls, án tillits til væntanlegra breytinga. Eina afleiðingin af þessu þegar í stað verður sú, að skólanum verður kipt úr sambandinu við gagnfræðaskólann á Akureyri, og jeg get vel skilið, að ýmsum þyki það nokkur ókostur. En fyrir slíka smámuni má ekki leggja alt málið á hillu, ef menn á annað borð telja breytinguna til góðs.