15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

33. mál, lærði skólinn

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins eitt atriði þessa máls, sem jeg vildi minnast á. En jeg er heldur ekki lærður maður, og treystist því hvorki til að tala grísku nje latínu, eins og þeir lærðu gera, þegar þeir tala um þetta mál.

Verði frv. þetta að lögum, er afleiðingin meðal annars sú, að sambandi milli gagnfræðaskólans á Akureyri og mentaskólans verður slitið. Getur engum blandast hugur um, að Norðlendingum og Austlendingum er gert erfiðara fyrir um nám með því. Liggur það í augum uppi, hve erfiðara er fyrir Norðlendinga að senda syni sína og dætur til náms í Reykjavík, heldur en ef þeir geta látið þau læra svo að segja heima hjá sjer.

Jeg skal að vísu játa það, að brtt. á þskj. 272 á að bæta að einhverju leyti úr þessu og gera þeim ljettara fyrir, er fjær búa, þar sem farið er fram á heimavistir. En þótt jeg játi þetta, þá getur brtt. á þskj. 272 þó ekki bætt til fulls það tap, er Norðlendingar og Austlendingar verða fyrir með frv., því að þótt maður geri ráð fyrir, að heimavistir hjer yrði ekki dýrari en á Akureyri, þá er löng leið hingað og mikill ferðakostnaður. Og svo er hitt, sem er höfuðatriðið í mínum augum, að Reykjavík er ekki heppilegur staður fyrir unglinga, sem koma beint úr foreldrahúsum, því að þótt þeir komist í heimavistir, hefir reynslan sýnt, að ekki er alt fengið með því. En unglinga, sem eiga að ganga hinn svokallaða mentaveg, verður að senda hingað í 1. bekk, ef frv. þetta verður að lögum.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að meðan biskupsstólar voru hjer tveir, á Hólum og í Skálholti, þá voru hjer líka tveir lærðir skólar. Og þótt jeg sje ekki sagnfræðingur, þá veit jeg þó það, að skólinn á Hólum var lagður niður að Norðlendingum fornspurðum og móti þeirra vilja. Var mikil óánægja út af þessu og kröfur uppi um það, að úr þessu yrði bætt og skólinn settur á stofn aftur. Jeg hefi ekki sannanir við hendina nú um þetta, en hygg, að það sje rjett.

Þegar baráttan var hafin fyrir því, fyrir 1880, að koma upp alþýðuskóla á Möðruvöllum, var það ein ástæðan til þess, að henni fjekst framgengt, að skóli þessi ætti að vera sárabætur handa Norðlendingum fyrir Hólaskóla. En þá er skólanum var breytt, árið 1904, og hann gerður fullkomnari og settur í samband við mentaskólann, þá voru það aðeins fyllri sárabætur fyrir Hólaskóla.

Í frv. því, er hjer liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að taka aftur þessar bætur, er Norðlendingar hafa haft í nokkur ár. Sem Norðlendingur álít jeg, að það þurfi ríkar ástæður til þess að slíkt sje takandi í mál. Skal jeg að vísu játa, að jeg get fallist á sumar ástæður hv. flm., en svo veigamiklar get jeg ekki fundið að þær sjeu, að það rjettlæti slíkt ofríki gagnvart Norðlendingum, sem frv. fer fram á. Það má vel vera, að hver skóli sje heppilegri, ef hann er óskiftur. En ef nú á annað borð á að gera breytingu á skólanum hjer, þá verður önnur breyting að fylgja með, sú, að Norðlendingar fái þeirri kröfu fullnægt, að fá mentaskóla þar. Verði þetta mál knúð fram nú, eða hvenær sem það verður knúð fram, þá er jeg viss um, að það vaknar svo sterk hreyfing á Norðurlandi um að fá þar skóla, að það verður ekki hægt að standa á móti henni til lengdar. Það er að vísu hægt að drepa niður rjettlæti í bili, en ekki alveg.

Eins og málið liggur nú fyrir, get jeg ekki greitt frv. atkv. mitt. Jeg veit, að það hefir verið sagt, að einn lærður skóli nægði fyrir landið. Það kann nú að vera, en þótt frv. nái fram að ganga, býst jeg við því, að skólinn verði tvískiftur eða fleirskiftur, og er það í raun og veru sama og að hjer í Reykjavík væru 2 eða fleiri lærðir skólar.

Það má vera, að hv. þdm. þyki það ekki koma málinu við, sem jeg hefi sagt um skóla í Norðurlandi. En með frv. þessu er slitið sambandi milli Akureyrarskólans og mentaskólans, og það eitt er ærið til þess, að jeg get ekki greitt frv. atkv.

Jeg skal svo ekki tefja tíma deildarinnar lengur, en mjer þætti fróðlegt að heyra nánara um það frá hv. þdm., er halda málinu fram, hvað þeir hugsa sjer að eigi að verða um Akureyrarskólann, ef breytingin kemst á. Jeg hefi heyrt á flm. málsins, að á Akureyri eigi að verða unglingaskóli, er ríkið eigi að styrkja að einhverju leyti, en annars eigi að kasta honum á Akureyri og nærliggjandi sýslur.

Þótt gagnfræðaskólinn á Akureyri sje ekki nefndur á nafn í frv., fer það þó fram á það, að eyðileggja hann, eða minsta kosti lama hann tilfinnanlega, og á það get jeg ekki fallist.