15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

33. mál, lærði skólinn

Klemens Jónsson:

Jeg skal ekki fara langt út í málið frá almennu sjónarmiði. Jeg gerði það við 2. umr., og sje því ekki ástæðu til þess að gera það frek ar. En jeg verð að leiðrjetta eitt atriði hjá mjer, um þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Hómer. Hún er nú rjett 100 ára gömul, en það hefir farið fram hjá mjer, að endurútgáfa af þýðingunni er komin fyrir nokkrum árum. En henni hefir ekki verið tranað fram í gluggum bókaverslana, og er það þó merkilegt rit. En það stendur óhaggað, sem jeg sagði þá, að það er spursmál, hvort stúdentar muni nokkurntíma líta í hina íslensku þýðingu bókarinnar.

Jeg verð að taka það fram aftur, að mjer hefði þótt viðkunnanlegast, að stjórnin hefði sjálf borið fram frv. eins og 1921, og að því hefði fylgt greinargerð og kostnaðaráætlun. Ef til vill hefir stjórnin ekki gert þetta vegna fjárhags landsins, sem ekki þolir mikil og ný útgjöld. En þessu fylgir mikill kostnaður, eins og brtt. á þskj. 272 sýnir, sem jeg skal síðar minnast á. En þetta mál er svo þýðingarmikið, að ekki má dragast lengi að því sje ráðið til lykta. Það skiftir að vísu ekki miklu máli, hvort það verður einu árinu fyr eða síðar. Sumir vilja, að breytingin komi á 1927, aðrir 1928, og lengur má það ekki dragast, að skipulagi sje komið á þetta mál.

Þá skal jeg víkja að brtt. Jeg get fallist á flestar brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 215. Þær eru aðeins orðabreytingar, og það er góð íhaldsstefna, að halda góðum og gömlum orðum, sem notuð hafa verið í skólanum, í stað nýrra heita, sem eru miður viðkunnanleg. Aðeins ein breyting er veruleg efnisbreyting, nefnil. 5. brtt. við 12. grein. Hann og hv. þm. Dala. (BJ) hafa lagt áherslu á það, að hún gengi fram. Sagði hv. þm. Dala., að sig hefði einmitt langað til að koma fram með slíka tillögu, en brostið hugrekki til þess. Jeg held þá, að það sje í fyrsta sinni, sem hann hefir brostið hug, því að áður hefir hann borið margt fram, sem meira hugrekki hefir þurft til. Jeg verð að segja það, að jeg sje enga ástæðu til þess, að kennarar við mentaskólann fái sjerstöðu fram yfir aðra kennara og embættismenn hjer á landi. Jeg fæ ekki sjeð, að þeir eigi sjer að kostnaðarlausu að fá lausn frá störfum 10. hvert ár, frekar en aðrir. Þeir hafa mest frí af öllum embættismönnum þessa lands, 3 mánuði á hverju sumri, en aðrir ekki nema 14–16 daga. Þetta er einnig kostnaðarsamt, því að það er ekki aðeins, að þeir fái frí, heldur þarf að fá aðra til þess að kenna í stað þeirra. Öðru máli væri að gegna, ef allir embættismenn ríkisins fengi frí til hvíldar eða til þess að menta sig. En að fara að taka þessa menn eina út úr, tel jeg ástæðulaust, þar sem þeir hafa og miklu minna að gera en aðrir embættismenn.

Jeg ætlaði að bíða eftir því, að flm.brtt. á þskj. 272 talaði fyrir henni, en get lýst yfir því, að jeg er henni samþykkur. Mjer hefir skilist, að heimavistir við latínuskólann hafi á sínum tíma verið afteknar vegna ótta við tæringu, og eftir tillögum Guðmundar Björnssonar landlæknis voru þær afnumdar. En nú eru heimavistir við aðra skóla, svo sem á Akureyri, Hvanneyri og viða, og hefi jeg ekki frjett, að þar hafi borið á neinni sýkingarhættu, svo að jeg hygg, að þetta sje aðeins grýla. Og jeg veit, að allir, sem þekkja til heimavista frá fyrri tíð, munu játa, að þær voru öflugt meðal til þess að efla skólalíf og nánara samband milli pilta. Nú er þetta alveg horfið, en ætti þó að geta haldist í 3 efstu bekkjunum, en varla mögulegt, að það geti haldist milli deilda. það má vera, að eitthvert skólalíf sje í efri bekkjunum, en það er ekkert svipað og það var til forna, og í því á afnám heimavistanna mikinn þátt. En það er dýrt að koma á slíkum heimavistum, og ekkert yfirlit er til um það. Hafði jeg því búist við, að hv. flm. mundi gera grein fyrir því. Málið er því enn ekki eins vel undirbúið og það þyrfti að vera.

þá ætla jeg að svara hv. 2. þm. Eyf. (BSt), þar eð hann beindi nokkrum spurningum til þeirra þm., sem væru stuðningsmenn þessa frv. Hann sagði, að ef frv. yrði að lögum, yrðu bæði Norðlendingar og Austfirðingar sviftir rjettindum þeim, er þeir hefðu haft, meðan próf frá gagnfræðaskólanum á Akureyri nægðu til inntöku í lærdómsdeild mentaskólans, og er það rjett, og enn talaði hann um hættu þá, sem stafaði af því, að menn á Norður- og Austurlandi yrðu hjer eftir að senda börn sín til náms til Reykjavíkur. En þetta er gömul saga, ævagömul, og ekkert nýtt við hana, því hún hefir svo oft verið sögð. Jeg veit ekki betur en að menn verði víðar að að senda syni sína og dætur til menta til Reykjavíkur, og mundi ekki vera til sami óttinn hjá fólki í þeim sveitum, sem senda börn sín til Akureyrar, til að mentast þar? Jeg man, að svo var, þegar skólinn var fluttur frá Möðruvöllum til Akureyrar, þá óttuðust menn mjög hin skaðlegu áhrif bæjarlífsins þar á nemendurna. þetta er ævagömul saga, sem algengt er að heyra í sveitunum. Jeg rak mig nýlega á gamalt sendibrjef, svo gamalt, að það var um 300 ára, sem fjallar um þetta sama. það var sýslumaður í einni sýslu landsins langt í burt, sem sendi dóttur sína suður til menta, í þá spillingarinnar Sódóma og Gómorra, sem menningarmiðstöð landsins þá var talin vera — Skálholt. Hann sendi dóttur sína suður þangað til að mentast þar undir handarjaðri biskupsfrúarinnar, og í brjefinu talar hann fagurlega um þetta, og biður biskup með mörgum orðum og fögrum að sjá um, að dóttir sín glepjist ekki í gleðskaparglaumi þeim og solli, er þar hljóti að vera. — Svona var álit almennings þá, og er sagan því ekki ný, og jeg geri ekkert úr þessari ástæðu. — það er satt, að Norðlendingar hafa verið sviftir Hólaskóla hinum forna, gegn vilja þeirra, og er því ástæða til að menn sakni hans; en jeg vil benda á, að Norðlendingar hafa þar orðið fyrir „injuria temporum“, svo jeg sletti latínu, eins og fleiri hafa gert. Skólinn var orðinn mjög ljelegur, sem von var, því varla er hægt að benda á einn einasta biskup, alla 18. öldina, á Hólum, sem verulega kvæði að í mentamálum, nema ef til vill einn, sem þó naut skamt við — en undir dugnaði og forsjá biskupanna var framför og þroski skólans að mestu kominn. En það er ekki hægt að benda á marga merka menn í seinni tíð skólans, sem hafi útskrifast þaðan. En þó eiga Norðlendingar alls eigi að gjalda þess; jeg vil eigi svifta þá neinum skóla; þvert á móti skal jeg verða meðal fyrstu manna til að efla skóla þeirra og jafnvel til þess að gera hann að lærðum skóla, ef efnin leyfðu, sem jeg býst varla við að verði á næstu árum, og þó verð jeg að álíta, að nóg sje til af stúdentum.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) spurði ennfremur, hvað ætti að verða af Akureyrarskólanum, ef þetta frv. yrði samþykt? Jeg býst að vísu við því, að hv. þm. Dala. (BJ) muni svara þessu, þar eð það stendur honum næst, en annars er spurningin óþörf, því það er auðvitað, að alt mun standa við hið sama og áður var; skólinn heldur áfram sem ríkisskóli, eins og áður. Auðvitað dettur hvorki mjer nje öðrum í hug, að skólunum verði kastað á bæinn eða sýsluna. Það kemur ekki til mála. En að öðru leyti geri jeg ráð fyrir, að hv. þm. Dala. (BJ) muni svara þessu ítarlegar.