15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

33. mál, lærði skólinn

Hákon Kristófersson:

Það var rjett, sem hv. þm. Ak. (BL) sagði, að þingmenn eru margir í vanda staddir, til að komast að niðurstöðu um þetta mál, og er það eigi óeðlilegt, að jeg og mínir líkar sjeum í því meiri vanda staddir, er skólamennina sjálfa greinir svo á, að svo má kalla, að hver rífi niður annars skoðun í þessu máli það er því ekki óeðlilegt, að við sjeum hikandi, er þetta er orðið deilumál í deildinni. Jeg fyrir mitt leyti álít, að frv. fari í rjetta átt, en hitt er annað mál, hvort það er nógu vel undirbúið og svo frá því gengið, að það megi afgreiða það í því formi, sem það nú er í.

Brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., sýna best, að málið hefir ekki verið eins vel undirbúið frá hendi hv. flm. og æskilegt hefði verið, en jeg verð að halda því fram, að annað eins stórmál og þetta og annað eins menningarmál ætti helst ekki að koma frá öðrum en frá stjórninni sjálfri. Hvaða stjórn sem er ætti að hafa mun betri aðstöðu og gögn í hendi til að ganga betur frá slíku frv. en nokkur þm. — Þessi orð mín má þó ekki skilja svo, að jeg sje ekki fús til að viðurkenna það, að af einstökum þingmönnum tel jeg hv. flm. langfærastan til að bera fram slíkt mál sem þetta.

Þetta frv. er ekki nýr gestur, en jeg tek fram, eins og hv. þm. Ak. (BL) gerði, að þó þörf kunni að vera á því, að þessi breyting verði gerð, hefir þetta mál þó ekki verið athugað af þjóðinni eins og æskilegt mætti teljast, en til þess ber brýna nauðsyn, að bera það undir sem flesta hugsandi menn. Þá eru og brtt., sem eru til mikilla bóta á frv., og á jeg þar við brtt. 272, sem jeg býst við, að flestir muni fallast á. Þó kemur bæði fram í þeim, eins og í umræðunum, að þetta muni hafa mikinn kostnað í för með sjer, og einn mikilsvirtur þingmaður, hv. 2. þm. Rang. (KIJ) hefir sagt, að samþykt frv. gæti vel orðið til þess, að ekki yrði þess langt að bíða, að óskir kæmu fram um annan lærðan skóla, og mjer heyrðist hann lofa þeim óskum fylgi sínu. Þó að þetta kunni ef til vill líka að vera nauðsynlegt, mun það þó mæta allmiklum andróðri. Það er oft, bæði innan þings og utan, talað um, að aðsókn til skólanna sje of mikil, og þykjast menn nú hafa fundið ráð til að koma í veg fyrir þennan annmarka, og það er þetta frv., sem á að bæta úr þessu. Jeg deili ekki við þá, sem þetta segja, því vel getur verið, að svo sje. En jeg sje ekki betur en að málið sje að því leyti illa undirbúið, að órannsakað er, hversu mikið heimavistir fyrir 50 nemendur muni kosta. Þá er og fyrir því ráð gert, að nemendur njóti húsaleigustyrks að skaðlausu, þangað til þessum heimavistum verður komið á fót. Þetta ákvæði hlýtur svo að skiljast, að þeir eigi að fá styrk, sem svari því, er nemendur annars þurfa að greiða fyrir húsaleigu, ljós og hita, hjer í bænum. En ennþá vantar gögnin á borðið, hvað sá kostnaður verður mikill fyrir ríkissjóð. (BJ: Hann verður voðalegur!) Hv. þm. Dala. segir, að kostnaðurinn verði voðalegur, og má það vel vera, þó að jeg hinsvegar búist fremur við því, að hv. þm. hafi sagt þessi orð í skopi. (BJ: Já.) Jeg átti von á því, eftir afstöðu hv. þm. (BJ) til fjárhagsmála ríkissjóðs yfirleitt að dæma.

Hvernig sem á mál þetta er litið, þá sje jeg ekki, að nokkur þröskuldur sje settur í veg þess, þó að því verði enn slegið á frest um stund, á þann hátt, að því verði nú vísað til stjórnarinnar með það fyrir augum, að hún taki það enn til ítarlegrar yfirvegunar og leggi síðan fyrir næsta þing, ef hún telur ástæðu til þess. Jeg kann betur við þessa leið en að samþ. verði dagskrártill. á þskj. 146 og leyfi mjer því hjer með að leggja það til, að frv. verði vísað til stjórnarinnar, með skírskotun til þess, sem jeg nú hefi sagt. Enda er nú orðið svo áliðið þingtímans, að engin von er til þess, að frv. verði afgreitt að þessu sinni, ef ekki á að flaustra því einhvernvegin af. En jeg býst við því, að hv. flm. (BJ) uni því illa, að þessu hjartfólgna áhugamáli hans verði ekki sá sómi sýndur, að frá því verði endanlega gengið með þeirri alúð og vandvirkni, sem þingmenn eiga besta. Þessvegna kæmi mjer á óvart, ef hann yrði óáægður með þau úrslit, að málið skyldi rannsakað enn betur en gert hefir verið. Því það segir sig sjálft, að gott mál verður ekki nógsamlega íhugað, einkum þar sem skoðanir manna um það eru skiftar.

Hinsvegar fæ jeg ekki sjeð, eins og sumir aðrir hv. þm., að nokkra sjerstaka nauðsyn beri til að fresta afgreiðslu málsins vegna fjarveru eins ágætasta skólamanns okkar einnar. Jeg býst við því, að hjer heima sjeu nú svo margir áhugamenn í þessum efnum, að alt geti komið í dagsljósið, sem mælir sjerstaklega með og móti þeirri stefnu í skólamálum, sem í frv. felst.

Jeg skal játa, að mig brestur þekkingu til að tala um mál þetta á við og dreif, á þeim breiða grundvelli, sem það hefir nú verið rætt. En mjög kæmi mjer á óvart, ef þeir, sem hafa samúð með stefnu frv., geta ekki felt sig við till. mína, um að vísa því nú til stjórnarinnar eins og sakir standa, og ekki vil jeg trúa því, að málið sje orðið, eða verði nokkurntíma, sjerstakt flokksmál.