15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

33. mál, lærði skólinn

Forsætisráðherra (JM):

Jeg fæ ekki skilið þá till., að vísa máli þessu til stjórnarinnar nú. Það er öllum hv. þm. vitanlegt, að jeg hefi áður, á þingi 1921, borið fram stjfrv., samhljóða þessu frv. og samkv. till. tveggja manna, sem höfðu rannsakað öll skólamál landsins, samkv. fyrirskipun Alþingis 1919. Þessvegna getur það varla þýtt annað, að vísa slíku frv. til stjórnarinnar, en að jafnframt sje til þess ætlast, að hún beri það aftur fram í svipuðu formi á næsta þingi. Því getur hv. deild ekki búist við, að jeg færi að bera fram öðruvísi frv. í aðalatriðum um þetta mál. En máske vísan málsins til stjórnarinnar eigi að þýða það, að hún skeri sjálf úr.

Eins og kunnugt er, var skipulagi latínuskólans breytt árið 1904, með stjórnarráðstöfun. Og heimildin til slíkrar stjórnárráðstöfunar er enn fyrir hendi. Skipulag mentaskólans er nú bygt á reglugerð, en ekki lögum. Sama er að segja um gagnfræðaskólann á Akureyri.

Jeg gat þess á þingi 1921, að jeg hefði skilið þingið 1919 svo, að það ætlaðist til, að skipulagi skólans yrði enn breytt á sama hátt, ef til kæmi, en þá ljet jeg þess jafnframt getið, að kostnaðarauki væri dálítill að frv. um lærða skólann, sem jeg lagði þá fyrir þingið, þar sem bæta þyrfti við 2 nýjum kennurum. Nú er sú ástæða horfin, þar sem miklu fleiri kennurum hefir verið bætt við mentaskólann síðan og kostnaður við breytinguna sjálfa ekki lengur af atriði. Að eins hyrfi úr sögunni gagnfræðaskóli fyrir Reykjavík, sem reyndar var ekki til fyrir 1904, og yrði bærinn því sjálfur að sjá sjer fyrir gagnfræðakenslu.

Ef málinu verður nú vísað til stjórnarinnar, mun jeg því taka til yfirvegunar, hvort ekki muni rjett, að hún ráði því til lykta eins og henni þykir best henta.

Annars verð jeg að segja, að mjer finst miður ráðið af hv. deild, ef hún vill ekki samþykkja frv. þetta nú.

Eins og jeg sagði hjer á þingi árið 1921, þá eru áreiðanlega langflestir þeirra, sem mesta reynslu og þekkingu hafa á skólamálum, þeirrar skoðunar, að þessa breytingu eigi að gera á skólanum, en breytingin 1904 hafi verið óheppileg, og því ekki annað rjettara fyrir hendi en fara aftur í gamla farið. Og jeg held það sje ekkert vafamál, að sjálfsagt sje, að lærðaskólamentun stúdentaefnanna byrji þegar í stað, að afloknu barnaskólanámi, en gagnfræðingum verði sjeð fyrir mentun á annan hátt.

Bæði jeg og aðrir hafa svo oft talað í þessu máli, að jeg hefi þar litlu við að bæta. En þó vildi jeg mega lesa kafla úr ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem frsm. mentmn. í þessu máli á þingi 1921. Hafi nokkuð á vantað, að jeg væri þess fullviss, að breytingin ætti fram að ganga, þá styrktist jeg í þeirri trú minni við að heyra orð hv. þm. (MJ). Það er svo oft, að dæmi kasta skýru ljósi yfir málin, a. m. k. hafa lögfræðingar oftsinnis orðið þess varir. Hv. þm. (MJ) segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það má líkja þessari skólamentun manna við það, þegar verið er að reisa hús frá grunni, enda er líking sú ekki ný; hún hefir verið notuð og margprófuð á ýmsan hátt og kemur mætavel heim í þessu sambandi.

Hugsum okkur, að tveir menn sjeu að reisa hús. Annar reisir sjer stórhýsi mikið; hinn byggir smátt, aðeins eina hæð. Nú er óhugsanlegt, að báðir mennirnir fari eins að við undirbúning og byggingu þessara húsa. Þegar lagður er grundvöllur undir hús, verður að sníða hann eftir því, hve háreist húsið á að verða. Það er heimska að kosta upp á of sterkan grundvöll undir litla húsið og eyða í hann ærnum tíma og firnum af fje. Þó er enn meiri heimska að reisa hann veikan undir stórt og hályft hús. Hvorttveggja yrði til skaða báðum þessum húsum.

Eins má segja, að fari fyrir tveim mönnum, sem ætla að afla sjer mismunandi mentunar.

Annar vill „praktiska“ mentun, fyrir lífið. Hann vill verða vel mentaður á þann hátt, hvort heldur sem hann ætlar að verða bóndi, iðnaðarmaður eða skrifstofumaður. Hann vill geta fleytt sjer í tungumálum, þekkja söguna og vita eitthvað í náttúrufræði. Yfirleitt vill hann læra, til þess að verða hæfur maður í hvaða stöðu sem bíður hans að náminu loknu.

Hinn hugsar sjer að verða vísinda maður eða embættismaður, eða það, sem almennast er að kalla það, lærður maður. Því þó að flestir fari hjer inn í embætti, þá verður þó nám þetta að miðast við vísindanám, og undir það verður að leggja öðruvísi grundvöll en þann, sem hinn „praktiski“ maður byggir sína hagkvæmu mentun á.

Eftir að þessir menn hafa lokið barnaskólamentun sinni, er óhugsandi, að þeir geti átt samleið eða farið eftir sömu reglum.

Sá, sem lengra námið ætlar að stunda, verður að byggja sem allra traustastan grundvöll. Hjá hinum „praktiska“ er það í raun rjettri lokanám, takmark í sjálfu sjer, en hjá hinum er þessi þriggja ára skólamentun aðeins byrjun á undirbúningi þess náms, er hann ætlar að stunda næstu 12–14 ár. Hann verður að leggja sem traustastan grundvöll, og hann getur byrjað á honum breiðum með tilliti til námsgreinafjöldans, því hann veit, að fram undan er nægur tími til þess að reisa háa byggingu á slíkum grundvelli.

Þessvegna sýnist heilbrigð hugsun segja manni, að þessir tveir menn geti ekki orðið samferða þetta þriggja ára skeið, án þess að skaða annan eða báða.“

Þetta er, eins og hv. þm. tók fram, ekki ný samlíking, en fyrir mjer skýrði hún málið svo vel, að jeg minnist hennar ætíð síðan.

Og flestir mætustu skólamenn okkar munu vera á sömu skoðun. T. d. veit jeg ekki betur en sá kennari mentaskólans, sem nú er talað um að bíða eftir, hafi lýst skýrt og skorinort því áliti sínu, að breyting þessa frv. væri sjálfsögð og nauðsynleg.

Jeg veit líka, að þegar breytingin var gerð, árið 1904, voru mjög margir harðóánægðir, og t. d. mun þáv. skólastjóri mentaskólans hafa sagt við skólauppsögn, þegar síðustu stúdentarnir voru útskrifaðir undir gamla fyrirkomulaginu, að það væri í síðasta skiftið, sem lærðir stúdentar útskrifuðust frá skólanum.

Þetta kann nú að vísu að vera dálítið orðum aukið, en þó er víst, að nám í samfeldum 6 ára skóla hlýtur að verða notadrýgra en nám, sem ekki er samfelt. T. d. munu þeir, sem nú ganga í mentaskólann, verða að læra sagnfræði í þrennu lagi. Fyrst í barnaskóla, síðan í gagnfræðadeild, og enn á nýjum grundvelli í lærdómsdeild mentaskólans. Og hið sama má sennilega segja um ýmsar aðrar námsgreinir.

Jeg get ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að bera svona mál sjerstaklega undir þjóðina. Mjer sýnist hv. þm. sjálfum vera fullörðugt að átta sig á því, og geri jeg því ekki ráð fyrir, að kjósendur verði vel færir um, að dæma í málinu á þingmálafundum. Þar að auki er málið ekki nýtt, heldur hefir þegar verið mikið rætt, bæði í blöðum og annarsstaðar.