15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

33. mál, lærði skólinn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð að segja, að jeg get með góðri samvisku tekið undir ummæli þeirra hv. þm., sem telja vanda mikinn að greiða atkv. um þetta mál nú.

Sjerstaklega lít jeg að mörgu leyti svipuðum augum á málið og hv. þm. Ak. (BL). Þó sje jeg enga ástæðu til að ásaka hv. flm. (BJ) fyrir að bera frv. þetta fram. Jeg efa ekki, að stefna hans í skólamálum sje sprottin af fullkominni sannfæringu, enda hefir hann meiri reynslu að baki sjer í þessum efnum en flestir aðrir hv. þm., og í annan stað verður ekki um það deilt, að stúdentafjöldinn hjá okkur horfir til stórvandræða, og er hann vafalaust skipulagi skólamálanna að kenna. Það laðar of marga inn á hina svokölluðu mentabraut og hefir þegar sprengt utan af sjer mentaskólann, og er á góðum vegi með að gera háskólanum sömu skil. Þessvegna má ekki lengur dragast, að betra skipulagi verði komið á skólamál okkar.

Hv. þm. Dala. (BJ) hefir með frv. sínu bent á eina leið að þessu ákveðna marki, en þrátt fyrir það finst mjer málið eigi svo vel undirbúið, að hægt sje nú þegar að ráða því til lykta, og get jeg því ekki fylgt frv., hve feginn sem jeg vildi.

Það er skylda okkar þm., að breyta því aðeins skipulagi, hvort heldur á skólamálum eða öðrum málum, að breytingin verði fyrirsjáanlega til batnaðar. Okkur verður ennfremur að vera það fullkomlega ljóst, hvað sigla muni í kjölfar breytingarinnar.

Að því er þetta mál snertir, þá er mjer einkum ekki vel ljóst, hverjar fjárhagslegar afleiðingar samþykt frv. muni hafa.

Hv. þm. Dala. (BJ) svaraði þessu atriði nokkuð við 2. umr., en mjer skildist þá á honum, að hann ætlaði nú að gera enn fyllri grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum breytingarinnar. Af þessu hefir þó ekki orðið ennþá, hvað sem því veldur. En eftir því, sem fram hefir komið í umr., þá má öllum ljóst vera, að í sambandi við mál þetta eru mörg fjárhagsleg atriði, sem skylt er að gera sjer grein fyrir, áður en gengið er til atkv. Það er skylda hv. þm., að gera sjer glögga grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum frv., bæði að því er snertir bæjarfjelög og ríkíssjóð.

Ef frv. verður samþ., þá er fyrsta afleiðingin, eins og hv. þm. Dala. (BJ) hefir vikið að, að í Reykjavík verður að koma sjerstakur gagnfræðaskóli, sem rúmi 450–600 nemendur. Í fjvn. hefir verið gengið út frá því, að ríkissjóður kosti byggingu slíkra skóla að 2/5, en greiði 3/4 rekstrarkostnaðar þeirra.

Jeg kysi nú að fá vitneskju um, hversu mikill þessi kostnaður yrði fyrir ríkissjóð, og ennfremur er það sjálfsögð skylda gagnvart Reykjavíkurbæ, að stjórn hans sje látin segja álit sitt á því, að bærinn reisi slíkan skóla að 3/5 og kosti rekstur hans að Ekki hefir þetta verið gert. Önnur afleiðing frv. er sú, ef þetta á ekki að verða eintómt fálm, að Flensborgarskólinn hlýtur, að nokkru leyti, að hverfa yfir á bæjarsjóð Hafnarfjarðar, og þriðja afleiðingin sú, að nokkur hluti rekstrarkostnaðar gagnfræðaskólans á Akureyri kemur niður á Akureyrarbæ.

Nú finst mjer skylda Alþingis að láta þessa aðila vita og segja álit sitt um svo afleiðingaríkar breytingar, áður en stofnað er til þeirra.

Og enn er eitt atriði, sem einnig þarf að gefa gaum.

Það hefir komið fram brtt. frá hv. þm. Ak. (BL) og fleiri hv. þm., um að reisa heimavistahús við skólann, er rúmi ekki færri en 50 nemendur, sem fái þar ókeypis húsnæði, ljós og hita. En þangað til húsið verður fullbúið, eiga ekki færri en 50 nemendur að fá svo mikinn styrk, að þeir sjeu skaðlausir. Eins og sakir standa nú, geri jeg ráð fyrir, að húsnæði, ljós og hiti muni varla kosta öllu minna en 60 kr. á mánuði, til jafnaðar. Fyrir 50 nemendur verða þetta 27 þús. kr. á ári, sje gert ráð fyrir 9 mánaða skólavist. Þessa upphæð verður ríkissjóður að gjalda, þangað til heimavistahúsið verður reist.

En hvað kostar svo að reisa hús yfir 50 nemendur á baklóð mentaskólans? Hefir það mál verið rannsakað? Jeg er ekki að hafa á móti þessum áformum, þó að jeg krefjist þess, að það liggi ljóst fyrir, hvað allar þessar breytingar muni kosta. Jeg hefi beðið eftir upplýsingum hv. þm. Dala. (BJ) um þessi efni, en þar sem hann sagði áðan, að mikið yrði að ganga á til þess að hann tæki aftur til máls, þá ræð jeg af því, að hann sje ekki undir það búinn, að gefa nauðsynlegar skýrslur um kostnaðarhlið þessa máls. Þó jeg hafi annars mikla tilhneigingu til að fylgja mínum gamla og góða latínukennara í þessu máli, þá vil jeg ekki stofna til svo víðtækra breytinga, án þess að athugað sje eftir föngum, hvað af þeim leiðir, einnig fjárhagslega.

Þá er eitt enn, sem leiðir af samþykt frv., en það er, að þar með verður slitið öllu sambandi milli gagnfræðaskólans á Akureyri og mentaskólans, og á þann hátt ónýttur sá vísir til mentaskóla, sem Norðlendingar þrá svo mjög að fá hjá sjer. Jeg skil vel, að Norðlendingum er þetta viðkvæmt mál, og veit, að þeir munu ekki una slíkum afdrifum til lengdar. Þeir eru kappsmenn miklir og hafa sótt fast, að fá stofnsettan mentaskóla í Norðlendingafjórðungi.

Fyrir nálega 1000 árum síðan var stofnsettur lærður skóli í þessum fjórðungi landsins, fyrir ötula forgöngu hins vitrasta manns, sem þá var uppi með þjóðinni. Og við vitum allir, að þær mentastofnanir, sem þar hafa starfað, hafa verið svo merkilegar og lagt svo margt gott af mörkum til menningar þjóðarinnar, bæði fyr og síðar, að á þeim grundvelli er erfitt að setja Norðlendinga enn skör lægra í mentamálum en gert hefir verið undanfarið.

Út frá öllum þessum hugleiðingum verð jeg að styðja till. hv. þm. Barð. (HK) um að vísa málinu til stjórnarinnar að þessu sinni.

En það vil jeg taka skýrt fram, að frá minni hálfu er það ekki gert með þeim forsendum, að hæstv. stjórn ráði málinu til lykta upp á eigin spýtur, að þinginu fornspurðu, enda vil jeg ekki trúa því, að það verði gert.

Að lokum vildi jeg segja eitt orð við hv. þm. Dala. (BJ), sem e. t. v. tekur illa upp fyrir mjer, að jeg skuli ekki geta gengið inn á að afgr. frv. hans nú þegar.

Vegna þess, hve mikið er talað um latínu og latnesk fræði, þá vil jeg minna hann á latneskan málshátt, sem heitir: festina lente. Jeg held, að hv. þm. væri rjett að lifa eftir því heilræði í þessu máli. Og slíkt mál sem þetta á að koma betur undirbúið til þings en raun ber vitni um í þetta sinn.