15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

33. mál, lærði skólinn

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil svara hv. 4. þm. Reykv. (MJ) því, að þó að lærdómsdeildin yrði lengd um eitt ár, þyrfti ekki að lengja allan skólatímann um heilt ár fyrir því. Það mætti framkvæma þetta á þann hátt, að stytta gagnfræðadeildina um eitt ár, breyta þriðju deild gagnfræðaskólans í fyrstu deild lærdómsdeildarinnar. Þetta var því rangt ályktað hjá hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Það er alkunnugt, að 4. bekkur mentaskólans er nú fullþungur, en 3. bekkur aftur á móti of ljettur. Þetta hefir mikla þýðingu í þessu máli. Jeg veit að vísu, að milliþinganefndin í mentamálunum hjelt, að lengja þyrfti skólann, ef tvískiftingunni væri haldið. En þetta var rangt hjá nefndinni. Á sama tíma sat nefnd í einu nágrannalandi okkar, og komst hún að þeirri niðurstöðu, að tvískiftingin þyrfti engum töfum að valda. Það er satt, að menn byggja ekki hús hvert utan um annað, en hv. þm. (MJ) bygði líkingu sína þannig, að hún rjettlætti þessi orð mín. En nú hefir hann snúið þessu við, og vill nú byggja alt á sama grunninum, en vill aðeins hafa hæðirnar mismunandi margar. Þá hefði hv. þm. getað sparað sjer harmagrátinn um, að andi nútímans sje að gera alt grátt. Vísindamentun verður ekki grá þar fyrir, þó að hún geti átt samleið með alþýðumentun fram að fermingaraldri eða heldur lengra. Hv. þm. telst víst vilja hafa litklædda vísindamenn og gráa alþýðumenn. Það mætti leika hann grátt fyrir að halda svo gráar ræður.