09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjer tvær till. á þskj. 486. Önnur er um styrk til Stefáns skálds frá Hvítadal. Hann er nú jafnmaklegur styrksins sem áður, er hv. deild samþykti hann, svo jeg fjölyrði ekki um þá till.

Þá er brtt. viðvíkjandi tóvinnufjelagi Vestur-Ísfirðinga. Jeg hefi nú beðið um lán, en ábyrgð til vara. Jeg vona, að hv. deild samþykki slíkt lán, þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. fjrh. (JÞ). Ef ekkert fje er fyrir hendi, þá er hættulaust að samþykkja hana, en ef heimildin með frystihúsin er ekki notfærð, þá er af nógu fje að taka; en þó svo verði ekki, þá mun samt hv. deild vera mjer sammála um, að atvinnufyrirtæki sem þetta á að sjálfsögðu að ganga fyrir lánveitingum til húsagerða handa embættismönnum og öðru slíku, sem ekki á skylt við atvinnuvegi þjóðarinnar.

Þá á jeg nýja brtt. við athugasemdina um skólagjöldin. Er efni hennar að leggja úrskurðarvaldið um skólagjöldin í hendur skólastjóranna. Þeir eru sínum nemendum kunnugastir og vel treystandi til að fara rjettlátlega með það vald.