14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

96. mál, hvalveiðar

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði um hrefnurnar. Mörgum hefir veiði þeirra orðið björg í búi, góður matur og ódýr. En þeir, sem stunda slíkar veiðar, mundu bíða skaða eigi alllítinn, ef tekinn væri af þeim veiðirjettur.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að fyrir sjer vekti það, með því að friða hrefnuna, að hún ræki síld að landinu. En hvað er svo sagt í greinargerðinni fyrir frv., að „hvalir geri usla í síldinni og hreki hana engu síður frá landi en að.“ Jeg held, að þetta sje satt. Að minsta kosti er það ósannað mál, að hrefnan hafi nein áhrif til bóta á síldveiðarnar. Um það segja menn sitt á hvað. En meðan engra sannana er hægt að afla um það, að hrefnudráp hafi áhrif á síldveiðarnar og síldargöngu, finst mjer engin meining í því að banna mönnum að drepa þær.

Annars er það rjett, að hvalveiðar hafa verið útlendingum, fremur en Íslendingum, til hagsmuna, því að þeir hafa drepið hvalinn fyrir sunnan, vestan og norðan — og þá sjerstaklega „finnhval“.