14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

96. mál, hvalveiðar

Sveinn Ólafsson:

Jeg tek aðeins til máls út af ummælum hv. þm. Str. Frá mínu sjónarmiði er atvinnuvegur sá, að veiða hrefnu, mjög lítilfjörlegur. Jeg veit það, að eystra hefir það gefist illa. 2 hrefnur hygg jeg að hafi veiðst á 2 árum, en í eitt skiftið lá við slysi eða manntjóni, því að skotbátnum hvolfdi, er hvalurinn dró hann á skutulfærinu. — Annars er fullkominn vafi á um það, að þessi hrefnuveiði sje lögleg. Um það hefir orðið ágreiningur, og engin ábyggileg lögskýring er þar til. Hvalafriðunarlögin gömlu undanskilja friðun tannhvali og önnur smáhveli. Með þetta fyrir augum hefir svo hrefnan verið heimfærð undir smáhveli, þótt hún sje oftast um 30 fet að lengd og því miklu stærri en flestir tannhvalir, að undanskildum búrhval.

Jeg hefi átt tal við lögfróða menn um þetta efni, þar á meðal sýslumann Sunn-Mýlinga, sem er glöggur og gætinn lögmaður, en þeir hafa verið mjög á báðum áttum um það, hvernig skilja bæri lögin, og þessi sýslumaður taldi lagaheimildina mjög vafasama, en eigi gerlegt að banna hrefnuveiðina eystra, af því að hún leyfðist eða liðist annarsstaðar.

Út af ummælum hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), og fleiri manna, vil jeg taka það fram, að þótt jeg viti vel, að hvalir hafi ekki áhrif á síldargöngur alment eða reki síld af hafi til lands, svo sem margir hugðu áður, þá er ekki með því sagt, að hvalir geti ekki stygt síld og haft þannig áhrif á netaveiði. Alkunnugt er, að fiskur styggir síld og fælir hana í net, og eins er því varið um hver önnur dýr, sem elta hana eða fæla, og þar á meðal hrefnuna. Hitt er auðvitað gömul og úrelt kreddukenning, að hvalir reki síld á undan sjer. Þeir eru hraðfærari en aðrir fiskar, jafnvel hraðfærari en skriðadrjúg gufuskip, en síldin aftur tiltölulega mjög sein að synda. Þessvegna er það fjarstæða að tala um, að hvalir reki hana á undan sjer.