01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. minnihl. (Jón Baldvinsson):

Jeg er ósamþykkur sjútvn. um málið. Á síðasta þingi var borið fram frv. um hvalveiðar og samþykt lög um friðun hvala, er gilda skyldu til 10 ára. Nú vill meirihl. hv. sjútvn. gera nýja skipun á þessum málum, þannig, að einstakir menn geti fengið leyfi til þess að reka hvalveiðar gegn ákveðnu gjaldi.

Nú er það svo, að flestar þær hvalveiðistöðvar, sem hjer á landi voru og störfuðu til 1914, eru lagðar niður og mundi verða nokkur kostnaður að koma þeim upp á ný. Mjer finst því eðlilegast, að ríkið sjálft reki þessa atvinnu, ef hún er upp tekin á ný. Sje svo, að einstakir menn hefðu hag af að reka þessa atvinnu, þá ætti það engu síður að vera hagur fyrir hið opinbera. En jeg mundi samt ekki leggja til, að þessi atvinnurekstur yrði upp tekinn að svo stöddu. En jeg sje enga ástæðu til þess að fara að veita sjerleyfi, sem komi þó aðeins fáum mönnum að gagni. Sje á það litið sem atvinnubót, verður hún þó vísast lítil, og lítið verður líka það gjald, sem ríkissjóður kynni að fá fyrir leyfin. Jeg hefi ekki gert neitt sjerstakt nál., áleit þess ekki þurfa, en vildi aðeins segja þessi fáu orð.