01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2555)

96. mál, hvalveiðar

Sveinn Ólafsson:

Þessar brtt. hv. sjútvn. á þskj. 221 eru að vissu leyti viðeigandi. En jeg held, að hv. nefnd hafi skotist yfir að gera brtt. við 2. gr. frv., þar sem bannaður er flutningur hvala í land. Og ef þetta mál skyldi fara aftur til nefndar, til lagfæringar, þá þyrfti að athuga þetta:

„Bannað er að hafa hvalveiðistöðvar á landi og flotstöðvar í landhelgi, sem og að flytja hval í land til hagnýtingar, nema til þess sje fengið sjerleyfi.“

Hjer er vitanlega átt við hvali, sem skotnir eru, en ekki átt við að banna að flytja í land hval, sem fundinn er dauður, þótt setningin bendi til þess. Jeg tók ekki eftir þessu fyr en búið var að prenta frv.

Að því er snertir brtt. nr. 1 á þskj. 221, að undanskilja hrefnur friðun. Þá get jeg ekki fallist á það. Þetta er eini skíðishvalurinn, sem hjer er staðbundinn. Það er fátt af honum, 2 og 3 sjást saman, sjaldan fleiri. Þetta er einnig sú tegund hvala, sem gagnlegust er og hefir verið síldveiðum, einkum meðan stunduð var lagnetaveiði. Þessir hvalir flakka um firði og vikur og styggja oft síld í net. Og það eru ekki einungis not að þessum flökkukindum, heldur einnig ánægja og prýði, því þeir eru oft á ferð, þegar ekki sjest nokkur kvik skepna á sjó, og eru veiðiviti.

Jeg get því ekki fylgt þessari tillögu hv. nefndar. Jeg veit, að hjer er ekki um neinn stórfeldan atvinnuveg að ræða, þótt leyfð væri veiði hrefnunnar, og mundi endast aðeins stutta stund. Það eitt ynnist við ófriðun hrefnunnar, að spilla þeim notum, sem að þessu dýri eru.

Um 2. brtt. skal jeg ekki ræða. Hæstv. atvrh. (MG) benti á, að hún væri ekki rjett hugsuð. Um þá 3. get jeg sagt, að jeg er henni samþykkur.

Viðvíkjandi athugasemdum þeim, er hv. 2. þm. Reykv. (JBald) gerði, skal jeg geta þess, að mjer er vel ljóst, að hvalveiðalögin frá 1914 voru aðeins til þess að firra ríkissjóð tekjum, en vernduðu ekki hvalinn. Ef tekjuauki á að verða að þessari veiði, þá verður að leyfa einhverjum að veiða. Það má ekki binda við íslenska ríkisborgara eina, því að það er ekki líklegt, að Íslendingar taki upp þessa veiði í svo stórum stíl, að mikið gagn verði að.

Það er ekki rjett hjá hv. þm., að þetta sje ekki umfangsmikil atvinna. Jeg man ekki, hve miklar tekjur voru af útfluttum hvalafurðum síðustu árin, sem stórhvalaveiði var stunduð hjer, en þær skiftu tugum þúsunda frá einni stöð. Ef tækist að fá útlendinga til að koma hjer upp myndarlegri hvalveiðistöð, í samvinnu við innlenda menn, þá ætti það að geta orðið álitlegur tekjuauki ríkissjóði. Sem stendur er friðun hvala hjer aðeins vatn á mylnu útlendinga, sem hafa stöðvar í Færeyjum og annarsstaðar í nánd við oss og sækja veiði sína í norðurhöf.