01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

96. mál, hvalveiðar

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg tek eindregið í sama streng og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að því er snertir 1. brtt. nefndarinnar, því að jeg álít hana óheppilega. Samkv. nál. er brtt. þessi fram komin með hagsmuni sjómanna fyrir augum, en jeg tel vafamál, að hjer sje um mikla hagsmuni að ræða. Jeg skal minnast á nokkra reynslu, sem fengin er í þessu efni við Eyjafjörð. Það eru örfá ár, líklega 4–5, síðan farið var að stunda þessa veiði þar. Maður sá, sem byrjaði, mun hafa hagnast vel á veiðinni fyrst í stað, en strax eftir að það varð kunnugt, hugðust margir að grípa upp fje með samá hætti, og hver báturinn eftir annan var útbúinn til veiða. En smámsaman þvarr veiðin. Hrefnan var drepin eða stygð, og sumir bátarnir fengu ekkert nema tóman skaða. Síðastliðið sumar held jeg að enginn hafi haldið þar uppi veiði þessari, að minsta kosti mun ekkert hafa aflast, hvort sem tilraunir kunna að hafa verið gerðar. Bendir þetta glögt á, að hjer muni ekki vera um mikla hagsmuni að ræða og síst nokkur uppgrip. En svo er önnur hlið á þessu máli. Jeg veit, að það er álit gamalla og reyndra fiskimanna við Eyjafjörð, að útrýming hrefnunnar mundi hafa mjög slæm áhrif á síldveiði við fjörðinn í lagnet og með fyrirdrætti. Þeir telja margsannað af reynslunni, að þegar hrefnan fer um fjörðinn, þá styggist síldin upp að löndunum, inn í víkur og voga, þar sem hægt er að veiða hana í lagnet og með fyrirdrætti. Jeg veit, að sumir draga þetta í efa, en sjómenn munu þó vera mjög á einu máli í þessu efni. Jeg játa, að jeg hefi ekki persónulega þekkingu á þessu, en jeg tel reynslu sjómannanna ábyggilega, enda skiljanlegt, að á löngum og þröngum fjörðum hafi hrefnan þessi áhrif á göngu síldarinnar. Hinsvegar er öllum ljóst, að mjög er mikilsvert við Eyjafjörð að ná í síld í beitu. Veltur það auðvitað á miklu, þegar nógur þorskur er úti fyrir. — Um þetta þýðir ekki að orðlengja. En jeg vil bæta því við, að eins og hrefnudrápinu er hagað á Eyjafirði, er veiðin mjög ómannúðleg. Eftir að búið er að festa skutulinn í hrefnunni, gengur langur tími í að murka úr henni lífið. Hún æðir dauðasærð fram og aftur, stundum hátt upp í dægur, uns hún verður uppgefin af eltingaleik og endurteknum skotum. Menn geta gert mikið eða lítið úr þessari ástæðu eftir vild.

En mjer finst þetta þó fremur mæla með því, að þessari fallegu skepnu sje hlíft við svona ofsóknum, ekki síst, þar sem ef til vill um enga hagsmuni er að ræða við dráp hennar og jafnvel fremur tjón. Jeg mun hiklaust greiða atkv. á móti þessari brtt.