01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

96. mál, hvalveiðar

Ágúst Flygenring:

Það er búið að taka fram margt af því, sem jeg vildi segja. Jeg vil þó til árjettingar geta þess, að flm. frv. hafa hugsað sjer, að með þessu frumv. væri stigið spor í þá átt að taka hjer upp hvalaveiðar, sem samkv. friðunarlögunum 1913 voru lagðar niður.

Það var almenn skoðun, að nauðsynlegt væri að friða hval, vegna þess, að hann hefði áhrif til bóta á síldargöngu. En nú er staðhæft af þeim, sem reynslu hafa, að þetta sje á engum rökum bygt, ,og hvalurinn geri ef til vill fremur ógagn í þessu efni. Að því er hrefnuna snertir, sýnist ekki ástæða til þess að gera undanþágu með hana. Þessi skepna hefir orðið mönnum góð björg sumstaðar, en hefir hinsvegar engin áhrif til góðs á síldargöngu, ef til vill spillir fremur veiðinni. Mætti vísa til sjerstakra rannsókna um þetta efni. Þessi skepna lifir alls ekki á síld, heldur öðru æti, þó að stundum sje það samferða síldinni. Þessi almenna trú, að síld fylgi hvalnum, er því ekki nema hálfur sannleikur. Jeg man eftir því, að þegar jeg var á sjó fyrir nálægt 40 árum, var mjög mikið um hval í Kollál á Breiðafirði, sem er skamt norður af Snæfellsnesi, og komu þó ekki siður fiskileysisár þá en nú. Það gat ekki verið af því, að hval vantaði, því að nóg var af honum þar ætið. Ef litið var út yfir Faxaflóagrunnmiðin, sást stundum reykur við reyk, svo mikið var þar þá af hval. Það má færa mörg rök að því, að fiskigöngur eru í engu sambandi við tilveru hvala. Sjest það m. a. af því, að fiskur hefir alls ekki minkað hjer, þó að hvölum væri nær því útrýmt. Þetta frv. er spor í áttina til þess, að hvalveiðar verði teknar upp aftur. Eru hjer sett að nokkru leyti sömu ákvæði og Norðmenn hafa í sínum lögum um þetta efni. Ef til vill væri rjettara að rýmka þetta meira. Það mundi ótvíræður hagur fyrir landsmenn, að taka þessa veiði upp aftur. Mikill kostnaður er því ekki samfara að reka hvalveiði. Ekki neitt í líkingu við botnvörpuveiðar. Það eru aðallega skotvopnin og sá útbúnaður, sem er dýr, og svo stöð, þar sem veiðin er hagnýtt. En jeg býst við, að slíkar stöðvar sjeu ekki mjög dýrar, að minsta kosti eru Norðmenn fljótir að koma þeim upp. Vana skotmenn þyrfti að fá, til að byrja með, en vjelar hygg jeg að ekki sjeu mjög dýrar. Það hefir verið talað um, að ótilhlýðilegt væri, að fyrir þetta væri greitt sjerstakt gjald. Jeg sje ekki, að það sje neitt ótilhlýðilegt, ef um arðsaman atvinnuveg er að ræða, þó að greitt sje fyrir örlítið gjald, úr því það á ekki að vera öllum heimilt. Með sjerleyfi verður veitt trygging fyrir því, að hæfilega margir stundi þessa atvinnu, og fyrir þá tryggingu er sanngjarnt, að eitthvað sje borgað.

Hvað brtt. snertir, þá þótti okkur rjettara að bera þær fram, til þess að ekki gæti orkað tvímælis um þau atriði, sem vikið hefir verið að áður.