09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 486. Eru það XII. og XX. brtt. Getur varla talist, að þær horfi til útgjalda, a. m. k. ekki í samanburði við margar aðrar. XII. brtt. er í raun og veru viðaukatillaga við 17. brtt. fjvn. á þskj. 482, sem fer fram á að veita konu á Vesturlandi styrk til skólahalds í kvennlegum hannyrðum. Legg jeg til, að um leið og þeirri konu er veittur styrkur sá, er fjvn. leggur til, sje annari konu á Austurlandi veittur jafnhár styrkur í sama tilgangi. Kona þessi, Sigrún Pálsdóttir, hefir haft slíka kenslu á hendi sex undanfarin ár, en á nú erfiðara um vik en áður, vegna bústaðaskifta. Hún er mjög vel gefin og vel mentuð kona, og eigi aðeins í kvennlegum hannyrðum, heldur og fleiru, er húsmæðrum má að gagni koma, enda er jeg viss um, að hverri húsmóður er mikill ávinningur að því að vera undir handleiðslu hennar. Annars þarf jeg ekki að tala frekar fyrir till. þessari, því að hv. þm. Dala. (BJ) tók að mestu af mjer ómakið í gær. Hann skýrði alveg rjett frá högum hennar og starfsemi, en ljet um leið undrun í ljós yfir því, að jeg skyldi vera sjer samtaka um till. þessa, þar sem við hefðum svo oft elt grátt silfur. Þótt svo sje, höfum við engu að síður verið ágætlega sammála í ýmsum málum. En hv. þm. Dala. mun vera farinn að verða gleyminn eins og jeg, enda erum við jafnaldrar.

Þá kem jeg að síðari till. Flyt jeg hana ásamt hv. þm. Ak. (BL), og er hún í tveim liðum. Hjer er ekki farið fram á beinar fjárveitingar, heldur það, að ríkissjóður ábyrgist lán til Búðahrepps, að upphæð 100 þús. kr., og lán til Akureyrar, alt að 150 þús. kr., í þeim tilgangi, er í brtt. segir. Rafveitan í Búðahreppi hefir lengi verið í undirbúningi, og þykir nú fært að fara að koma henni upp, þar sem efni hefir fallið mjög í verði. Till. um litlu hærri ábyrgð á láni til þessa sama hrepps fjell við 3. umr. í háttv. Nd. Hygg jeg, að það hafi orðið af vangá, en ekki af því, að deildin hafi ekki viljað unna hreppnum þessa láns. Hreppur þessi hefir haft ríkissjóðsábyrgð á láni þessu í þrjú ár, frá 1921–’24, en vildi ekki nota sjer ábyrgðina sökum óhagstæðs árferðis. Nú hefir hreppurinn fengið tilboð frá Noregi um lán, ef nægileg trygging sje veitt. Jeg skal að vísu kannast við, að stundum hefir verið gengið óvarlega í slíkar ábyrgðir, svo að ríkissjóður hefir beðið nokkurn halla af, en slík slys geta altaf komið fyrir. Hinsvegar ætti það að vera innanhandar, er um nýjar ábyrgðir er að ræða, að tryggja þær, svo að ekki standi hætta af, enda er hjer ætlast til, að svo verði gert.

Jeg get því ekki fallist á, að hjer sje verið að stofna ríkissjóði í neina hættu. Hjer á í hlut vel stætt hreppsfjelag, sem naut mikils góðs af góðærinu árið sem leið, og í hitt eð fyrra, er víða annarsstaðar var óhagstætt árferði, var þar mjög gott í búi. Það mun fullkomlega óhætt að treysta því, að þeir menn, sem hjer eiga hlut að máli, ráðast ekki í slíkt fyrirtæki sem þetta án þess að geta tekið hinum fjárhagslegu afleiðingum þess. Hinsvegar er mun auðveldara að fá lán með góðum kjörum, ef ríkissjóður stendur á bak við.

Um síðari till. gegnir sama máli og um hina fyrri, en með því að jeg veit, að hv. þm. Ak. (BL) muni tala fyrir henni, get jeg sparað mjer að gera það.