01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. meirihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg skal ekki hefja neinar frekari umræður um till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), en jeg tel rangt, að þessar veiðar komi aðeins fáum mönnum að gagni. Þetta getur veitt atvinnu talsvert mörgum mönnum og gefur auk þess kost á ódýrum matvælum. Jeg sje ekki betur en að þessi atvinnugrein geti verið jafngóð eða betri landsfólkinu en ýmisleg önnur starfsemi, sem nú er ekki við amast, og jeg veit, að hv. þm. (JBald) kann að meta það, að sjeð sje fyrir atvinnu í landinu. Það er líka rangt, að ríkið fái ekki nema þessar 500 kr. af hverjum bát. Ríkið fær mörg önnur lögmæt gjöld, inn- og útflutningsgjöld auk tekjuskatts. Virtist okkur því ekki ástæða til að leggja hærri sjerstakan skatt á þennan atvinnuveg. Það er heldur ekkert óeðlilegt við það, að leggja þennan skatt á, eins og hv. þm. Barð. (HK) hjelt fram að væri, þar sem miðað er við sjerleyfi. En fyrst um sjerleyfi er að ræða, verður auðvitað og að miða við ákveðinn tíma. Þá virtist hv. þm. Barð. (HK) halda því fram, að við kæmum með brtt. um að undanskilja hrefnuna, af því að gildandi lagaákvæði væru brotin. En svo er ekki. Við komum með hana vegna þess, að ekki er amast við þessum lögbrotum. Það er tvent ólíkt. Að ekki er amast við brotunum, sýnir það, að menn telja ekki, að þau geri skaða. Það mælir margt með því, að fella úr gildi lög, þegar framkvæmd þeirra er niður fallin, því það bendir á, að þau sjeu orðin úrelt.

Mjer skilst á hv. þm. S.-Þ. (IngB), að honum sje sárt um hrefnuna, og sama kom fram hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Þeir tala um hrefnuna á sama hátt og áður var talað um öll stórhveli, meðan sú trú var almenn, að hvalirnir smöluðu síldinni upp að landi. En það hefir sýnt sig, að síldargöngur eru alveg óháðar hvölum. Síldin er að elta átu, þegar hún kemur að landi. Það er átan, sem ræður ferð hennar, en ekki hvalurinn. Það má lengi deila um áhrif hvala á síldveiði, en jeg gat þess við 1. umr., að Norðmenn telja síldveiðina öruggari hjá sjer síðan stórhvelum fækkaði. Það getur alveg eins vel komið fyrir, að hvalir reki síldina frá landi eins og að. — Sumir hv. þm. hafa lagt áherslu á, að hrefnuveiði mundi ekki vera ágóðavænleg, enda væri hún að leggjast niður. En þá friðar hrefnan sig sjálf. En jeg skal játa það, að þar sem þessi skoðun er viða ríkjandi, að það eigi helst að friða hrefnuna, þá ætti að taka nokkurt tillit til þess, jafnvel þó að hægt væri að sýna með skýrum rökum, að þetta sje misskilningur, enda ekki fyrir að synja, að hrefnan geti haft nokkur áhrif til bóta á mjóum fjörðum. Það er rjett, að lofa þeim mönnum að fá sinn vilja og lifa í sinni trú, sem svo hugsa, jafnvel þótt hún væri ekki á rökum bygð, og þegar um atvinnuvegi manna og hagsmunavon er að ræða, er líka rjett að taka tillit til þeirra. En það er líka rjett að taka tillit til hinna, sem ekki vilja láta friða. Hvorttveggja mætti gera með því að ófriða hrefnuna yfirleitt, en gefa svo sýslufjelögum heimild til að friða hana fyrir sínu landi. Það er hvorttveggja nokkuð hart aðgöngu, að ganga alveg á móti skoðunum manna, á hvora hliðina sem er, fyrst þessi meðalvegur er til.

Út af ummælum hæstv. atvrh. (MG) vil jeg þakka honum fyrir þá bendingu, sem hann gaf nefndinni. En jeg sje ekki ástæðu til að taka málið fyrir það út af dagskrá, þótt hans skoðun reyndist rjett, því að 3. umr. er eftir, og nefndin getur athugað málið þangað til.

Það hafa einhverjir hv. þm. talað um, að þessi skekkja, sem hæstv. atvrh. (MG) benti á, lægi í brtt. við 2. gr. En það er ekki rjett, því að brtt. á aðeins við búsetuna, en búsetuskilyrði má setja bæði íslenskum og dönskum ríkisborgurum, þar sem sömu lög ganga yfir hvoratveggja, svo að gallinn, ef hann er einhver, liggur ekki í brtt., heldur í frv. sjálfu, þar sem stendur, að sjerleyfi geti Íslenskir ríkisborgarar einir fengið. En þar sem nú frv. hefir gengið svona í gegnum eina umr. í þessari hv. deild, finst mjer, að það geti einnig gert það við 2. umr., svo má breyta því við 3. umr. En jeg skal játa, að mjer er ókunnugt um, hvort því er alstaðar hnýtt við í íslenskum lögum, þegar um sjerstök leyfi eða heimildir er að ræða, að þann rjett geti aðeins íslenskir ríkisborgarar fengið, „og aðrir, sem njóta sama rjettar“, og eins er mjer ókunnugt um það, hvort Danir hnýta samskonar ákvæði við sín lög, en býst þó varla við því. Jeg tel líklegt, að það nægi, sem í frv. stendur, því að enginn lögfræðingur mundi verða í vandræðum með að útskýra þessi ákvæði í samræmi við 6. gr. sambandslaganna.

Jeg skal þá leyfa mjer að mælast til þess, að málið verði ekki tekið af dagskrá, þótt allar brtt. verði ekki bornar undir atkv.