01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. meirihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil aðeins geta þess, út af orðum, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem virtist óttast það, að mörg sjerleyfi yrðu gefin út, að þessi leið er einmitt farin til þess að tryggja atvinnuveginn. Það er álit stuðningsmanna frv., að þetta geti ekki orðið tryggur atvinnuvegur, nema með sjerleyfum og þeim ekki mörgum. En hitt fanst okkur ekki rjett, að setja það í lögin, hve mörg sjerleyfi mætti veita, það verður að vera „konduite“-atriði. Það var að vísu rætt um það hjá okkur, að ekki mundi hyggilegt að veita meira en tvö sjerleyfi, annað fyrir Austurland, en hitt fyrir Vesturland, og ekki heppilegt að veita hvoru fjelagi leyfi til að hafa fleiri báta en svo sem þrjá. Og við þykjumst þess fullvissir, að þegar stjórnin veiti sjerleyfi, þá geri hún það með tilliti til þess, að atvinnuvegurinn geti orðið sem allra tryggastur og til langframa.