01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

96. mál, hvalveiðar

Ingólfur Bjarnarson:

Mjer þótti rjett að taka það fram, af því að talað var um það, að ekki hefði verið amast við þessum lögbrotum hingað til, sem hrefnudrápið vitanlega væri, og því væri rjett að leyfa það nú, að jeg veit, að það hefir mikið verið amast við því við Eyjafjörðinn, að hrefnan væri drepin, af flestum, er þar hafa stundað síldveiði. En þeir hafa litið svo á, að það væri mikill vafi á því, hvort hrefnan væri friðuð, og jeg held, að sumir lögfræðingar hafi litið svo á, að ekki væri hægt að banna hrefnudrápið, vegna þess, hvernig lögin eru úr garði gerð. En það er alveg víst, að mikið hefir verið amast við þessu, þótt ekki væri hægt að gera neitt við því. Annars þýðir líklega ekki mikið að tala um þetta. En hvað það snertir, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) var að tala um, að þeir á Eyjafirði myndu ekki hafa kunnað að veiða hrefnuna, þá er það fullyrðing út í loftið, sem ekkert gildi hefir; jeg geri ráð fyrir, að þeir kunni sæmilega til þeirrar vinnu, eftir því, sem hægt er. Og hvað þá fullyrðingu hv. þm. (JAJ) snertir, að hrefnan hafi engin áhrif á göngu síldar, þá finst mjer ekkert byggjandi á þeirri staðhæfing, því gagnstæð skoðun fiskimanna á þessu atriði byggist hreint og beint á reynslu þeirra manna, sem síldveiðar hafa stundað um langan tíma. Og jeg get á engan hátt gert meira úr staðhæfing hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) heldur en reynslu þeirra manna, sem hafa oft tekið eftir því, að þegar síldin liggur frammi í fjarðardjúpinu, án þess að nást í net, þá kemur rót á hana, ef hrefna fer um fjörðinn, við þann usla, sem þessi stóra skepna gerir, og er þá ekki nema eðlilegt, að síldin hrökkvi undan og færist nær landi. Annars þýðir ekki að karpa um þetta hjer. En jeg held því fast fram, að þessa brtt. eigi að fella.