03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

96. mál, hvalveiðar

Atvrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skil hv. frsm. (ÁÁ) þannig, að því er snertir síðustu brtt., að ef fjelag á í hlut, þá megi ekki láta það fá þetta leyfi, nema það hafi heimild til að fá skip skrásett hjer. Jeg hefi ekkert við þetta að athuga.

Út af 1. brtt. skal jeg taka það fram, að mjer finst undarlegt, ef sumstaðar á að leyfa hrefnuveiði, en sumstaðar ekki. Það er óvíst, að samkomulag fáist um þetta milli hjeraða, en það fer þá ekki ver en svo, að heimildin verður ekki notuð. Jeg ætla ekki að leggja á móti þessari brtt., en jeg efa samt, að rjett sje að samþykkja hana, og held, að hún verði þýðingarlaus.

Hrefnan tel jeg, að ekki sje friðuð. Hún mun teljast til skíðishvala og vera minst þeirra, en svo er tiltekið í gildandi lögum, að tannhveli og smáhveli sjeu ekki friðuð.