09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer brtt., sem að vísu ganga í lækkunaráttina. Veit jeg vel, að slíkar tillögur verða jafnan óvinsælli en hækkunartillögurnar. Mælist slíkt jafnan illa fyrir hjá þeim, sem hlut eiga að máli, hvort sem það eru einstakir menn eða hjeruð.

Fyrst vil jeg minnast á þá brtt. mína, að sú fjárveiting, sem í 14. gr. B. VIII, 3. a–c er ætluð til skólahalds á Staðarfelli, falli niður. Mál þetta er þess eðlis, að hægt væri að rekja langa sögu þess, en með því, að málið mun mörgum kunnugt, mun jeg ekki fara langt út í þá sálma. Eins og kunnugt er, var Staðarfell upphaflega gefið með það fyrir augum, að kvennaskóli væri stofnaður þar. Frú Herdís Benediktsen gaf og sína gjöf með hið sama fyrir augum. Er kunnugt, að á Vesturlandi hafa komið fram óskir um það, að þessum gjöfum væri slegið saman í þessum tilgangi. Hinsvegar hefir og mótmælum verið hreyft og talið, að slíkt væri ekki í samræmi við tilætlun annars gefandans, frú Herdísar.

Það er alkunna, að í gjafabrjefinu er skýrt tekið fram, að stofna skuli sjerstakan skóla, og ekki fyr en sjóðurinn er orðinn svo stór, að hann einn nægi til að bera skólann uppi. Jeg verð að halda því fram, að þó nú sje ráðgerður húsmæðraskóli, þá sje ætlunin sú, að taka þetta áðurnefnda fje, sem að mínu áliti er alls ekki hægt, nema með ránshendi, svo fremi að ekki á að einskisvirða síðasta vilja gefandans. (JAJ: Hver ætlar?). Ýmislegt bendir á, að þetta vaki fyrir mönnum, og frv. á þskj. 43, sem borið var fram í Ed. snemma á þinginu, sýnir, að þessa er helst að vænta. Mjer dettur ekki í hug annað en þetta sje meiningin, þó að öðruvísi sje af stað farið. Jeg skal nefna dæmi til stuðnings. Þeir, sem halda því fram, að nú sje stofnaður skóli á Staðarfelli, bera fyrir sig m. a., að áskoranir úr Dalasýslu fari í þá átt. Það er rjett. Hjer er bunki af áskorununi úr flestum hreppum Dalasýslu, og eins og hv. þm. geta sjeð, þá hafa þær farið margra manna á milli. Þessi skjöl bera með sjer, að þau eru samin af sama manni, því að þau eru öll með sömu hendi, nema eitt. Benda allar líkur á, að þessum undirskriftum hafi verið smalað saman. Vitanlega er það ekki Dalasýsla ein, sem hjer á hlut að máli eða nokkurn rjett til sjerstakrar yfirákvörðunar. Eins og sjá má af fjárlögunum, er hið nauðsynlega framlag af ríkisins hálfu til skólans áætlað 7800 kr., og auk þess 15000 kr. ábyrgð á láni til væntanlegrar forstöðukonu skólans, til þess að kaupa áhöfn á jörðina. Nú er það vitanlegt, að hagur ríkissjóðs stendur höllum fæti, og jeg hjelt, að hv. Alþingi væri ennþá sömu skoðunar og hjer virtist ríkjandi í fyrra, að gæta bæri allrar varúðar um framlög úr ríkissjóði og ekki skyldi veita meira fje en óhjákvæmilegt væri. Þó jeg viðurkenni, að slík skólastofnun sem þessi eigi mikinn rjett á sjer, verður líka að líta á hitt, að margt verður að setjast til baka vegna fjárhagsörðugleikanna. Það er með þetta fyrir augum, að jeg snýst á móti þessari fjáreyðslu. Jeg geri það líka í samræmi við vilja alls þorra kjósenda í mínu kjördæmi.

Mjer blandast ekki hugur um, hvert hjer er stefnt. Það er venjulega svo, að þegar búið er að smeygja inn litlafingrinum, þá er hægra að koma þeim næsta, og svo allri hendinni. Meiningin er auðvitað, að þarna skuli kvennaskóli Vesturlands standa. Mjer kemur ekki á óvart, þó að þingið á sínum tíma telji sjer heimilt að taka fje frú Herdísar til þess að blanda því saman við þessa Staðarfellsgjöf, ef gjöf skyldi kalla, því að hjer er miklu fremur um sölu að ræða heldur en gjöf. Jeg á nokkrar jarðir, og sumar góðar. Ef þingið byðist til að taka við jörð, gegn því að tryggja mjer og konu minni lífeyri til dauðadags, þá mundi jeg telja, að jeg hefði sjeð okkur mjög sómasamlega borgið.

Það er eitt, sem forgöngumenn þessa máls hafa ekki gert sjer ljóst: Staðarfell er bygt sýslumanninum í Dalasýslu, og mun eitthvað á þá leið að orði komist, að það sje til lífstíðar, ef landið þurfi ekki á jörðinni að halda.

Jeg er ekki kunnugur afsalsbrjefinu, því að það hefir þótt hlýða að fara heldur dult með það. Öll áherslan hefir verið lögð á það, að dást að þessari höfðinglegu gjöf. Þó hygg jeg, að beint sje tekið fram, að skólinn skuli stofnaður í sambandi við skóla frú Herdísar. En jeg held, að Alþingi hafi ekki átt með að taka við jörðinni með því skilyrði, því að stofnun Herdísarskólans er því algerlega óviðkomandi. Það er skýrt tekið fram, hverjir eigi að ráðstafa þeim sjóði.

Eins og jeg tók fram, býst jeg við, að þessi tillaga mín mæti andstöðu. Að svo komnu œtla jeg ekki að fara frekar inn á einstök atriði, en ef mjer verður andmælt, kemst jeg ekki hjá að skýra nánar frá ýmsum atriðum, er málið snerta. Ef svo er sem mig grunar um byggingu Staðarfells, að ekki sje hægt að vísa núverandi ábúanda burtu, þá er engin vissa fyrir hendi um það, að hann fari sjálfviljugur. Það var sjálfsögð kurteisisskylda forgöngumanna þessa máls að leita hófanna um það, hvort jörðin gæti verið laus í fardögum 1926. Jeg veit ekki til þess, að það hafi verið gert. Það hefir verið unnið að málinu í kyrþey og mest í vetur síðan þing kom saman. Vel hefði þó mátt vera búið að komast eftir, hvort nokkuð væri framgangi málsins til fyrirstöðu.

Jeg verð að segja, að það er nokkurt ósamræmi í framkomu þingsins í þessu máli, eins og víða annarsstaðar. Því er svo varið, að hjer er margur Pjetur og Páll, ef jeg má komast svo að orði, sem eiga styrktarmenn í þinginu til þess að lyfta undir áhugamál sín. Svo eru aðrir, sem ekki njóta slíkra styrktarmanna. Jeg flutti nýlega ásamt hv. 2. þm. Eyf. (BSt) till. um styrk til barnaskólabygginga. Sú till. var feld hjer í þessari hv. deild. Nú verður þessi till. sennilega samþykt, tillaga um skólastofnun, sem kostar í byrjun yfir 7000 kr., og svo væntanlega meira og meira.

Jeg sá í hv. Ed. fyrir skömmu brjef frá Magnúsi nokkrum Kristjánssyni, þar sem hann sækir um styrk handa Sigurborgu Kristjánsdóttur, ráðgerandi að hún verði skólastýra á Staðarfelli. Mjer er meinað að hafa brjefið í höndum, og verð jeg því að fara eftir minni mínu. En það mun hafa verið ákveðið, að hafa þyrfti til að byrja með búskapinn 150 ær, 6 kýr, 6 hesta og 2 báta. Það mun ekki hafa fengist styrkur að þessu sinni, en í stað þess hefir þá komið þessi 15000 67 króna ábyrgð. Svo get jeg vel hugsað mjer, að áður en langur tími líður þyki sjálfsagt að láta ekki skólann vera að burðast með þetta lán. Þar sem þessi fjárveiting er ætluð sjerstakri kvenpersónu, geri jeg ráð fyrir, að þar sje um að ræða mjög svo merka heiðurskonu. En það, sem á móti þessum fríðindum kemur, er þá það, að hún ætlar að kenna 13 stúlkum og gera þær að fyrirmyndar húsfreyjum. Talan 13 hefir nú aldrei verið álitin nein heillatala, en þetta mun skjallega sannanlegt, ef brjefið finst. Jeg býst við, að segja mætti líkt og Grímur Thomsen sagði eitt sinn um kosningu í Borgarfirði: ....' [Vantar í handr.].

Því var stungið að mjer núna, að gert væri ráð. fyrir 12–16 nemendum, og þakka jeg fyrir þá leiðrjettingu.

Jeg býst við, að reynslan sýni, að þessi tillaga Ed. fái að standa í fjárlögunum. Jeg hefi gert skyldu mína og reynt að færa þetta til betri vegar, svo að það er á hinna ábyrgð, hvernig fer. Eins og jeg tók fram, ætla jeg ekki að fara ítarlega inn á málið í þetta sinn, en er reiðubúinn til andsvara, ef þörf gerist.

Þá á jeg hjer aðra till., um að fella niður styrk til fræðslumálarits. Þetta er að vísu lítill liður, en jeg get hugsað mjer, að ef hann nær fram að ganga, þá muni eitthvað svipað sigla í kjölfarið. Jeg játa þó, að það, sem hjer er um að ræða, á miklu frekar rjett á sjer en sumt annað, sem hjer er borið fram, eins og t. d. styrkur til manns nokkurs, sem leyft hefir sjer að óvirða alt, sem heilagt er, bæði á himni og jörðu.