20.04.1925
Efri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

96. mál, hvalveiðar

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Það er auðsjeð, að þetta mál hefir ekki verið athugað mjög grandgæfilega í hv. Nd., það sjer maður á því nál., sem þar hefir komið fram, og eins á því, hvað það hefir gengið fljótt í gegnum þá hv. deild, og það sýnist eiga að verða það sama hjer. Það nál., sem hjer er fram komið, er sannarlega ekki mjög upplýsandi fyrir þá, sem ekki þekkja til málsins. Sem sagt, jeg sje ekki betur, eins og sakir standa, en að málið sje ekki mjög athugað, og því er nú svo komið, að jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hv. frsm. minnihl. (IP), hvort hann ekki vill fresta þeirri till. sinni, að vísa málinu til stjórnarinnar, þannig, að málinu yrði lofað að ganga til 3. umr., svo að þeim mönnum, sem vilja afla sjer betri upplýsinga, gæfist kostur á því, og gætu þeir þá, eftir að hafa athugað málið betur, greitt atkv. um það. En um það, að þeir menn, sem ekki væri stuðningsmenn stjórnarinnar, gæti ekki vísað málum til hennar, er það að segja, að það er auðvitað, að hvernig sem menn standa gagnvart stjórninni, geta menn þó og hljóta að vísa málum til hennar. Jeg vil því greiða atkv. með málinu til 3. umr., en frekara fylgi mínu við málið ræður það, hverra upplýsinga jeg hefi aflað mjer í því, áður en greidd verða atkv. um það endanlega. En jeg vildi skjóta þessu til hv. frsm. minnihl. (IP), vegna þess, að jeg hygg, að það sjeu fleiri, sem munu vera svona á báðum áttum og hafi ekki getað athugað málið nægilega ennþá.