20.04.1925
Efri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2580)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. minnhl. (Ingvar Pálmason):

Jeg ætlaðist ekki til þess, að umr. yrðu mjög langar um þetta mál, og þóttist ekki gefa neina ástæðu til þess. En hv. þm. Vestm. (JJós) hefir fundið ástæðu til þess að nota fyrri ræðu mína til að koma áhugamáli sínu að; hv. þm. (JJós) vildi benda mjer á, að till. mín væri traustsyfirlýsing til stjórnarinnar. Jeg verð að segja það rjett eins og er, að „litlu verður Vöggur feginn“. Jeg sje ekki, að það sje neitt, hvorki traust nje vantraust, þó að málinu sje vísað til stjórnarinnar, og þó að jeg beri ekki mikið traust til núverandi stjórnar, álít jeg þó, að hún muni gegna almennum stjórnarstörfum, svo að sæmilegt sje, og held jeg, að hvernig sem menn eru í flokk settir, verði menn að gera það. Jeg sje því ekki, að hv. sessunautur minn (JJós) hafi neina ástæðu til að blanda þessu inn í málið, það gerir hvorki að flýta fyrir nje bæta skilning manna á því. Þá mintist hv. þm. (JJós) líka á það, að jeg væri í andstöðu við flokksbræður mína í hv. Nd. Já, það er rjett. En jeg lít líka svo á, að þetta eigi ekki að vera neitt flokksmál. En vera má, að hv. sessunautur minn (JJós) vilji gera það að flokksmáli.

Jeg kemst því miður ekki hjá að svara einstökum atriðum, sem liggja fyrir utan málefnið. Hvað það snertir, að þetta mál hafi verið og geti verið notað sem æsingamál, þá held jeg samt, að best sje að losna við allar æsingar út af því og hv. þm. eigi að ræða það með stillingu, en ekki að fara að valdbjóða eitthvað og segja: gerið þið svo vel, þetta verðið þið að hafa. Ef það er rjett hjá mjer, að meirihluti kjósenda sje óánægður með, að þetta frv. nái fram að ganga, þá er það áreiðanlega ekki besta leiðin að gera frv. að lögum, fleygja því í þá og segja: þetta verðið þið að hafa. Nei, jeg held, að flestir kjósendur sjeu ánægðir með þau lög, sem nú gilda, og mjer er ekki kunnugt um, að neinar raddir hafi komið fram um að breyta þeim lögum, sem samþ. voru á síðasta þingi. Þessvegna segi jeg, að ef einhver æsing verður út af þessu máli, þá er það ekki mjer að kenna eða þeim mönnum, sem vilja láta málið hafa sem rólegasta afgreiðslu í þinginu. Nei, við skulum ekki tala um æsingar, því að jeg held, að það gæti átt við hjer, sem oft hefir verið sagt, að þær væru aðeins öðrumegin; við skulum ekki láta þær verða báðumegin.

Þá mintist hv. þm. (JJós) á leppmensku, sem jeg að vísu gaf tilefni til, og sagði mig mótfallinn því, að útlent fje væri notað til slíkrar starfrækslu. Jeg er alls ekki mótfallinn því, að fje sje tekið að láni hjá útlendingum, en jeg er mótfallinn því, að útlendingar eigi fje í íslenskum fyrirtækjum og að arðurinn fari nær allur til þeirra. Því að jeg hygg, að útlendingar muni ekki vilja leggja til fje sitt fyrir sem næst einfalda bankavexti. Nei, jeg hygg, að það liggi oftast á bak við, að þeir vilji ná hagnaðinum af fyrirtækinu í sinn vasa. Svo er enn eitt atriði í þessu máli, það er atvinnan. Það verður mikil aukning við þá atvinnu, sem fyrir er í landinu, og jeg sje ekki neina ástæðu til með nýjum lagaboðum að gefa knýjandi ástæðu fyrir því, að leyfður verði innflutningur útlendra verkamanna. Þá mintist hv. þm. (JJós) lítillega á það, sem jeg drap á, brjefið frá stjórn Fiskifjelags Íslands, og benti á, að það væri mikið varið í það, að hún hefði sjerfræðing við hlið sjer. Já, jeg hefi áður vikið að þessu. En hitt fullyrði jeg, að stjórn fjelagsins skortir algerlega heimild til að koma fram fyrir hönd alls fjelagsins í þessu efni. Þá gróf hv. þm.

(JJós) upp umsögn skipstjóra eins frá árinu 1886, Hammer að nafni. En hverskonar maður var það? Mig minnir, að hann hefði verið skipstjóri á útlendu hvalveiðaskipi, svo að það er ekki mikil sönnun í þessu máli. Þá sagði hv. þm. (JJós), að það væri engin ástæða til að halda fram þeirri trú, sem menn hefðu á móti hvalveiðum, því að vísindin segðu alt annað. En mjer nægir að benda á það, að það er oft töluvert erfitt að aðgreina vísindi og trú, að minsta kosti vill það oft verða svo, á meðan þau eru ekki langt á veg komin, að þau byggjast talsvert á trú. Sem sagt, jeg sje ekki neina ástæðu til að fara frekar út í síðustu ræðu hv. frsm. meirihl. (JJós), því að þar kom ekki neitt fram, er geti haft nein veruleg áhrif á afstöðu hv. þm. til málsins.

Þá mæltist hv. 1. landsk. (SE) til þess, að jeg tæki till. mína, um að vísa málinu til stjórnarinnar, aftur til 3. umr. Jeg get ekki orðið við þeim tilmælum, af því að jeg lít svo á, að það eigi ekki að afgreiða málið út úr þinginu að þessu sinni, og hversvegna á þá að fresta atkvgr. um hana til 3. umr.? Jeg tel ekki rjett að gera það, því að ef hún ekki nær fram að ganga, þá fer frv. til 3. umr., en nái hún aftur á móti samþykki hv. deildar nú þegar, þá tel jeg það best svo, því að jeg sje ekkert við þetta mál unnið, annað en að eyða tíma og fje í það að ástæðulausu.