14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Sigurjón Jónsson:

Hv. flm. frv., þm. Str. (TrÞ), hefir lýst svo tilgangi þessa frv., að það væri fram komið til þess eins, að sporna við því, að þessi slæma veiki á búfje bærist hingað til landsins, og vona jeg, að sá sje tilgangurinn aðeins, eins og hann hefir skýrt frá. En í þessari hv. deild hefir áður komið fram tillaga um að leggja tolla á erlent hey, til þess að vernda heysölu bænda til sjávarþorpanna. Jeg vona þó, að hitt sje aðeins tilgangurinn nú, að verjast þessari veiki, en jeg vil skjóta því til þeirrar nefndar, sem þetta mál fær til athugunar, að ekki getur komið til mála að banna heyinnflutning frá þeim löndum, sem heilbrigð eru í þessu tilliti, svo sem t. d. Noregi, en þaðan er nú aðallega flutt inn hey hingað til lands. Jeg skýt því til væntanlegrar nefndar, að taka það til athugunar, hvort ekki sje rjett að heimila frjálsan innflutning á heyi frá þeim löndum, sem dýralæknar upplýsa, að veikin sje ekki til í. Jeg vænti því, að nefndin athugi það, hvort ekki væri rjettara að hafa heyinnflutninginn alfrjálsan frá þeim löndum, sem veikin er ekki til í.