02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Tryggvi Þórhallsson:

Það er rjett hjá hv. frsm. (PÞ), að þetta mál ætti ekki að þurfa langar umræður. Það er aðallega eitt atriði úr ræðu hans, sem jeg þarf að minnast á. Mjer virðist alls ekki um það að ræða, að jeg hafi annað eftir dýralækninum en nefndin. Mjer skilst, að hann hafi sagt báðum það sama, að hey gæti smitað. Það, sem ber á milli, er, hvaða ályktun skuli dregin af ummælum dýralæknisins. Hv. frsm. (PÞ) vildi engan dóm á það leggja, hvort heyið væri hættulegast eða annað. Það virðist þó liggja í augum uppi, að í því muni mest hætta fólgin, þar sem það kemur fyrir vitin á nautgripunum, en mjólkin ekki eða hálmurinn. Þá sagði hann, að ástæða væri til þess að gera ráðstafanir, ef sjúkdómurinn tæki að geisa. Hjer þarf ekkert ef, því að sjúkdómurinn geisar nú þegar ytra. Fyrir tveimur árum var gerður stórfeldur niðurskurður í Skotlandi vegna klaufsýki, og hún er þar enn.