24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg veit ekki nema það sje of mikil harðneskja af mjer að fara nú að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) rjett ofan í kollega minn. En fyrst svo verður samt að vera, mun jeg reyna að vera mildur við hann, því að hann á nú lítinn kost andsvara, þar sem hann er búinn að tala tvisvar.

Um stórgróðafjelögin ætla jeg ekki að ræða nú. samkvæmt þeirri reglu, sem jeg hefi áður sagt, að jeg hafi sett mjer. Það mál verður sjálft hjer til umr. væntanlega innan fárra daga, og þá ætla jeg að leyfa mjer að sýna bæði hv. þm. (JBald) og öðrum fram á það með órækum rökum, að það, sem farið er fram á í stjfrv., er ekki annað en það að bæta að litlu leyti úr þeim órjetti, sem það fjelag verður fyrir, sem hefir misjafna afkomu ár frá ári, miðað við annað fjelag, sem hefir jafna afkomu ár frá ári, þótt bæði fjelögin hafi sömu niðurstöðu um tiltekið árabil. Jeg held, að engum geti fundist það sanngjarnt, að af tveim fjelögum, sem hafa sama arð yfir 10 ára bil, borgi annað miklu hærri skatt af því að afkoman hefir verið misjöfn ár frá ári, og það jafnvel tapað sum árin, en hitt greiði lægri skatt af því að arðurinn var jafn öll árin.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) var að tala um, að jeg hefði gripið fram fyrir hendurnar á bæjarstjórn Reykjavíkur um útsvarsálagningar. Þetta er tómur hugaburður. Bæjarstjórnin hefir þurft leyfi landsstjórnarinnar til þess að leggja á há útsvör, en hún hefir fengið það, sem hún hefir farið fram á. Hitt getur vel verið, að eitthvert umtal hafi orðið milli gengisnefndarinnar og borgarstjórans viðvíkjandi þessari útsvarsálagning, eða rjettara sagt hinni fyrirhuguðu óvanalegu útsvarshækkun, en landsstjórnin hefir ekkert annað gert en að leyfa það, sem bæjarstjórnin, eftir að hafa íhugað ítarlega alla málavexti, fór fram á.

Þá mintist hv. þm. (JBald) á hagstofuna og tók upp þykkjuna fyrir flokksbróður sinn, sem í 7 ár hefir þar hafi veiting fyrir starfi, sem hann aldrei hefir að komið. Jeg skýrði frá því, að jeg hefði sett honum tvo kosti, annan þann að láta af starfinu eða taka þegar við því, og þessa ákvörðun heimtaði jeg, að hann tæki með stuttum fyrirvara, viku eða svo. Má vel vera, að jeg hafi síðan ekki haft fult leyfi hans til þess að leysa hann frá starfinu, enda þóttist jeg þess ekki við þurfa. En jeg þóttist ekki verða annars var, er tali okkar sleit, en að hann væri ánægður með þá ákvörðun, sem tekin var. Jeg sagði honum hreinskilnislega, að jeg gæti ekki haldið stöðunni opinni í 6–8 mánuði, því að þá yrði of seint fyrir mig að gera þessa ráðstöfun, seni jeg hafði með höndum til þess að kippa í lag störfunum í hagstofunni. Jeg sagði honum, að jeg hefði enga trú á því, þó að hann ljeti af starfi sínu við landsverslun, að hann mundi lúta að jafnlágt launaðri stöðu. Hann mundi eiga betri úrkost en að setjast við 3500 kr. laun. Fanst mjer hann líta eins á þetta mál.

Viðvíkjandi búnaðarlánadeildinni endurtók hv. þm. það, að ef þing hefði verið haldið aðeins annaðhvert ár, mundi jeg ekki hafa látið búnaðarlánadeildina taka til starfa fyr en ári síðar. Jeg ætla að segja hv. þm., að íslensk tunga, sem er flestum tungum fremri, hefir eitt stutt og laggott orð yfir alt, sem hann sagði. Það er orðið getsakir. Hv. þm. getur sjer til og gerir úr því sakir. En getsakir hitta aldrei þann, sem þeim er stefnt að, heldur þann, sem býr þær til. Hv. þm. býr sakir á hendur sjálfum sjer, en ekki öðrum. Þá sagði hv. þm. viðvíkjandi hækkun krónunnar, að jeg hefði skotið mjer á bak við gengisnefndina, og jeg gæti ekki skotið mjer undan ábyrgð, nema bregða gengisnefndinni fyrir mig. Jeg verð að reyna að koma hv. þm. í skilning um, að gengisskráningunni, sem með lögum er falin gengisnefndinni, er ekki hægt að skjóta til æðra valds. Hv. þm. hefði eins getað sagt, að jeg hefði skotið mjer á bak skattanefnd Eyjafjarðarsýslu, þegar jeg sagði, að hún ætti hæsta úrskurðarvald um skattálagningu þar. Nefndin framkvæmir skráninguna fullkomlega upp á sína ábyrgð. Það, sem lögin ætla fjármálaráðuneytinu, er alt annað en gengisskráningin. Jeg endurtek það, að jeg tel mjer og hverri stjórn skylt að gera þær ráðstafanir, sem framkvæmanlegar eru til þess, að það gengi haldist, sem nefndin ákveður. En hún hefir æðsta vald í því efni. En framkvæmd á ákvæðum hennar er auðvitað þeim skilyrðum bundin, að hægt sje að halda uppi því gengi, sem hún ákveður. Annars rekur hún sig á.

Um tekjuskatt Krossanesverksmiðjunnar skal jeg bæta því við, að jeg veit ekki til þess, að verksmiðjan í sambandi við það mál hafi brotið nein lög. Það er ekki talið lagabrot hjer á landi, þó að menn telji ekki fram tekjur sínar. Það er ætlast til, að undirskattanefnd geri svo hátt gjald, að ríkissjóður bíði ekki halla af, þó að ekki sje talið fram.