02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Halldór Stefánsson:

Jeg held, að ekki beri hjer eins mikið á milli og lítur út fyrir. Það er helst í því fólgið, að mismunandi skilningur er lagður í álit dýralæknis. Jeg legg þann skilning í álit hans, að hann telji ekki hægt að ábyrgjast, nema hjer kunni að vera hætta á ferðum, en sú hætta sje ekki meiri að því er snertir hey, heldur en sumar aðrar vörur, t. d. brúkaða poka og ýmsar tegundir umbúða, fóðurblöndur o. fl. Við vitum, að dýralæknirinn hefir verið allra manna strangastur um að banna innflutning þess, sem hætta gat af stafað, svo að mörgum hefir þótt nóg um, og mintist hv. þm. Str. (TrÞ) á innflutning lifandi fjár í því sambandi. Mjer finst ekki ástæða til þess að ámæla okkur, sem enga sjerþekkingu höfum á þessum hlutum, þó að við treystum áliti dýralæknis, sem kunnur er að því að vilja banna innflutning þess, sem hætta gæti stafað af. Við byggjum líka á reynslunni. Hey hefir verið flutt inn óhindrað undanfarið, og engin sýki með því borist. Það er hvorki sannað, að sýkin geti borist með heyi, nje að skilyrði sjeu fyrir hana hjer. Yfirleitt ber hjer lítið á milli. Við viljum, að þessu sje frestað um eitt ár og jafnframt athugað, hvort ekki gæti verið um fleiri vörutegundir að ræða, sem ástæða væri til þess að banna innflutning á. Við sjáum ekki ástæðu til þess, að taka eina þessara vörutegunda út úr, ef um margar er að ræða, sem hætta gæti stafað af. Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er alveg ófullnægjandi, ef taka á tillit til álits dýralæknis.