02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Bjarni Jónsson:

Það má sýnast undarlegt að flytja hey til Íslands. Jeg veit ekki annað en þetta land sje svo grasgefið, að hjer ætti að vera nóg hey, þó að fleiri skepnur væri. En þetta er víst ekki af þeim toga spunnið, heldur af því, að þeir, sem við sjávarsíðuna búa, eiga auðveldara með að fá útlent hey en innlent, vegna þess, hve samgöngur innanlands eru illar. Munurinn liggur í þessu, þó að undarlegt sje, að flutningur innanlands er dýrari. Jeg held, að rjett væri, að þeir, sem búnaðarmálin hafa með höndum, reyndu að auðvelda þennan flutning svo, að þeir, sem kaupa þurfa hey, gætu fengið það áhættulaust.

Það er auðsjáanlega þjóðaróhagur að gjalda fje út úr landinu fyrir vörur, sem hægt er að fá innanlands. Það er nóg af vörum, sem þarf að flytja að, þó að þær gangi frá, sem hjer má framleiða gnægð af, svo sem hey og mjólk.

Auðvitað er hart að banna mönnum að flytja inn hey, þegar það fæst með betri kjörum en innanlands, því að mikið getur legið við, og það er því aðeins geranda, að eitthvað sje gert til þess að auðvelda flutninga innanlands. Það sjest af áliti dýralæknis, að innflutningur á heyi getur verið hættulegur, vegna sjúkdóma, sem flytjast kynnu. Klaufasýki er t. d. mjög háskaleg veiki. Jeg get því ekki annað en lagt þessi óþægindi á þá, sem við sjávarsíðuna búa, til þess að firra almenning hættu. Fjárkláðinn stafaði af innflutningi kvikfjár frá öðrum löndum, sem gerður var í góðu skyni og af þeirri speki, að allir aðrir kynnu betur að búa á Íslandi en þeir, sem hafa búið hjer í 1000 ár. Jeg vil spyrja hv. landbn., af hverju hún fer ekki eftir tillögum dýralæknis, þar sem hann hefir lagaskyldu til að aðgæta þetta, og ætti það nú þegar að vera sett í lög. Jeg vil því fara að eins og dýralæknirinn hefir lagt til, að samþykkja frv. við þessa umr. og breyta því síðan í hitt horfið undir 3. umr. Þá er enginn skaði orðinn og ekkert bráðabann við að flytja inn hey, ef sannanir eru fyrir því, að það komi ekki frá löndum, sem hafa þessa sýki. Frá Noregi mundi vera óhætt að flytja það, en aftur á móti er gin- og klaufasýki landlæg bæði í Danmörku og Skotlandi. Þaðan mætti því aldrei flytja inn hey, og væri slíkt eftirlit, að ætíð þyrfti að sýna stjórninni, hvaðan ætti að kaupa heyið, mætti hafa eftirlit, án þess að gera nokkur óþægindi. Með þessu móti mætti forðast hættuna, án þess að banna mönnum þessi nauðsynjakaup. Jeg mun því greiða frv. mitt atkv. til næstu umr., í von um, að þá komi hv. nefnd með brtt. eftir tillögum dýralæknis og þetta geti orðið að lögum á þessu þingi.