07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Jakob Möller:

Það er alveg auðsætt, að hjer er verið að reyna að nota að einhverju leyti óttann við þessa munn- og klaufasýki til þess að koma á aðflutningsbanni á heyi. Jeg veit, að þessi sýki gengur í Danmörku, en hinsvegar veit jeg ekki til þess, að það tíðkist, að flytja hingað hey frá Danmörku, nema þá hverfandi lítið. Það kann einnig að hafa komið fyrir, að hey hafi verið flutt hingað frá Skotlandi. Þó hygg jeg, að það hafi eingöngu verið gert í sambandi við útflutning hrossa, til fóðurs handa þeim milli landa, og það hey sje aldrei sett á land hjer.

En ef á að banna innflutning á heyi frá hvaða landi sem er, undir þessu yfirskini, þá er það tóm blekking, að tala hjer um land, sem enginn heyinnflutningur er frá. Hey er flutt hingað aðallega frá Noregi, en þar er þessi sýki ekki til, og því engin ástæða til þess að banna heyflutning þaðan, a. m. k. ekki á þessum grundvelli. Jeg bið hv. þdm. að athuga það vel, að þetta frv. kemur fram upp úr því, að það var felt hjer í deildinni að setja hey í vörutoll, svo þungan, að hann mundi hafa valdið svo mikilli verðhækkun á heyi, að hann hefði — að viðbættum verðtolli, sem þá hefði einnig lagst á — þegar verkað sem aðflutningsbann. Þessi saga málsins er mjög eftirtektarverð. Ef frv. hefði komið fram að ógefnu tilefni að þessu leyti, þá mundi jeg hafa skoðað hug minn um það, hvernig jeg ætti á það að líta. En nú er jeg ekki í neinum vafa um það, að deildin á að fella málið. Mjer hefði þótt fyllilega nógu vel um hnútana búið hjer, að heimila stjórninni að banna, eftir till. dýralæknis, innflutning á heyi frá þeim löndum, sem þessi umrædda sýkingarhætta getur stafað frá. Það mundi stjórnin geta, þó að hún notaði ekki lögin frá 18. maí 1920. En jeg held nú jafnvel, að hún muni geta notað þessi lög um almenna sýkingarhættu til þess að banna innflutning á heyi. Sýkingarhætta fyrir búfje er engu síður alvarleg en sýkingarhætta fyrir menn. Auk þess er það rjett, að menn geta fengið, þó ekki sje klaufasýki, þá þessa munnsýki, þannig, að jafnhliða þeim faraldri í búfje eru jafnan einhver tilfelli á mönnum. Sem sagt, jeg legg hina mestu áherslu á það, að þar sem hey er flutt hingað aðallega frá Noregi, þá sje engin ástæða til þess að banna innflutning á heyi þaðan á þessum grundvelli, þar sem munn- og klaufasýkin er ekki þar í landi.