14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (2630)

41. mál, vegalög Borgrnes og Eyjafjarðarbrautir

Bernharð Stefánsson:

Þó að mjer þyki það leitt, þá get jeg ekki tjáð hv. nefnd neinar þakkir fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál.

Mjer skilst það að vísu, að nefndin gat með engu móti mælt með öllum þeim vegalagafrv., sem fram eru komin. En þá var að mæla með þeim frv., sem eru rjettmæt, eins og mitt frv. er, en leggja á móti hinum. Hitt sje jeg ekki, að rjett sje að vísa rjettmætum kröfum á bug, af því að aðrar órjettmætar eru bornar fram. Hefði hv. nefnd átt að reyna a. m. k. að gera einhvern greinarmun á rjettu og röngu.

Mjer finst, að hv. nefnd hefði átt að mæla með jafnsjálfsagðri kröfu og þeirri, að Eyjafjarðarbrautin yrði tekin í tölu þjóðvega. Jeg verð að líta svo á, að Alþingi 1923 hafi gefið loforð um, að allar flutningabrautir skyldu teknar í tölu þjóðvega. Með vegalögunum frá í fyrra var svo þetta loforð efnt, nema hvað Eyjafjarðarbrautin og partur af Borgarfjarðarbrautinni voru settar hjá. Hefði raunar verið sjálfsagt að bæta úr þessu nú.

Vegalagafrv. þau, sem hjer hafa verið borin fram, hafa flest farið fram á það, að gera sýsluvegi að þjóðvegum. Hefði jeg með alveg eins miklum rjetti getað gert slíkar kröfur fyrir mitt kjördæmi, t. d. hvað snertir veginn frá Dalvík að vegamótunum. En jeg hefi ekki farið fram á neitt þessháttar, heldur aðeins, að Eyjafjarðarsýsla nyti jafnrjettis við aðrar sýslur um flutningabrautir.

Því er haldið fram í nál., að Eyjafjarðarbrautin sje innanhjeraðsbraut. En þó svo kunni að vera, þá hefi jeg sýnt fram á það áður, að svo er einnig um ýmsar aðrar brautir sem gerðar voru að þjóðvegum í fyrra, t. d. Skagafjarðar- og Hvammstangabrautir. Ef hv. nefnd hefði verið alvara með að gæta samræmis í þessu efni, þá hefði hún annaðhvort átt að leggja til, að þessar brautir yrðu teknar úr tölu þjóðvega, eða þá að mæla með því, að Eyjafjarðar- og Borgarfjarðarbrautirnar væru gerðar að þjóðvegum, eins og hinar. Annað er ósamræmi.

Þá eru ummæli vegamálastjóra, sem hv. nefnd byggir álit sitt á. Hann heldur því fram, að þessi tvö hjeruð, Eyjafjörður og Borgarfjörður, hafi ekki orðið fyrir neinu misrjetti í fyrra, og bendir í því sambandi á, að Hvítárbrautin hafi þá verið tekin í þjóðvegatölu. Já, það er nú skárri rjettarbótin hvað Eyfirðinga snertir!

Mjer finst satt að segja, að Eyfirðingar hafi ekki borið svo ríflegan hlut frá borði hingað til, með styrk úr ríkissjóði til vega, að ástæða hafi verið til að setja þá hjá þess vegna.

Það liggur að vísu þjóðvegur þvert yfir sýsluna, en sá vegur er þó ekki langur. það var byrjað á að byggja þann veg fyrir rúmum 20 árum, en því verki hefir þokað fremur hægt; af honum er ekki akbraut nema um 15 km. enn.

Enda þótt jeg hafi bæði áður og nú sýnt fram á rjettmæti þessa máls, þá þykist jeg þó sjá, til hvers muni draga um forlög þess nú. Það mun eiga að fara í sömu gröfina og hin frv. Jafnvel hv. sessunautur minn (PÞ), sem var meðflm. þessa frv., leggur nú á móti því, ásamt öðrum hv. nefndarmönnum. Jeg mun því taka þann kost, að taka frv. aftur.