14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

52. mál, vegalög Landbraut og Fljótshlíðarvegur

Klemens Jónsson:

Jeg get að miklu leyti borið sömu ástæður fram fyrir þessu frv. mínu á þskj. 57 og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) fyrir sínu. Jeg sá, að hjer voru fram borin nokkur frv., sem fóru fram á það, að gera fjölfarna innansveitarvegi að þjóðvegum. Jeg bjóst við, að sú alda væri að vakna hjer í deildinni, að koma þessu í framkvæmd. Og ekki var hvað síst ástæða til, að svo yrði gert við vegi þá, sem um ræðir í frv. mínu, þar sem þeir eru flestum öðrum fjölfarnari hjer á landi.

En er til samgmn. kom, varð það þegar ljóst, að ekki var hægt að taka alla þessa vegi upp í tölu þjóðvega, og það því síður, er augljóst þótti, að fleiri kæmu á eftir.

Lög um þetta efni hefðu ekki getað orðið annað en pappírsgagn, því augljóst þótti, að ríkissjóður gæti ekki reist rönd við þeim kostnaði, er af þessu leiddi á næstu áratugum. Það er óhætt að fullyrða.

Af þessum ástæðum fanst mjer, eins og öðrum nefndarmönnum, rjettast, að láta öll frv., er gengu í þessa átt, fara í sömu gröfina. Jeg átti fyrir mitt leyti hægt með þetta, þar sem af Rangárvallasýslu hefir nýlega verið ljett miklum kostnaði af viðhaldi Holtavegarins, og vegna þess, að jeg hefi nýlega frjett, að stjórnarráðið hafi staðfest samþykt þaðan um sýsluvegasjóð, og getur þá fengist lögmæltur styrkur úr ríkissjóði.

Jeg vona, að hv. deild kunni að meta það, að hjer hefir engin hreppapólitík komið til greina hjá okkur nefndarmönnum, þótt við bærum fram 4 frv. um þetta efni, höfum við allir — af þeim ástæðum, er jeg hefi þegar greint frá — sætt okkur við að horfa á eftir þessum afkvæmum okkar niður í gröfina. Menn munu þegar hafa skilið á orðum mínum, að jeg tek frv. aftur.