23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

58. mál, vegalög Skeiðabraut

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Við flm. þessa frv. mundum ekki hafa komið fram með það á þessu þingi, ef ekki væru fleiri slík á ferðinni. En þessi vegur er vafalaust fjölfarnastur þeirra vega, sem á þessu þingi er farið fram á, að teknir verði í tölu þjóðvega. Þrjár sveitir nota veginn, auk allra þeirra ferðamanna, sem fara til Gullfoss og Geysis og inn í Þjórsárdal.

Þar sem þessi vegur er svona fjölfarinn, virðist sanngjarnt, ef ljetta á að miklu leyti vegaviðhaldi af sýslunum, að hann fylgist með.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., en legg til, að því verði vísað til samgöngumálanefndar.