26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Það er talin lögskylda hjá öllum siðuðum þjóðum, að aðstoða löggæslumenn við framkvæmd embættisstarfa þeirra, meira eða minna berlega lögmælt borgaraskylda. Tilfinningin um þessa borgaraskyldu er ekki jafnrík hjá þjóðunum. Það hefir jafnan verið talið svo, að hún væri einna ríkust hjá Bretum, Engilsöxum, en síður hjá Norðurlandabúum. En skylduna hygg jeg samt, að flestir viðurkenni.

Á þessari almennu skyldu byggir þetta frumvarp. Er hjer gerð tilraun að koma því skipulagi á, að efla og styrkja löggæsluna í landinu, sem er og hefir verið alla daga næsta ónóg.

Jeg skal að upphafi viðurkenna það, að það skipulag, er frumvarpið hefir fyrir augum, er ekki að öllu sanngjarnt. Það er nefnilega farið fram á það, að úr hópi margra manna megi kveðja tiltölulega fáa til þess að inna af hendi skyldu, endurgjaldslaust, sem í rauninni hvílir á öllum.

Til skýringar því, hvernig ráðuneytið hefir hugsað sjer framkvæmdina eftir þessu frv., ef að lögum yrði, skal jeg taka fram það, sem hjer segir, og hefi jeg þá Reykjavík fyrir augum.

Jeg geri ráð fyrir því, að kvaddir yrðu 100 eða innan við 100 manns til þess að ganga í liðið, og þeir æfðir í því, sem lögregluþjónar þurfa einkum að temja sjer, og kent það, sem þeim er ómissandi að vita. Það er auðvitað, að hjer getur ekki verið að tala um mikinn lærdóm, ekki um skólagang, eins og lögregluþjónar erlendis fá, í sjerstökum skólum fyrir þá.

Forstöðumaðurinn þyrfti að kynna sjer þetta erlendis og kenna síðan frá sjer. Auðvitað tæki þetta nokkurn tíma frá þeim, sem til væru kvaddir í fyrstu, en síðan varla sem teljandi sje. Það er auðvitað, að ekki má búast við, að allir þeir, sem kvaddir verði, yrðu til taks í einu, er á þyrfti að halda. Það má búast við vanhöldum. Kostnaður yrði nokkur við þetta fyrir ríkissjóð. Varalögreglumenn þyrftu helst að vera, að minni hyggju, að öllu svo út búnir sem hinir föstu löggæslumenn bæjarins; þó má vera, að einkennisbúningur þyrfti ekki að vera alveg eins. Hvað sá útbúningur myndi kosta, get jeg ekki sagt, en til þess að segja ekki of litið, mætti nefna 20–25 þús. krónur. Húsrúm þyrfti, til þess, að varalögregluliðið kæmi saman í til æfinga. Árlegan kostnað vil jeg áætla 8–10 þús. kr., og tel vel í lagt. Þegar litið er á, að bæjarsjóður Reykjavíkur leggur fram undir 100 þús. kr. til löggæslunnar í bænum, þá ætti það ekki að vera of mikið til mælst, að ríkissjóður legði til svo sem jeg nú hefi sagt.

Eins og jeg tók fram áðan, er sá hængur á þessu, að hin almenna skylda er lögð á fáa endurgjaldslaust, en jeg hefi þá trú, að auðið myndi að fá nógu marga hæfa menn til að ganga nauðungarlaust undir slíka lögskyldu.

En þegar til þessa liðs þarf að taka, af því að lögreglustjóri telur hina föstu löggæslumenn ekki einhlíta, hvað þá? Því á ekki að verða örðugt að svara. Þar virðist mjer frumvarpið skera glögglega úr. Þegar lögreglustjóri telur sig þurfa aðstoðar varalögreglu við, þá fer hann til forstöðumanns liðsins og segir til, hvers hann óskar. Það er lögreglustjóri og hann einn, sem ræður því, hvort varalögregla verður notuð eða ekki, hvar og að hve miklu leyti. Með öðrum orðum, löggæslumönnum bæjarins fjölgar í bili, eftir því sem lögreglustjóra þykir við þurfa, innan takmarka tölu tilkvaddra varalögreglumanna. Lögreglumenn gætu þá orðið t. a. m. eftir því, sem jeg hefi hugsað mjer þetta, 70–90 manns í stað 12–15 venjulega. En hver ætti svo að stjórna þessu sameinaða lögregluliði ? Þar um segir frv. ekkert. Það mætti hafa það með ýmsu móti. Það gæti verið látið á vald lögreglustjóra, að ákveða þetta. Það mætti kveða á um þetta í lögunum sjálfum, eða í tilskipun. En það hygg jeg, að alt lögregluliðið ætti að vera undir einni yfirstjórn, og það eitt er fyllilega samræmilegt frumvarpinu, þar sem ætlast er til, að varalögregluliðið sje til vara, til aðstoðar hinu fasta lögregluliði, til viðbótar því.

Það hefir mikið verið talað um ríkislögreglu út af þessu frumvarpi. Mjer er að vísu ekki vel ljóst, hvað meint er með ríkislögreglu í umræðunum um það mál hjer. Jeg gæti trúað því, að það væri eitthvað svipað ríkislögreglu Dana, sem um ræðir í lögum Dana nr. 364 frá 30. júní 1919, og lögum nr. 365 frá sama degi.

Ríkislögreglan er skipuð föstum starfsmönnum einum saman, og hún er ekki bundin við ákveðið bæjarfjelag, hennar umdæmi er alt landið. Hún á sjerstaklega að rannsaka um framda glæpi og rekja feril lögbrjóta. Ennfremur á hún að gæta laga um aðkomumenn og ferðamenn, og loks aðstoða bæjar- og sveitar-lögreglumenn, ef með þarf, til þess að gæta öryggis, friðar og reglu. Hjer mundu bannlögin talin með. Ef sett væri á stofn slík ríkislögregla hjá oss, þá væri sneitt fyrir þann ágalla, sem jeg viðurkenni að sje á frv., en um það þýðir alls ekki að tala. Kostnaðurinn við það yrði alt of mikill.

Jeg vona, að hv. þingdeildarmönnum hafi skilist það, að aðalatriðið í þessu máli er fyrir mjer það eitt, að lögreglumönnum verði fjölgað svo hjer í bænum, að friður og regla verði trygð sem best, og að það verði gert á þann hátt, að ríkissjóði verði ekki ofþyngt.

Jeg hefi talað einungis um Reykjavík, því að auðvitað er aðstaðan hjer alt önnur en annarsstaðar, í höfuðstað landsins, með yfir 20.000 íbúa. Það má vel vera, að nauðsynin sje ekki mjög rík í öðrum kaupstöðum landsins. Þó hygg jeg, að einhverja varalögreglu eða aðstoðarlögreglu þurfi á Siglufirði.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um málið að sinni, en vil leyfa mjer að vísa til greinargerðar frumvarpsins og æskja þess, að því, að lokinni umræðu, verði vísað til hv. allsherjarnefndar.