26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Það er dálítið örðugt að tala við hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um þetta mál. Þeir hafa skapað inn í frv. alt annað en í því felst. Báðir tala þeir um her, sem vitanlega hvergi nokkursstaðar kemur nærri þessu frv., og ekki er heldur talað um vopnaða lögreglu í frv. Jeg verð að segja, að það hafa orðið mjer dálítil vonbrigði, hvernig aðstaða þessara hv. þm. er, sem jeg þó vissi, að voru móti málinu. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði þó mjög hógværlega og ekki með neinum ósköpum, þar sem hv. þm. Str. hefir látið mjög óðslega. Get jeg því rætt rólega við hv. 2. þm. Reykv., en jeg er í hreinustu vandræðum, hvernig jeg á að svara bændafulltrúanum. Hann var að tala um barnaskapinn í því, að fara á stað með þetta mál; en jeg ætla ekki á þessu stigi málsins að deila um einstök atriði frv. sjálfs, tel ekki ástæðu til þess við 1. umr. Má vera, að breyta megi því á einhvern hátt, og má semja um það við hv. nefnd. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli — og það vil jeg segja skýrt — er ekkert annað en að gera tilraun til þess að gera lögregluna öflugri í kaupstöðunum, sjerstaklega Reykjavík. Jeg skal ekki segja, hvort tilraunin á þennan hátt er hönduleg eða ekki; þar um má auðvitað deila. Ekki skal jeg heldur um segja, hvort þessi heimild, sem stjórnin fengi, væri of víð eða ekki. Ef þinginu sýndist svo, má takmarka hana. Það er þessvegna ekki svo mjög frv., sem um er að ræða, heldur það atriði, hvort löggæslan er nógu sterk, eða hvort þurfi að auka hana. Hv. þm. Str. hefir sjálfur sannað, í vel skrifaðri grein, að lögreglan sje ónóg. Að vísu var greinin líka árás á stjórnina, en greinin var svo skynsamlega rituð, að þessu leyti, og árásin heldur ekki eins óskapleg og annars er vant. Hann sagði meðal annars, að ótækt væri, að láta lögregluna bíða eftir því, að safnað sje liði meðal borgaranna, ef eitthvað ber snögglega að höndum. Þetta er rjett. Þetta vildum við komast fyrir, með því að stofna reglulega lögregluþjónasveit, til þess að vera til vara, og ekkert annað. Þetta er aðalatriði frv.

Hv. þm. sagði, að reyna ætti að fyrirbyggja, að þetta yrði álitið pólitískt. Nú er vitanlegt, að þetta er ekki strax komið í framkvæmd, og þessi stjórn getur alls ekki vitað, hvort hún er að búa í hendur á sjálfri sjer eða einhverri annari stjórn. Svo það væri óviturlegt af stjórninni, ef hún hjeldi, að hún gerði þetta til að hlúa að sjálfri sjer. Vitanlega er óvíst, hvernig núverandi stjórn fer með þetta mál, þegar til framkvæmda kemur. Jeg vil minna á það, að notkun liðsins er ekki lögð undir stjórnina; stjórnin kemur ekkert þar nærri og hefir ekkert að segja í því, hvort liðið er notað eða ekki. Það er lögreglustjóri, sem ákveður það á embættisábyrgð.

Jeg veit ekki, hversvegna hv. þm. Str. (TrÞ) var svo æstur í málinu; ef til vill vegna þess, að hann var því talsvert fylgjandi í fyrra; og í slíkum kringumstæðum þurfa menn að æpa hátt, til þess að menn taki ekki eftir því, sem á undan er komið. Er það svipað og sagt er um suma presta — jeg á ekki við hv. þm. Str. — að ef þeir að einhverju leyti gangi af sínum trúarsetningum, sjeu þeir allra manna háværastir móti því, sem þeir fylgdu áður. Hv. þm. talaði mikið um, hvað sjer hafi verið erfitt að trúa, að slíkt kæmi frá stjórninni, þar sem hann nefndi þann einn kost við mig — sem honum hefir þó ekki orðið fjölyrt um á síðari árum — að vera gætinn. Frv. þetta er fram komið einmitt af því, að jeg vildi vera gætinn, með því að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Hv. þm. hafði skrifað upp ræðu sína áður en jeg talaði þessi fáu orð; þessvegna talaði hann um alt annað. Jeg tel ekki þurfa að leggja áherslu á það við aðra, að það er alls ekki farið fram á neitt herlið, ekki farið fram á neitt, nema viðbótarlögreglu. Verkamenn og sjómenn hafa mótmælt varalögreglu, og finst mjer það ekki óeðlilegt, eins og málið er túlkað fyrir þeim. Það er eðlilegt, að þeir og aðrir mótmæli, að farið væri að stofna herlið. Hv. þm. sagði, að blað sitt hefði ekki rætt um þetta frv. Jeg hefi einmitt heyrt, að þar hafi verið kveðið upp úr með það, að hjer væri verið að stofna herlið. Þó ekkert hefði verið minst á þetta annað, er það nóg til að koma af stað mótmælum.

Nú skal athuga þessa mótbáru frá hálfu bænda. Því það er víst fyrir þeirra hönd, sem hv. þm. (TrÞ) talaði. Getur verið, þótt ólíklegt sje, að ýmsir þeirra verði eins og „konservativir“ í Danmörku, sem gerast æfir út af varalögreglunni, eins og „socialista“-stjórnin vill hafa hana. En jeg get ímyndað mjer, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi rjettilega sjeð, að það er nákvæmlega sama stefna hjá okkur eins og flokksbræðrum hans í Danmörku. En við höfum ekki farið eins langt.

Jeg gat þess, að hjer væri auðvitað ekki að ræða um neinar heræfingar, heldur yrðu þeir menn, sem, ef á þyrfti að halda, yrði bætt við bæjarlögregluna, æfðir í því, sem lögregluþjónar alsstaðar um heim eru látnir læra. Jeg hefi altaf talað um lögregluþjóna, en hvergi um her. Því er óleyfilegt að fara að tala um fallbyssur eða vjelbyssur, þegar verið er að tala um lögreglu. Efast jeg ekkert um, að hv. þm. viti, hvernig lögregluþjónar á Norðurlöndum alment eru útbúnir, svo jeg þarf ekki að svara honum um það atriði. Hv. þm. Str. vitnaði í danskt blað, „Berlingske Tidende“. En jeg veit ekki, hvort það er full sönnun, þótt eitthvað sje sagt í andstæðingablaði um stjórn, sem menn vilja burtu sem allra fyrst, þótt gott blað sje. Jeg á ekkert útistandandi við hið núverandi danska ráðuneyti, og þótt það sje jafnaðarmannastjórn, virðist mjer það ráðuneyti hafa farið gætilega yfirleitt — engar umbyltingar — og verið fremur íhaldsamt, eftir atvikum. Jeg er ekkert hræddur við það, þótt það komi fyrir, að frv., er jeg ber fram, hafi nokkra líking við frv. nefnds ráðuneytis.

Það kemur ekki til mála, að fara að stofna herlið, en að styrkja lögregluna getur ekki skaðað aðra en þá, sem ætla sjer að brjóta lögin. Það getur ekki hjá löghlýðnum mönnum kallað á neina rjettmæta mótstöðu, og yrði það til að kalla á mótstöðu, vil jeg segja, að þá er best að fá hana sem fyrst. Jeg er ekki hræddur við þann skaða, sem hv. þm. (TrÞ) sagði þegar orðinn af þessu máli. Fjárhagslega hlið málsins sagði hv. þm. lítilsverða hjá ýmsu öðru, sem hann útmálaði. Hv. þm. Str. telur þá heimild, sem veitt er stjórninni í frv., of ótakmarkaða. En það get jeg sagt hv. þm., að þó hann ætti að taka við stjórn, væri jeg ekkert hræddur við að gefa honum þessa heimild. Hún er ekkert ótakmarkaðri en stjórninni er veitt oft og einatt. Þegar um svona heimildir er að ræða, er ekki gert ráð fyrir, að þær sjeu veittar beint vitskertum mönnum. Því það væru vitskertir menn, sem skipuðu þá stjórn, sem verði einni milj. kr. til að klæða lögregluþjóna landsins. Jeg held, að kostnaðaráætlunin sje fulllífleg, og að núverandi stjórn myndi ekki fara lengra en nú hefi jeg sagt, bæði um tölu varaliðsins og kostnað. En væri þingið hrætt um að stjórnin misbrúkaði heimildina, þá er hægurinn hjá að setja varnagla, m. a. með því að binda það, að ekki yrði notað meira fje en veitt væri á fjárlögum. Hv. þm. (TrÞ) mintist á, viðvíkjandi búningnum, að lögregluþjónar ríkisins þyrftu að hafa tvær dýrar kápur. Ætli ekki mætti sleppa annari? Jú, jeg held, að það megi sleppa annari kápunni — og öllum kápum. Einkennisbúningurinn mætti vera einfaldur og ódýr, þyrfti ekki að kosta nema tæpar 100 kr. Annars vil jeg sleppa að ræða um kostnaðaráætlun hv. þm., því hún var gerð út í loftið og fjarri öllu lagi. Skal þó minnast á hana, þegar jeg sný mjer að hv. 2. þm Reykv.

Jeg skildi ekki í fyrstu, hversvegna hv. þm. Str. (TrÞ) rjeðst svo geist að lögreglutjórafulltrúanum, sem var 1921; jeg mundi ekki í bili, að það var hv. þm. V.-Sk. (JK); en jeg skil nú, til hvers þeir refar voru skornir. Ekki var á hann ráðist af hv. þm. eftir viðburðina 1921, en sýnt sanngjarnlega fram á, að lögreglan var ekki nógu sterk. Nú talar hv. þm. (TrÞ) aðeins um skort á einbeitni. Það var ekki skipulagið, sem brást, heldur var lögreglan alt of fáliðuð, eins og hv. þm. (TrÞ) benti þá á.

Alt tal hv. þm. um, hvað hættulegt væri að leggja svona pólitískt vopn í hendur nokkurrar stjórnar, væri svaravert, ef hjer væri að tala um að leggja nokkurt vald í hendur nokkurrar stjórnar. Valdið er látið í hendur lögreglustjóra, með því að gefa honum kost á að bæta við í lögregluna. Hv. þm. (TrÞ) var að tala um, að rjetta ráðið í þessu efni væri gerðardómur, og væri það ágætt, ef hægt væri að koma því fram. Skyldi jeg verða mjög fús til að taka höndum saman við hv. þm., jafnvel þó hann bæri fram málið, ef skynsamlega væri að því farið. En sá galli er á, að annar aðilinn, sem hefir mikið að segja — verkamannastjórnin — vill ekki hafa nein lög í þessum efnum, eftir því sem sýnst hefir. Verður því tvísýnt um gagn af lögum um gerðardóm, ef þessi aðili felst ekki á, að gerðardómur verði notaður. En ef samningamöguleikar kynnu að vera, held jeg nú, að jeg vildi heldur eiga að semja við hv. 2. þm. Reykv. (JBald) en hv. þm. Str. (TrÞ).

Færi nú svo, að stjórnin bæri fram frv. í þessa átt, á jeg mjer engan hlut vísari en það, að hv. þm. Str., þótt hann hefði hvatt til þessa á þingi áður, mundi standa upp æfur og segja: Þetta skulum við drepa á augabragði. En sem sagt, væri hægt að koma á viturlegri löggjöf um þetta atriði, sem fyrirbygði verkföll, skærur og kaupdeilur milli verkamanna og verkkaupenda, væri það ákjósanlegt. Það hefir verið reynt að gera hjer á þingi áður, en skjótlega verið skorið niður; hv. þm. Dala. (BJ) flutti frv. um það fyrir nokkru.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að sjómannastjett og verkamannastjett þessa lands væru efalaust bestu og best mentuðu stjettir í heimi og löghlýðnustu. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þm. (TrÞ) telji bændur einnig standa á nokkuð háu menningarstigi. En ef nú þessar stjettir standa öðrum framar að löghlýðni og öðrum borgaralegum dygðum með þjóð vorri, þá ættu eftir því þeir, sem ganga gegnum mentaskóla, og t. d. skipstjórar, að vera feykilega ólöghlýðnir, því jeg þekki ekkert tímabil í sögu þessa lands, sem sýni, að Íslendingar hafi yfirleitt verið eða sjeu löghlýðnari en aðrar þjóðir. Það hefir nýlega verið sagt í „Degi“, að Íslendingar væru fjarskalega ólöghlýðnir. Nú er náið nef auga, og tekur hv. þm. (TrÞ) þessi ummæli líklega trúanleg. Hitt er eflaust rjett, að sjómenn og verkamenn, sem Íslendingar yfirleitt, sjeu allvel að sjer, kynið gott o. s. frv., en löghlýðnir eru þeir ekki umfram aðrar þjóðir. Það er ekki vanþörf á varalögreglu af þeim ástæðum. Jeg veit vel, að það hefir verið haft á orði, af útlendum ferðamönnum, að Íslendingar væru svo löghlýðnir, að hegningarhúsið, þetta eina, sem til væri, stæði tómt. En jeg get sagt hv. þm. Str. það, að nú a. m. k. er langt frá því, að þetta sje svo. Það er auk heldur svo fult, að ómögulegt er að koma þar fyrir þeim mönnum, sem þar eiga að vera. (BJ: Búa þeir ekki á hótelum bæjarins?) Það hefir stundum orðið að koma þeim fyrir á „Hernum“ og víðar. Annars þýðir ekkert að tala um stjettir manna í þessu sambandi. Menn fæðast með sömu eiginleikunum, svona upp og ofan, hvort sem þeir eru í heiminn bornir í verkamannastjett eða hverri stjett annari. Það skyldi þá vera, að þessir ungu kommúnistar væru búnir að prjedika verkamannastjettinni löghlýðni.

Hv. þm. Str. þurfti ekki að hafa eins langan formála og hann hafði fyrir vísunni: Bræðr munu berjask —. Það var heill fyrirlestur. Þá vísu þekkir hvert mannsbarn, enda minnir mig, að jeg hafi nýlega sjeð hana í „Alþýðublaðinu“.

Að svo stöddu mun jeg ekki tala meira við hv. þm. Str. (TrÞ). En hvað snertir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) get jeg verið stuttorður. Hann var altaf að tala um her og herskyldu. Jeg er búinn að svara þessu og get ómögulega verið að endurtaka það. Hjer er vitanlega ekki verið að fara fram á neina herskyldu, heldur aðeins sjerstakt skipulag, sem á að losa fjöldann frá þeirri skyldu, að aðstoða lögregluna, og leggja hana á fáa menn. Jeg mintist lítillega á það áður, að skoðanabræður hv. 2. þm. Reykv. (JBald) í Danmörku litu nokkuð öðruvísi á þetta en hann. Þeir eru ekki hræddir við að hafa vopnaða lögreglu þar, og álíta það ekki neitt hættulegt, enda býst jeg við því, að stjórn þeirra muni t. d. fara skynsamlega með þá lögreglu, ef hún þarf til hennar að taka.

Þá sagði hv. þm. (JBald), að Íslendingar hefðu jafnan verið lausir við hernaðarósómann. Það er nú svona og svona. Hjer hafa verið farnar herferðir, og er síst ástæða til þess að æskja eftir slíku ástandi. Enda er alls ekki um slíkt að ræða hjer. Hjer á ekki að stofna neinn her og ekki að hafa neinar heræfingar, heldur eingöngu æfingar og kenslu eins og venja er um lögreglulið. Um „vopnin“ er það að segja, að skraf hv. þm. (JBald) um þau á líklega að skoðast sem gaman, og skal jeg því ekki fara frekar út í það.

Þá minnir mig hv. þm. (JBald) segði, að ef bæjarstjórn þætti löggæslan of fámenn, þá mundi hún auka hana. Jeg býst við, að svo verði í þessu tilfelli, eins og stundum fyrri, að þá þykist bæjarstjórn hafa takmarkað fje til slíks. Jeg get látið þess getið, að bæjarsjóður hjer í Reykjavík leggur til lögreglunnar um 90 þús. kr. á ári, og mun það vera hjer um bil eins mikið og bærinn þykist geta lagt fram til þeirra hluta; að minsta kosti komu til mín menn frá bæjarstjórn, til þess að vita, hvort ekki væru tiltök, að ríkið styrkti bæinn til þess að auka lögregluna. Að vísu mun ekki þurfa mikið lið til daglegrar löggæslu, en þó mun koma fyrir, að það hafi reynst heldur lítið, þótt ekki sje hægt að segja, að neinir sjerlegir atburðir valdi.

Þá skildist mjer hv. þm. (JBald) efast um það, að framkvæmdarvaldið hefði nokkru sinni reynst of veikt hjer á landi. Jeg hjelt, að enginn gæti efast um slíkt, því það er alkunna, að um langan tíma mátti kalla, að hjer væri ekki til neitt framkvæmdarvald, sem heitið gæti. Þá talaði hv. þm. um það, að safna mætti liði, ef á þyrfti að halda í einstökum tilfellum. En hjer er hann í andstöðu við hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg verð að fallast á það, sem sagt var vel og skynsamlega í Tímanum 1921, að það væri ilt, þegar æsing væri vöknuð milli stjetta, að safna þá liði úr annari stjettinni. Það er mjög hætt við, að á slíkt yrði litið sem stjettabaráttu. Þá talaði hv. þm. (JBald) um það, að hjer væri engin þörf á löggæslu, því íslensk alþýða væri svo löghlýðin og friðsöm. Jeg verð nú að segja, að jeg þekki, enn sem komið er, lítinn greinarmun á íslenskri alþýðu og öðrum mönnum í þessu landi. Jeg neita því ekki að vísu, að bólað hafi á nokkurri stjettagreiningu meðal þjóðarinnar á síðustu tímum, en sú greining hefir enn ekki sett mark sitt á þjóðina, sem betur fer. Hjer er alþýðumannssonurinn embættismaður, kaupmaður, stórútgerðarmaður, og sonur embættismannsins verkamaður o. s. frv. Mjög lítill hefir stjettamunurinn verið hjer til þessa, og er það sagt þjóð vorri til hróss.

Hv. þm. (JBald) talaði um, að hjer væri gert ráð fyrir 30 ára herskyldu í frv., en í þeim löndum, sem hafa almenna herskyldu, væri herskyldan aldrei lengri en 3 ár. Þessi samanburður er eins mikil fjarstæða og hugsast getur. Þetta væri þá fyrst samanberandi, ef þessir menn í varalögreglunni hefðu æfingar í þrjú ár, og væru síðan skuldbundnir til þess að gegna kalli, hvenær sem til þyrfti að taka. Því hv. þm. ímyndar sjer líklega ekki, að þegar hermenn hafa æft sig í þrjú ár við vopnaburð, þá verði þeir ekki kvaddir framar til vopna, þó stríð komi. Slíkt er fjarstæða, sem hv. þm. hefði getað látið vera að koma með.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði talað um það, að æfingar þær, sem frv. gerir ráð fyrir, mundu taka mjög mikinn tíma. Jeg sagði ekkert um það, hve langan tíma þær mundu taka. En jeg býst við, að þær taki dálítinn tíma, stund úr degi einu sinni til tvisvar í mánuði.

Svo kom kostnaðaráætlunin. Jeg skal ekki fara að mótmæla tölum hv. þm., svo sem 70 þús. kr. fyrir húfur o. s. frv. Jeg geri ráð fyrir því, að þm. skilji, að þó forstöðumaður liðsins í Rvík fái nokkur laun, þá verður ekki um full laun að ræða, heldur aðeins nokkra þóknun. Annars var þessi útreikningur hv. þm. dálítið undarlegur, því að jeg fann ekki betur en að hann blandaði saman árlegum kostnaði og stofnkostnaði, legði stofnkostnaðinn, sem hann setti svo háan, að ekki er einu sinni svara vert, við árlega kostnað, og teldi síðan hina samlögðu tölu árlegan kostnað. Jeg geri fastlega ráð fyrir því, að hv. þm.(JBald) sje betur að sjer í reikningi en svo, að hann láti sig slíkt henda við sín daglegu störf. En þetta, með 2 miljónir o. s. frv., getur ekki verið alvarlega meint.

Þeim kom og saman, hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um það, að óþarfi væri að auka við lögregluna hjer í Rvík. — Skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa klausu úr blaðinu „Tímanum“ frá 26. nóv. 1921:

„Óhætt er að fullyrða, að slíkir atburðir sem þessir hefðu hvergi getað borið við á Íslandi annarsstaðar en í Reykjavík. Það er nú öllum ljóst orðið, að það er mikil nauðsyn á því, að hafa öfluga lögreglu í bænum, sem nýtur bæði virðingar og trausts bæjarbúa. Það er ljóst nú, að lögreglan var ekki nógu öflug og einbeitt .... Það er nauðsyn að búa svo um hnútana, að slíkt komi ekki fyrir oftar. Og það á að gera með nægilega öflugu lögregluliði.“

Það er einmitt þetta, sem blaðið talar um, sem stjórnin vill reyna að gera með þessu frv., án þess að leggja of mikil gjöld á ríkissjóð til þessa. Og sje hv. þm. Str. alvara að fylgja því, sem hann hefir sjálfur sett fram, þá er stjórnin fús til þess að athuga þær tillögur, sem hann kynni að koma með í sama augnamiði. En ef hann vill fella frv., án þess að setja eitthvað líkt í staðinn, þá verður hann að játa, að hann sje horfinn frá því, sem hann hlýtur þá að kalla sína fyrri villu.

Mjer hefir helst skilist á hv. þm. (TrÞ), að hann vilji nú neita því, að hjer hafi komið fyrir þeir atburðir, sem sýni, að lögreglan hafi ekki verið nógu öflug. Þó vildi hann ekki beint neita því, að henni hefði eitthvað verið ábótavant 1921, en hann vildi kenna hv. þm. V.-Sk. (JK) um það. Það er gott fyrir hv. þm. (TrÞ) að geta náð til Jóns Kjartanssonar á þennan hátt. — En jeg verð að líta svo á, að þeir atburðir, sem hjer hafa orðið, sýni, að þörf er fyrir öflugri lögreglu en kostur hefir verið á að undanförnu. Skal jeg nú skýra frá þessum atburðum, eins og þeir hafa verið skjalfestir, með fullu hlutleysi til beggja hliða.

Sumarið 1923 kom upp kaupdeila milli sjómannafjelagsins hjer og útgerðarmanna. Atti þá að gera út eða senda á fiskiveiðar botnvörpung, er hjer lá við hafnarbakkann, með ráðnum hásetum fyrir lægra kaup en sjómannafjelagið krafðist Ef jeg man rjett, taldi sjómannafjelagið útgerðarmenn hafa einhliða sett niður kaupið og sig beitta rangindum. Áður en skipið lagði út, þurfti að setja vatn í það. — Það var orðið vitanlegt, að sjómannafjelagið ætlaði að hindra það með valdi, svo að útgerðarmaður skipsins beiddist aðstoðar lögregluliðsins til þess að fyrirbyggja, að vatnstakan og ferð skipsins yrði hindruð. Lögreglustjóri varð við þessari beiðni og fór til með lögregluþjónana og nokkra tilkvadda menn að auki, til þess að varna því, að vatnstakan yrði hindruð. Er vatnstakan byrjaði, gerði mannfjöldi, undir forustu stjórnar sjómannafjelagsins, árás á skipið og lögregluna, og varð nokkurt handalögmál og barsmið milli þeirra og lögregluliðsins og aðstoðarmanna þess, en það litur svo út sem formaður sjómannafjelagsins hafi þá þegar sjeð missmíði á því, að beita lögregluna valdi, því að hann leitar að fyrra bragði samtals við lögreglustjóra, og verður það að samkomulagi, að ekki skuli það hindrað, að vatni sje dælt í skipið. Svo var farið til þess. En það hafa verið ýmsir þeirra manna, er safnast höfðu þangað að og tekið þátt í árásinni, er ekki voru ánægðir með þetta samkomulag, því eftir litla stund byrjaði önnur árás, og var þá beitt enn meira ofbeldi en áður, og lögregluþjónarnir barðir, en þó enn meira aðstoðarmenn lögreglunnar, og varð að hætta við vatnstökuna. Einn aðstoðarmaðurinn meiddist talsvert á höfði, en annars held jeg, að ekki hafi orðið veruleg meiðsli. Það kemur í raun og veru ekki við þessu máli, hvorir hafi haft rjettara í kaupdeilunni. Jeg ímynda mjer, að hvorirtveggja hafi þóst hafa rjett; sjómenn hafa þóst rangindum beittir, en útgerðarmenn, er þá áttu þröngt í búi, þóst bjóða þau kjör, er þeir frekast gætu. Og þótt það sje vel skiljanlegt, að sjómenn, og aðrir, sem líkt stendur á fyrir, verði gramir, er kaupkröfur, sem þeir álíta sanngjarnar og hinar lægstu, er þeir geta unað við, ná ekki fram að ganga, vegna þess, að aðrir undirbjóða þá, má þeim ekki leyfast að rjúfa friðinn, þann fríð, sem er ríkisvaldsins fyrsta og fremsta skylda að vernda.

Jeg hefi minst á þennan atburð til þess að sýna, hve löggæslan, eins og hún nú er, er ónóg og vanmegna, ef uppþot kemur fyrir.

Í fyrravetur eða vor kom fyrir uppþot, sem dálítið var líkt þessu, og enn sýnir vanmátt lögreglunnar, og skal jeg ekki lýsa því frekara. Það er hv. þm., sem hjer voru saman komnir þá, vel kunnugt. En því nefni jeg það, að jeg tel þar miklu síður verið hafa afsökun en í hitt skiftið. Þá settu verkamenn upp kaupið og hindruðu með valdi að aðrir ynnu, ekki aðeins þá, sem vildu vinna fyrir lægra kaup, heldur hindruðu þeir jafnvel fasta starfsmenn frá því að vinna, eða menn, sem ekki komu til greina um undirboð í kaupi.

Þá skal jeg enn minnast á eitt landskunnugt uppþot. En í því faldist að minni hyggju ekkert það, er mildað geti dóm löghlýðinna manna um slíkt atferli. Hingað flyst erlendur drengur, 15 ára, frá Rússlandi. Læknir telur hann haldinn af augnsjúkdómi, er hætta geti verið á að smiti, og landlæknir telur, að það þurfi að vísa dreng þessum úr landi. Eftir tillögum læknanna lagði jeg svo fyrir, að drenginn skuli flytja úr landi, eins og jeg var skyldur til. Ráðamaður drengsins var Ólafur Friðriksson, einn aðalforingi jafnaðarmanna hjer þá; kom hann til mín, er honum hafði verið gert kunnugt um úrskurð þennan, og sagði, að drengurinn yrði ekki látinn fara, nema greitt yrði úr ríkissjóði sem svaraði 3 ára framfæri hans. Jeg má segja, að nefndar voru 1200 kr. á ári, eða 3000 kr. í einu lagi. Jeg svaraði, að jeg teldi ekki heimilt að greiða þetta fje úr ríkissjóði, en kvaðst ekki efast um, að samskot fengjust handa drengnum, og kvaðst jeg fús að styðja að því. Ólafur Friðriksson neitaði því, og sagði, að jeg skyldi sjá, hvernig þetta mál stæði, er hann hefði skrifað um það 2–3 blaðagreinar. Jeg sagði, að það yrði þá að skeika að sköpuðu. Síðan gerði Ólafur samtök um að koma í veg fyrir, að drengurinn færi, og þegar lögreglan kom til þess að sækja hann, var hann tekinn af henni og hún barin. Það heyrðust háværar raddir þá um það, að þetta væri að kenna klaufaskap og ónytjungshætti lögreglustjóra og lögregluþjóna. Slíkir dómar heyrast oft víðar en hjer um lögreglumenn. En jeg held, að ef lögreglan hefði gengið lengra í þetta skifti, þá hefði hlotist verra af. Það sýndi sig greinilega í þessu ástæðulausa uppþoti, að lögreglan var of fámenn.

Þegar drengurinn var tekinn, var engin veruleg mótstaða veitt. Að vísu voru fyrir í húsi því, er drengurinn var í, nokkrir menn, svo sem til varnar. Það var reyndar búið að segja, að þeir væru vopnaðir — ja, þeir höfðu einhver prik, en þeir notuðu þau ekki. Þeir sáu sitt óvænna, af því að lögregluliðið — að viðbættu aukalögregluliði — var nógu sterkt. Skynsemin fjekk nú yfirhöndina hjá flestum, og menn sáu, að uppþot var óskynsamlegt. En þessi atburður virðist mjer sýna ljóslega, að lögreglan er allsendis ófullnægjandi, og mjer finst það skylda hv. deildar að athuga, hvernig best verður úr þessu bætt, hvað sem einstakir menn segja. Jeg vona a. m. k. um hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að hann sannfærist af orðum hv. þm. Str. (TrÞ) um, að vert væri að tala um málið á þeim grundvelli, sem hann hefir bent á, úr því að skoðanabræður hans í Danmörku hallast á þá sveif.

Jeg endurtek það, hvað sem gert verður við þetta frv., að jeg álít mjög óvíst, að hægt verði að fá aðstoð, þó á liggi, með því að safna liði, sem ekki er lögskipað. Þetta er fremur óvinsælt starf, og það hefir líka sýnt sig, að aðstoðarmenn verða jafnaðarlega fyrir meira hnjaski en lögregluþjónarnir sjálfir, og er það kanske eðlilegt, þegar þess er gætt, að af öllum almenningi a. m. k. mun litið svo á, að lögregluþjónarnir sjeu aðeins að gera skyldu sína. Það er einhvernvegin í meðvitund manna, að þessir menn eigi ekki að verða fyrir ofbeldisverkum, og er þá hinum síður hlíft, sem aðkomnir eru og ekki hafa embættisskyldu þar til.

Fáir menn, vel æfðir, hafa miklu meira að segja en miklu fleiri óæfðir. Það verður að brýna fyrir lögregluþjónunum, að þeir fari ekki lengra en alveg nauðsynlegt er. Þess er vandlega gætt annarsstaðar, og eru aðeins sumir þeirra látnir hafa kylfur, en aðrir gæta þess, að þær sjeu ekki misbrúkaðar. Æfðir menn eru venjulega rólegri, og svo kynni einkennisbúningurinn að hafa nokkur áhrif. Það er ilt og ófært, að safna stjett á móti stjett. Aðalatriðið í þessu máli er, að þing og stjórn geri einhverjar þær ráðstafanir, sem tryggja frið í landinu.

Það var talað um, að það væri verra að hafa fáa lögreglumenn í þessu liði en marga hermenn. Það skil jeg ekki. Hjer er um ekkert annað að ræða en töluviðbót við þá lögreglu, sem er fyrir. Hvað snertir þörf á viðbótarlögreglu á Siglufirði, þá minnist jeg þess, að í öðru höfuðmálgagni Framsóknarflokk síns stóð í haust, að þar væri þörf á öflugri lögreglu. En það mætti kanske skipa þeim málum öðruvísi þar en hjer.

Jeg skal nú hlífa hv. deild við lengri tölu að sinni. Jeg verð þó að svara hv. 2. þm. Eyf. fáum orðum. Hann spurði, hvort bæjarstjórnir hefðu heimild til að setja á stofn varalögreglu. Til þess hafa þær ekki heimild meiri en þá, að kalla á viðstadda menn. Heimild hafa þær ekki, að minni hyggju, til þess, sem farið er fram á í þessu frv., svo ekki er hægt að fara þá leið, nema slík heimild sje getin með lögum. Annars hefi jeg góða von um, að hv. þm. (BSt) geti verið með málinu, eins og hann hefir tekið í það, þó að hann ef til vill geti ekki fallist á frv. óbreytt. — Skal jeg svo ekki fara frekar út í þetta að sinni.