03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (2667)

32. mál, varalögregla

Ásgeir Ásgeirsson:

Þó ekkert væri annað en það, að þetta ríkislögreglumál hefir ekki verið lagt fyrir þjóðina áður en það var borið fram hjer á þingi — þá bæri af þeirri ástæðu einni saman að vísa því frá að þessu sinni. Öll stórfeld mál á að ræða með þjóðinni í stjórnfrjálsu landi, áður en þau eru lögð fyrir löggjafarþingið. Þjóðarviljinn er bakhjarl löggjafarinnar, og þó einkum framkvæmdarvaldsins. Það er ekki það, sem fyrir þjóðina á að leggja, hvert það sje þessi virðulega samkoma, sem á að setja lög í landinu, eða einhverjir flokkar — jafnaðarmanna eða aðrir. Um það munu allir á eitt sáttir, að löggjafarvaldið er í höndum þingsins og að framkvæmdarvaldið á að sjá um, að lögum sje hlýtt. Um það er ekki ágreiningur í þessari háttvirtu deild — enda ætti sá maður hingað ekkert erindi, sem á annan veg hugsaði. Um hitt er ágreiningurinn: hvernig framkvæmdarvaldinu skuli háttað — og hjer er gerð svo viðurhlutamikil tillaga um breyting á skipulagi framkvæmdarvaldsins, að nauðsyn bar til, að tillagan væri rædd til hlítar áður en hún væri fram borin á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Í frv. er svo ákveðið, að ríkislögregla „skuli sett í hverjum kaupstað á landinu — eftir því, sem við verður komið“, og í athugasemdunum er þess getið, að rjettast sje, að lögin gangi þegar í gildi, til að flýta fyrir framkvæmdum þeirra. En á framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra var ekki að heyra, að hugsað væri í til framkvæmda annarsstaðar en í Reykjavík og e. t. v. á Siglufirði. Liggur því næst að ætla, að háttv. þm. annara kaupstaða — háttv. þm. Akureyrar, Ísafjarðar, Seyðisfjarðar, Vestmannaeyja og Gullbringu- og Kjósarsýslu — sem allir eru stuðningsmenn stjórnarinnar, hafi látið hana á sjer skilja, að þeirra kjördæmi sjeu ekki þurfandi fyrir þessi fríðindi — og ráðherrann þá, eins og rjett var, beygt sig fyrir því. Umsagna kaupstaðanna, eða bæjarstjórna þeirra — sem að mestu annast löggæsluna — hefir ekki verið leitað, og er hæstvirtri stjórn því skyldara að taka fult tillit til fulltrúa þeirra hjer á þingi. En það má segja, að ekki blási byrlega fyrir frv., þegar flm., hæstv. forsætisráðherra, er þegar í framsöguræðu sinni falinn frá að nota þá heimild til fulls, sem hann æskir eftir að fá hjá þinginu.

Um Siglufjörð er það að segja, að háttv. 2. þm. Eyf. hefir þegar tekið til máls og látið á sjer skilja, að Siglfirðingar æski ekki eftir þeim „umbótum“, sem í frv. felast. Það er alt annað, sem Siglfirðingar hafa óskað eftir. Þeir sendu í fyrra til þingsins almenna áskorun um, að vínverslun landsins þar á staðnum yrði lögð niður. Það er sú eina „löggæsla“, sem þeir hafa óskað eftir. Í áskoruninni segja þeir svo: „Síðan áfengissalan var sett hjer niður, er daglegum friði vor Siglfirðinga spilt svo — að minsta kosti að sumrinu til — að óviðunandi er framvegis. Hávaði og friðarspjöll ölvaðra manna hafa keyrt svo úr hófi fram, að sóma bæjarins og velferð borgaranna er teflt á fremsta hlunn“. Þessu svaraði hæstv. forsætisráðherra svo, að hann skyldi taka málið til athugunar, „því“, eins og hann sagði, „mjer er ekki kært að hafa útsölustaði vínanna fleiri en beinlínis er nauðsynlegt vegna samninganna við Spánverja“. Þetta var vel mælt, og væntu Siglfirðingar nokkurrar úrlausnar, þar sem ekki er líklegt, að nauðsyn bæri til, samkvæmt Spánarsamningnum, að hafa útsölustaðina tvo á Norðurlandi, en ekki nema einn í öðrum fjórðungum. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsætisráðherra, hver niðurstaðan hafi orðið og hvort ekki megi vænta bráðra framkvæmda — því jeg vona, að niðurstaðan hafi ekki orðið sú, að nauðsyn bæri til — vegna tekna ríkissjóðs af áfengissölu — að hafa útsölustaðina sem flesta, en hinsvegar ætli stjórnin fúslega að láta Siglfirðingum í tje ríkislögreglu, til að skakka leik hinna ölvuðu manna, sem með framferði sínu eru að reisa við fjárhag ríkisins. Ef Siglfirðingum er veitt ósk þeirra, þá eru vandræði þeirra leyst, án þess að stjórnin þurfi þeirra vegna nokkura heimild til að setja á laggirnar hið mikla lögreglubákn, sem farið er fram á. Kann að vera, að ríkið gerði rjett í því, að styðja þá til að fjölga lögregluþjónunum um 2–3 að sumrinu, en það er óskylt mál því frv., sem hjer ræðir um.

Þá er Reykjavík ein eftir. Það liggja hvorki fyrir málaleitanir frá bæjarstjórn, lögreglustjóra nje neinar umsagnir þeirra — nje fundarsamþyktir, er sýni, að hjer sje almenningsósk á ferðum. Þvert á móti. Það, sem borist hefir hjeðan og annarsstaðar að af landinu, eru mótmæli ein. Það fylgir frv. ekki ein áskorun frá einum fundi í einu einasta kjördæmi. Einn af þm. Reykjavíkur hefir þegar tekið til máls — og ekki mælt frv. bót. En nú fáum við vafalaust að heyra ummæli hinna Reykjavíkurþingmannanna, sem allir eiga sæti í þessari háttv. deild, og vitanlega hafa hugsað mál þetta ítarlega. Ef þeir þegja, þá er sú þögn ekki samþykki, heldur miskunnsemi stuðningsmanns við stjórn sína — og vildi jeg þá skjóta því til hæstv. forsrh., hvort ekki væri varlegast að taka frv. aftur. Það væri án efa besta lausnin á málinu. Ef ekki koma ákveðnar kröfur, einbeitt ósk um ríkislögreglu, í þeirri mynd, sem til er ætlast í frv., þá hefir frv. engan bakhjarl. Þá er þjóðarviljinn í römmustu andstöðu við frv. En þjóðarviljinn á að vera uppspretta löggjafarinnar, og hann er í þessu efni óumflýjanlegt skilyrði fyrir framkvæmdinni.

Hæstv. forsrh. dregur enga dul á, að orsakirnar til þess, að frv. er fram borið, eru atburðir, sem orðið hafa hjer í Reykjavík á seinni árum. Jeg hefi að vísu heyrt út í frá þá vörn fyrir frv., að þjóðfjelag vort sje svo varnarlaust gagnvart útlendum ofbeldismönnum, að svo búið megi ekki standa. Er þá vísað til Tyrkjaránsins og Jörundar hundadagakonungs, þó seint sje nú að grípa til varnar gegn honum. En þá væri hjer um hervarnir að ræða, og býst jeg við, að hæstv. forsrh. vilji ekki heyra það, enda hefir hann ekki flutt þessa vörn fyrir frv. Væri og landið alt jafn-berskjaldað fyrir, þó einhver liðsafli væri hjer fyrir í Reykjavík. Er og þessi ótti óþarfur, þar sem enski flotinn hefir friðað höfin svo vel, að öryggið er meira fyrir þá, sem á sjó ferðast en hina, sem fara á landi, hvað yfirgang snertir. Enski flotinn er að þessu leyti okkar mikla vernd, þó að hún sje orðin svo gömul og sjálfsögð, að við gerum okkur oft ekki grein fyrir því. Það er sagt, að þeir smáfuglar sje óhultastir, sem hreiðra sig í nánd við örninn, og svo er um okkur og England. Það er því óþarfi að ala á þessum kvíða. — Hæstv. forsrh. taldi aftur aðalorsök þess, að frv. er fram borið, uppþotið, sem varð út af rússneska drengnum fyrir nokkrum árum. Hann var þá sjálfur dómsmálaráðherra, og tók fast í taumana. Það dugði. Það er þessvegna undrunarefni, að nú skuli, eftir mörg ár, flutt frv. til stórbrotinna breytinga á löggæslunni í tilefni af atburðum, sem ekki sprengdu það kerfi, sem við þá bjuggum við og höfum altaf búið við. Þar var um uppþot að ræða, sem reyndist auðvelt að yfirbuga, þegar framkvæmdarvaldið tók rögg á sig. Það hefðu að líkindum aldrei vandræði af hlotist, ef það hefði fyr trúað á mátt sinn. Þar var um enga bylting að ræða, heldur uppþot. Það var rangt, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) ljet um mælt, að þar hafi heill stjórnmálaflokkur ráðist á lögregluna. Byltingu er hjer óþarfi að óttast. Það er ilt verk og óþarft, að espa sjálfan sig og aðra upp í byltingarótta, þegar ekki einu sinni þeir, sem mesta samúð hafa með þjóðfjelagsbyltingum í öðrum löndum, telja neinar líkur til, að hjer geti orðið bylting, nema hún sje á undan gengin í Englandi og á Norðurlöndum. En þess verður langt að bíða, að þar sporreisist þjóðfjelögin. Það er gott nágrennið við þjóðir, sem standa svo framarlega að stjórnmálaþroska. En í þessu liggur öryggi vors þjóðfjelags: í nágrenninu við þessar þjóðir og þó helst í vorum eigin hjörtum. Erfðavenjur þessa vors litla þjóðfjelags og forn festa ætti eitthvað að hrökkva og þola annað eins og það, að við eignuðumst 30 togara. Guð hjálpi okkur þá, þegar stóriðnaðurinn heldur hjer innreið sína, og sú Skrílmyndun, sem honum hefir viðast fylgt! íslensku þjóðfjelagi ætti ekki að vera hætta búin, því að hjer er enginn skríll til, eða rjettara sagt, hjer er skríllinn ekki stjett út af fyrir sig, því að aldrei verður hjá hinu komist, að nokkur skríll sje til í öllum stjettum.

En það er tvent, sem jeg vildi víkja nánar að í sambandi við þetta uppþot. Annað eru vopnin, sem þar var gripið til. Hæstv. forsrh. telur það „gamanyrði“, að tveir hv. þm. hafa gert ráð fyrir vopnaburði í sambandi við ríkislögregluna. En hvað liggur nær en að hugsa sjer það — enda er rúm heimild í frv. fyrir alt slíkt — þegar byssur voru notaðar í uppþotinu fræga? Hæstv. forsrh. segir að vísu, að gert sje ráð fyrir, að það sjeu ekki brjálaðir menn, sem eigi að framkvæma lögin. En er það ekki einnig siður óbrjálaðra ráðherra, að óska ekki eftir víðtækari heimildarlögum en gert er ráð fyrir, að einhverntíma þurfi að grípa til? Heimildarlög þessi standa, þó að hann víki frá völdum, og þá er það heimildin, sem gildir, en ekki ræða hans um það, hvernig hann ætli að nota hana. Þetta er einn höfuðgalli frv., hvað það er víðtækt. Það er svo víðtækt, að þó að það sje að vísu ekki lög um, að hjer skuli dreginn saman her í landinu og æfður, þá er það þó aldrei ofmælt, að það sjeu heimildarlög um að stofna her í landinu, ef þeirri stjórn, sem að völdum situr, býður svo við að horfa. Hæstv. forsrh. segir að vísu, að skotvopn komi þar ekki til mála, því liðið eigi að vera búið að hætti annarar lögreglu. — En hvar var þá heimildin til að fá varaliðinu, sem tók Ólaf Friðriksson höndum, byssur í hendur? Var það gert, án þess að nokkur heimild sje til þess í lögum ? Jeg óska eftir skýru og ákveðnu svari! Því annaðhvort hefir það verið gert í heimildarleysi, eða það er full ástæða til að ætla, að tilgangurinn hafi verið sá, er frv. um ríkislögreglu var samið, að liðið yrði æft í vopnaburði. Jeg segi þetta ekki til að veiða hæstv. forsrh. í neina gildru. Tilgangur minn er sá einn, að ljá mitt lið til að koma í veg fyrir vopnaburð í framtíðinni, en ekki að hengja fortíð ráðherrans á gálga. Mjer væri það svar ljúfast, að hjer á landi megi engum fá vopn í hendur, nema atvinnulögreglunni í nauðvörn og svo landhelgisvörðum. Svo ættu íslensk lög að mæla fyrir. Eggvopn og skotvopn ættu hjer að vera bannfærð. Og þó er ekki nauðsyn, að það standi neinstaðar í lögum. Það hafa um langan aldúr verið óskrifuð lög — og óskrifuð lög, helguð af venju og sögu, eru sterkari en þau lög, sem samþykt eru á þingum. Það hefði verið óhætt í uppþotinu að treysta þessari venju, í stað þess að láta tortryggnina fá sjer vopn í hendur. Því jafnvel þó tortryggnin hefði verið á rökum bygð, þá er almenningsálitið enn hjer svo óspilt, að sá maður, eða flokkur manna, sem fyrstur verður til að beita eggvopni eða skotvopni í viðureign milli þegnanna, er þegar, því samkvæmt, búinn að bíða ósigur. — Þetta þykir kanske fullkristilegt, því það er nú svona, að jafnvel þó ásakanir um kristindómshatur sjeu farnar að tíðkast í kosningadeilum, þá velta sumir samt vöngum, ef í þjóðmálum á mest að treysta á gott innræti þegnanna. En þetta er nú samt svona hjer á landi. Í fjelagsmálum geta menn valið sjer sínar þroskabrautir — og þeim þjóðum, sem á þetta þora að treysta, mun verða að trú sinni.

Hitt annað atriðið viðvíkjandi því uppþotinu, sem frv. er aðallega bygt á, sem jeg vildi spyrja hæstv. forsrh. um, er það, hvernig á því hafi staðið, að lögreglan gat ekki komið fram vilja sínum ? Var það af því, að hún var of mannfá? Eða var það af því, að hún dignaði, þegar á hólminn kom? Hæstv. ráðh. (JM) hefir kveðið upp úr um það, að uppþot þetta sje aðalorsök frv. Mjer er því næst að halda, að ef lögreglan hefði dugað en ekki dignað í það skifti, þá hefði þetta varhugaverða frv. aldrei komið fram. Það er almennings álit hjer í bæ, að lögreglustjórinn hafi ekki verið vaxinn því verkefni, sem hann í þetta sinn átti að leysa af hendi. Jeg segi þetta ekki til að gera honum svívirðing. það þarf engin minkun að vera, þó hann sje til annars betur fallinn en stýra liði og standa í mannraunum. Við erum svo gerðir, margir nútíðarmenn. Þetta er auk þess staðfest af forsætisráðherranum sjálfum, sem sá sjer ekki annað fært en setja annan í hans stað. þannig skýrði hæstv. ráðh. (JM) þá magnleysi reykvísku lögreglunnar. Og mun ekki sama skýringin rjett, enn þann dag í dag? það dugar ekki annað en hreinskilni og einurð, ef leysa á slík mál sem þessi. Það er of dýrkeypt, að ætla að bjarga Reykjavík frá einurðarlítilli lögreglustjórn með jafnumfangsmikilli heimild og felst í frv. stjórnarinnar. Ráðið er ofureinfalt, og verður tekið fyr eða síðar: að gera skifti milli lögreglustjórnarinnar og tollgæslu eða innheimtumannsstarfans. Það er vissulega nóg starf fyrir einn mann, að eiga að bera ábyrgð á innheimtu um 5 milj. kr. fyrir landssjóð. Í sama mund gæti hann verið tollstjóri landsins, á líkan hátt og póstmeistari er yfirmaður póstmálanna. Núverandi lögreglustjóri mun vera hinn duglegasti skrifstofumaður og skyldurækinn innheimtumaður, og væri ekki nema hagur fyrir landið, að hann nyti sinna krafta ótruflaður á því sviði, sem hæfileikar hans best njóta sin. Lögreglustjóri þarf aftur að vera einarður, ótrauður og þó gætinn. Jeg hefi trú á því, að hægt væri að fá slíkan mann, sem borgararnir bæru fult traust til. Hann þyrfti að kynna sjer erlendis löggæslu, svo að hann gæti komið góðu skipulagi á lögreglu bæjarins og verið sjálfur foringi hennar. Reykjavíkurlögregluna þarf að gera svo úr garði, að hún standi á sporði útlendri lögreglu. Lögreglustjóri þyrfti að kynna sjer meðferð kaupdeilumála í nágrannalöndunum, því við slík mál mun frv. að nokkru leyti miðað — og er þess að vænta, að einkum reyni á lögreglustjóra, lægni hans og festu, í slíkum málum. En jeg er ekki hræddur við kaupdeilumálin hjer í bæ, ef samþykt verður frv. um sáttasemjara, sem við tveir deildarmenn munum bera fram hjer í deildinni, og einarður en gætinn lögreglustjóri fæst til að fara með framkvæmdarvald ríkisins. Það er sennilega einskis manns ætlan, að neinum flokki manna sje leyft að stofna rjer ríki í ríkinu; landslögum verða allir að hlíta. En þar fyrir ber skylda til að fara með ríkisvaldið gætilega, eins og hvert annað vald, og beita því ekki við fyrsta tækifæri, er ógætinn atvinnurekandi heimtar vernd fyrir „skrúfu“-brjóta — kanske í þeim tilgangi einum, að koma af stað uppþoti — heldur bíða þess, að sáttasemjari hafi unnið sitt starf, og vera síðan á verði um hagsmuni þjóðfjelagsins og gæta þess, að engum haldist ólög uppi. Jeg er ekki hræddur við þessi mál, ef skynsamlega er að farið. En þá væri ástæða að óttast, ef frv. stjórnarinnar væri samþykt eins og það er fram borið, og enginn sáttasemjari lögskipaður. Jeg tel það ekki ofmælt hjá hv. þm. Str., að ekki væri óttalaust um, að það gæti orðið upphaf nýrrar Sturlungaaldar. Mjer virðist, bæði af frv. og sumum ummælum jafnaðarmanna, ekkert hóf á tortrygninni í garð andstæðinganna, en hún er hjer rót alls ills. Alþýðublaðið hefir talað um „að myrða saklausa verkamenn“, og frv. er því líkast sem það væri borið fram eftir samskonar atburði og rauðu byltinguna á Finnlandi eða þrælastríðið í Bandaríkjunum. Og þó er hin göfugasta barátta á slíkum stöðum eftir þessháttar atburði jafnan fólgin í því, að berja niður alla ofstjórn, sem ætið reynist sama og óstjórn, og hverfa aftur til þess skipulags, sem byggir öryggi þjóðfjelagsins aðallega á innræti þegnanna, en ekki ofríki. En hjer í þingdeildinni er svona frv. flutt undir yfirskyni friðarins, þó vitanlegt sje, að allur liðssamdráttur miðar til ófriðar. Það hefir verið sagt, að þetta sje að byrgja brunninn áður en barnið detti ofan í — þó það sje miklu líkara hinu, að hjer sje grafinn brunnur, sem betur færi, að ekki aðrir en stjórnin dytti ofan í.

Sú þjóð er á heljarþröm, sem ætlar að búa um sig rjett eins og bylting sje á hverju augnabragði að brjótast út. Kósakkalöggæsla er undanfari bolsivismans. Það á hvorttveggja jafnlítið erindi hingað til okkar lands. Mjer er sama, hvað svona liðsdráttur er kallaður: varalögregla, herlið eða hvað — hann er brot á erfðavenjum okkar, hættuleg braut að halda út á. Slíkir liðsflokkar hafa það eðli að stækka og stækka, það hleðst utan á þá, þeir vekja mótþróa og er beitt oftar og oftar, hver svo sem tilætlunin er í upphafi. Það eru engar ýkjur að líkja þeim við málalið á friðartímum í löndum, sem enga herskyldu höfðu, svo sem Englandi og Bandaríkjunum. Slíkar herdeildir voru jafnan varðar með nauðsyninni á að halda uppi lögum í landinu og tryggja borgarana. Og þó var af ákafa barist á móti aukning „friðar“-hersins í þessum löndum, á Englandi í margar undanfarnar aldir, alt frá dögum Stuartanna, og í Ameríku alla síðastliðna öld. Í Bandaríkjunum var málalið um aldamótin ekki nema um 27 þús. manns — í landi, sem hafði 70 milj. íbúa, stóriðnað og fólk af öllum þjóðum! Það er ólíku saman að líkja, Bandaríkjunum og voru litla bændalandi, þar sem flestir eru frændur og rásin milli stjettanna svo ör, að stjettamunur getur hjer varla heitið nokkur. Og þó var þessi varalögregla Bandaríkjanna hjer um bil 1 maður á hverja 2500 íbúa. En hjer í Reykjavík á að setja 1 á hverja 200, til að byrja með, og mun það þó fljótt aukast, ef á kemst. Og þó á ekkert land jafnmikið undir, að góður friður haldist, eins og þetta litla land, og sennilega ekkert land betur trygt af innræti þegnanna og góðu nágrenni en okkar land. Við eigum að standa eins fast á móti öllum liðsdrætti og England og Bandaríkin stóðu áður á móti herskyldunni, og treysta mest þeirri vernd, sem liggur í brjósti hvers góðs borgara. Það er eðli lýðræðisins, að treysta á borgarana, en harðstjórnar, að treysta á herafla. Það er enginn barnaskapur að treysta á borgarana, því jafnvel þó menn sjeu hlaðnir vopnum, þarf samt að treysta innrætinu, til þess, að þeim verði rjettilega beitt. En þó vopnum eða liðsafnaði væri beitt — beitt með fullum árangri — þá skapar það aldrei meiri frið en er í Kötlu, þar sem ólgan neðan að kastar af sjer farginu að ofan með ósköpum, þegar ísinn er orðinn hvað þykkastur. Þetta er eðli allrar ofstjórnar. Spekt og friður fæst ekki með liðsafnaði í þessu tendi, heldur er það þrek og atorka lögreglustjórnar og dómsmálaráðherra, sem heldur við friðnum og virðingu þegnanna fyrir rjettvísinni. Enn bíða hæstv. ráðh. (JM) mikil verkefni. Því það er ekki það, sem að hefir verið á seinni árum, að framkvæmdarvaldið hafi ekki verið nægilega liðsterkt — eins og haldið er fram í ástæðunum fyrir frv. — heldur hitt, að því er of slælega beitt. Þess munu finnast mörg dæmi, þó jeg hirði ekki hjer að telja. Í því starfi mundi ráðherrann hafa samúð og fylgi allrar þjóðarinnar, að styrkja og efla framkvæmdarvaldið og dómsvaldið til að gegna skyldu sinni. það er fleira en kaupdeilur, sem gefa þarf gætur. Til þessarar umbótastarfsemi þarf engan liðsafla, heldur þrek og festu og umsjón í sínu starfi.

þjóðskipulagi voru er engin hætta búin af þegnunum — þó sumir sjeu farnir að lýsa því eins og það sje einhver hjallur, sem sífelt sje að hrynja. Ef Framsóknarmaður beitir sjer móti afnámi tóbakseinkasölunnar, gefur það hv. þm. V.-Sk. (JK) tilefni til að ásaka Framsóknarflokkinn um, að hann vilji kollvarpa þjóðskipulaginu. Þeir hafa ekki mikið traust á þjóðskipulaginu, sem svo tala! Þeir hafa ekki komið auga á, að sá grundvöllur, sem „demokratiskt“ stjórnskipulag er bygt á, er ekki aflið í vöðvanum nje eggin í vopnunum, heldur er það trúin á manneðlið. Við sitjum hjer á rökstólum, kosnir af þegnum ríkisins. Skynsemi þeirra og samvisku er treyst til að vera uppspretta hollrar löggjafar, og svo er einnig um framkvæmdarvald og löggæslu, að það byggist mest á ágæti þegnanna, og því næst á festu og einbeitni lögreglunnar, sem skamt mundi annars hrökkva. Hin mikla varalögregla þessarar þjóðir, her hennar og floti, sem hingað til hefir dugað, er: dómgreind, drengskapur og ættjarðarást þeirra manna, sem sent hafa okkur á þetta þing, hvort sem þeir teljast íhalds-, jafnaðar- eða Framsóknarmenn. Þeirri varalögreglu ber oss að treysta, hjer eftir eins og hingað til.