03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

32. mál, varalögregla

Jón Kjartansson:

Að svo stöddu vil jeg ekki blanda Ólafsmálinu svokallaða inn í umr. þessar, þó að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) gæfi tilefni til þess. Annars þykir mjer nokkuð undarleg framkoma þessa hv. þm. (ÁÁ) og hv. þm. Str. (TrÞ) í máli þessu. Hv. þm. Str. gaf fyllilega í skyn, að nú væri engin þörf á varalögregluliði, a. m. k. í Reykjavík, af því að sá fulltrúi lögreglustjóra, sem var, þegar Ólafsmálin voru á ferðinni, væri nú látinn af þeim starfa. Hann vildi m. ö. o. kenna mjer um það, að nokkurntíma hafi orðið þörf á varalögreglu hjer í bænum. Og nú kemur hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og segir, að mál þetta verði leyst með því einu, að núverandi lögreglustjóra Reykjavíkur verði vikið frá embætti.

Það er ekki ný bóla, að menn heyri slíkar dylgjur um ágætustu embættismenn þjóðarinnar, en þó er það í meira lagi óviðkunnanlegt, að þeim sje kastað fram hjer í þingsalnum, alveg órökstuddum.

Það gæti annars orðið mörgum hv. þm. lærdómsrík lexía, ef þeim væri bent á, hvernig framkoma borgaranna er oft og tíðum, þegar þeir eru kvaddir til að gegna skyldu sinni og koma lögreglunni til hjálpar. Og það má læra margt í þessu efni, einmitt af hinu margumtalaða Ólafsmáli. Þá var mjer t. d. sagt, að núverandi hv. þm. V.-Ísf. (ÁA) hefði boðist til þess að gerast sjálfboðaliði, til styrktar lögreglunni. Hvort hann hefir síðar fengið skipun um að ganga í aðstoðarlögregluliðið, sem þá var stofnað, eða ekki, er mjer ókunnugt, en hitt er víst, að hann kom ekki á hólminn, þegar til kom. (ÁÁ: Jeg bauðst ekki að gerast sjálfboðaliði, og fjekk heldur enga skipun.) Jeg sel sögu þessa ekki dýrari en jeg keypti hana, en framkoma ýmissa annara borgara var þá, sem oftar, mjög svipuð þessu. Það vill sem sje oft brenna við, að menn eru nógu fúsir á að siga lögreglunni til hvers sem vera skal, en eru svo öllu seinni á sjer að koma henni til aðstoðar, þegar á herðir og þeir eru til kvaddir, sem þó er borgaraleg skylda hvers manns. Þetta kom einmitt svo ofurglögglega í ljós í Ólafsmálinu. Og þá kom einnig annar agnúi á núverandi fyrirkomulagi í ljós, en hann var sá, að aðstoðarmenn lögreglunnar höfðu engin einkenni, svo að þeir, sem voru tregir til fylgdar, gátu með hægu móti skotið sjer bak við mannfjöldann og látið sem ekkert væri. Það er svo sem auðvitað mál, að flestir kjósa helst að sitja hjá, þegar slík tilfelli koma fyrir. Svona gæti jeg nefnt mörg dæmi.

Þó ekki sje nema um viðureign lögreglunnar við drukna menn að ræða, þá eru þess dæmi, að borgararnir hafi ánægju af að horfa á, að lögreglan væri ofurliði borin, án þess að hafast nokkuð að til hjálpar. Svona er aðstaða lögreglunnar nú, og lægi nær, að menn lærðu að hjálpa henni, þegar þörf krefur, en að kasta hnútum að mönnum, sem altaf gera skyldu sína. Jeg þekki alla lögreglumenn Reykjavíkur og veit, að þeir gera altaf skyldu sína. (ÁÁ: Það var forsætisráðherra, en ekki jeg, sem setti nýjan lögreglustjóra í Ólafsmálinu.) Mjer skildist á hv. þm. (ÁÁ), að hann teldi mál þetta leyst með því, að víkja lögreglustjóra Reykjavíkur frá embætti og fá öðrum það í hendur.

Hv. þm. (ÁÁ) var að bera saman aðstöðu lögreglunnar hjer og í öðrum löndum. En hver er munurinn? Hjer í Reykjavík er 14 manna lögreglusveit, sem hefir ekkert fast lið að baki sjer og á undir högg að sækja, að borgararnir veiti henni þá aðstoð, sem þeim þó ber skylda til. Erlendis eru lögreglusveitirnar margfalt liðsterkari og hafa þó ætið örugt lið að baki, ef í harðbakka slær. Þetta er mikill munur. Aðstaða lögreglunnar hjer þolir engan samanburð við aðstöðu hennar víðast hvar annarsstaðar.

Annars hygg jeg, að vart muni hægt að fá betri lögreglustjóra en einmitt er nú hjer í Reykjavík, einkum með tilliti til þess, hversu lögregluþjónarnir eru fáir og eiga erfiða aðstöðu. Þegar svo er ásatt, verður lögreglan að keppa að því, að stilla til friðar í hverju máli; hún verður að forðast alt, sem getur orsakað óeirðir. Hún verður þá oft að ganga lengra til þess að halda friðnum heldur en hún mundi annars gera, ef hún hefði öflugt lið. Væri liðið öflugt, mundi hún oft láta skriða fyr til skarar og bæla niður með valdi allar tilraunir til slíkra óeirða.

Áður en jeg sest niður, vil jeg undirstrika það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að það er alls ekki aðalatriðið, að þetta frv; gangi fram eins og það er. Jeg tel nauðsynlegt að breyta því. En mjer finst sjálfsagt, að það gangi til nefndar og fái þar að athugast til hlítar. Jeg álít það skyldu þingsins. Að lögregluvaldið í landinu sje trygt og örugt, er stórmál, sem varðar alla þjóðina.